2. febrúar 2021

Óvissa um þróun kórónuveirufaraldursins hefur skiljanlega leitt af sér áhyggjur varðandi námsframvindu, líðan og fjárhag meðal stúdenta. Við Háskóla Íslands eru rúmlega fimmtán þúsund stúdentar sem fer ört fjölgandi og eru að takast á við mismunandi áskoranir. Stúdentar hafa leitað til Stúdentaráðs í miklum mæli frá því að faraldurinn hófst hérlendis og hefur ráðið gert sitt besta til að kortleggja aðstæður stúdentahópsins með því að kanna líðan og fjárhagsstöðu stúdenta sem og stöðu þeirra innan skólans.

Fyrir marga hefur einveran verið vandasöm sem rekja má til skorts á félagslega þættinum sem alla jafna einkennir háskólagönguna. Niðurstöður könnunar Stúdentaráðs frá 9. október sýndu að 67% stúdenta leið ekki vel á haustmisserinu sökum faraldursins og að rúmlega 73% stúdenta væru að upplifa mikið álag sem þau töldu að hefði áhrif á námsframvindu sína. Frá því í september hafa biðlistar eftir sálfræðiþjónustu við Háskóla Íslands lengst töluvert samanborið við önnur ár. Eftirspurnin hefur verið gríðarleg allt síðasta haustmisseri, umfram getu til að koma til móts við hana. 

Átak Stúdentaráðs í geðheilbrigðismálum síðustu 3 árin hefur skilað góðum árangri og má segja að Háskóli Íslands sé ágætlega í stakk búinn að takast á við eftirspurnina. Þetta er eitt mikilvægasta baráttumál stúdenta vegna þess að það snýr beint að lífskjörum þeirra, andlegri og líkamlegri heilsu. Á tímum sem þessum duga úrræðin þó skammt. Ráðstafanir eru nauðsynlegar og þarf geðheilbrigðisþjónusta einnig að vera aðgengileg utan veggja skólans. Það eru því einnig mikil vonbrigði að ekki sé gert ráð fyrir fjármagni til að tryggja að sálfræðiþjónusta og aðrar klínískar viðtalsmeðferðir séu niðurgreiddar, eins og samþykkt var á þingi í sumar.

Um er að ræða mikilvæga þjónustu sem hefur ef til vill aldrei verið jafn nauðsynleg og einmitt núna.


[Myndin hér að ofan, Mantra for the desolate eftir Joav Devi, er fáanleg hér á Uppskeru listamarkaði.]

Við þetta bætast áhyggjur og efasemdir um góða námsframvindu og hvernig það kunni að bitna á fjárhagsstöðu stúdenta, séu þeir til dæmis á námslánum eða í leiguhúsnæði. Stúdentaráð hefur talað fyrir því að stúdentum sé tryggt fjárhagslegt öryggi til frambúðar og brýnt fyrir stjórnvöldum mikilvægi þess að huga að stúdentum við ákvarðanatöku sem þeim viðkemur. Ein helsta krafa ráðsins er að tryggja stúdentum rétt til atvinnuleysisbóta að nýju.

Það er staðreynd að af launum stúdenta rennur atvinnutryggingagjald í atvinnuleysistryggingasjóð, eins og hjá öllum vinnandi landsmönnum. Þá áttu stúdentar rétt á atvinnuleysisbótum, í námshléum, fram til ársins 2010 en með því að öðlast þann rétt að nýju gætu þeir einfaldlega sótt aðstoð sem þeir hafa áunnið sér. Stúdentar standa höllum fæti en þannig er mál með vexti að það liggja ekki fyrir fullnægjandi gögn um stöðu stúdenta á vinnumarkaði af hálfu stjórnvalda og því hefur Stúdentaráð sjálft staðið fyrir slíkri gagnaöflun. Þessi krafa hefur hingað til mætt lokuðum dyrum jafnvel þó að stúdentahreyfingarnar hafi mætt undirbúnar til leiks.

Stúdentum er ennþá meinaður aðgangur að sjóði sem þeir eiga fullan rétt á, á sama tíma og námslánakerfið virðist ekki geta þjónað tilgangi sínum sem jöfnunartól er veitir námsaðstoð.

Þetta er raunveruleiki stúdenta. Það eru margs konar atriði sem hafa áhrif á heilsu, félagslega og efnahagslega stöðu þeirra og yfirleitt haldast þau í hendur eins og hefur verið raunin á tímum heimsfaraldurs. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar vegna ýmissa vandkvæða sem stúdentar rekast á eru þeir látnir sitja eftir því aðgerðir stjórnvalda hafa lítið tekið tillit til fjölbreyttra þarfa og aðstæðna þeirra. Þá spyr ég mig, ef kallinu er ekki svarað þegar neyðin er mest, hvenær þá?— — —

Höfundur er forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands og fulltrúi stúdenta í háskólaráði.

— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
fyrri grein
Erlendir námsmenn á Íslandi: Hvað er það sem við viljum?

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Atvinnuleysistryggingakerfi sem bitnar á konum í námi

næsta grein
COVID-19:If There Are No Reactions During the Greatest Urgency, When Will There Be?


Lesa meira um...

Ef kallinu er ekki svarað í heimsfaraldri, hvenær þá?