Sem myndlistarnema er mér skylt að læra listasögu; hvernig listin hefur þróast meðfram samfélaginu og hvernig fólk og list hafa talað saman frá upphafi mannkyns. Hvað hefur verið gert og hvernig listamenn og konur hafa skapað og túlkað líðandi stund.
Nema hvað… Það vantar eitthvað, en hvað? Jú, íslensku listakonurnar. Voru þær of uppteknar að sinna heimili og börnum til að gera list og skapa?
Nei, nefnilega ekki.
Staðreyndin er sú að það voru og eru fullt af konum að gera list. En af hverju er ekki talað um þær? Hvers vegna fá þær ekki pláss innan listasögunnar? Ég velti fyrir mér hvar ábyrgðin liggur að fjalla um konur innan listarinnar. Er það á mína ábyrgð sem myndlistarnema að kynna mér þær konur sem hafa gert list í gegnum tíðina eða er það á ábyrgð listfræðinga, sýningarstjóra og sögukennara að hafa þær í námsefninu og inni í senunni?
Á mínu daglega skrolli gegnum „instagram“ rakst ég á síðuna Myndlist íslenskra kvenna. Þar birtast myndir af og eftir íslenskar listakonur og mörg af þeim verkum sem þar er að finna hef ég aldrei séð eða heyrt um. Ég hafði samband við forsprakka þessarar síðu og bað hana að hitta mig og spjalla um hvað fyllti hana andagift og fékk hana til að koma síðunni á laggirnar.
Áður en ég byrjaði í sagnfræði vissi ég ekki mikið um list, hef ekkert endilega verið að hugsa um list og kem ekki úr menningarlegri fjölskyldu, þannig lagað. Þegar ég byrja svo í listfræði fyrir tveimur árum fer ég að læra um nokkrar listakonur svo ég ákvað síðasta haust að taka íslenska listasögu. Þá fór ég að heyra nöfn kvenna sem ég hafði aldrei heyrt um, fór svo heim að „gúggla“ til að læra meira um þær og það kom rosa lítið upp. Það er lítið hægt að lesa sér til um þessar konur á netinu, sem er fáránlegt. Svo kemur náttúrulega í ljós að það er fullt til af frábærum listakonum sem komust ekkert á glærurnar hjá kennurunum heldur. Það eru helstu nöfnin, Nína Tryggvadóttir, Guðmunda Andrésdóttir og Gerður Helgadóttir sem rata á glærurnar en svo er fullt af öðrum konum sem „tekur því ekki að tala um“.
Ég ákvað að halda áfram að leita og byrja á þessari síðu í jólafríinu mínu í fyrra og fór upp á bókasafn, fór að skanna inn myndir og lesa mér til um þær. Mig langaði að gera öðrum auðveldara að finna verk eftir þessar konur og fræðast í leiðinni aðeins meira um þær. Ég hef náttúrulega ekkert verið að skrifa neitt um þær þannig séð en myndi alveg vilja breyta því.
Mér finnst Nína Tryggva mjög skemmtileg og einnig Ragnheiður Jónsdóttir. Hún gerði femíníska list á áttunda áratugnum, t.d. tvö verk sem tengjast kvennaverkfallinu. Hún tengdist sjálf aldrei rauðsokkunum. Hún var heimavinnandi húsmóðir og fannst rauðsokkur gera svolítið lítið úr henni en verkin hennar eru mjög femínísk samt sem áður, mjög skemmtileg. Hildur Bjarnadóttir líka, hún gerir hannyrðalistaverk. Ég sjálf hekla og sauma út og finnst gaman þegar konur gera hannyrðaverk og þeim er leyft að vera list, þrátt fyrir að vera eitthvað sem „allir kvenmenn eigi að kunna“ og því oft ekki talið sem alvöru list.
Eins Hildur Hákonardóttir. Var að skoða hana. Hún vefur stór veggteppi sem eru mjög falleg og femínísk og brjóstapoka sem hún óf á áttunda áratugnum.
Nei, hef ekkert verið að nota þetta í skólanum en langar að halda áfram með þetta verkefni. Fann bara síðasta haust að ég þyrfti að gera eitthvað í þessu, koma þessum konum aðeins fram. Ég hef síðan í desember 2017 verið að setja eina mynd inn á dag og finnst það fínt. Ég byrjaði frekar einfalt og notaði konur úr áfanganum Íslensk listasaga í HÍ, sem eru ekki margar konur. Ég byrjaði á þessum þekktustu og hef verið að reyna að finna aðrar sem eru minna þekktar og líka þær sem eru enn að. Og stundum fæ ég sendar ábendingar um listakonur og skoða þær.
Ég er helst að nálgast efni á bókasafninu og vefsíðum listasafnanna, t.d. vef Listasafns Reykjavíkur, þau eru dugleg að setja inn myndir á netið. En ég finn jú rosa mikið í bókum og langar að gera þessar myndir aðgengilegri með því að setja þær á netið, safna þeim á einn stað. Svo er ótrúlega gaman að skoða gömul blöð á timarit.is — maður byrjar og svo fer maður bara á bólakaf og er búin að eyða heilu kvöldstundunum að lesa og skoða.
Þetta kemur erlendis frá og mig langaði að „starta“ þessu hér — gera þetta að smá átaki. Því þetta getur verið ströggl. Yfirleitt ef talað er um konur í erlendri listasögu þá eru það kærustur eða konur listamanna — og fengu að vera með því þær voru tengdar körlum.
Það læra ekki allir listfræði eða myndlist og stúdera þetta. Það er ekki fyrr en þá sem maður fer að heyra smá um þessar konur, annars ekki. Ég verð mjög pirruð. Mig langar að leggja mitt af mörkum að reyna breyta þessu. Ég setti þetta í „storí“ á Instagram, en mig langar að gera meira. Koma þessu áfram. Koma þessum konum OUT THERE.
Þær voru svo margar — þetta voru ekkert bara þessir karlar, Kjarval og Einar Jónsson o.s.frv., heldur eru og voru ógrynni kvenna að gera list. Þær lögðu sig svo mikið fram og komu með margt inn í listina og senuna á Íslandi, t.d. erlendar stefnur.
Mjög karllæg. Það eru helst kvenkyns kennarar sem eru að reyna að koma konunum inn en karlarnir eru meira í pólitíkinni og stríðunum, og ef konur koma fyrir þá eru það Bríet kannski og ástandið — konurnar svolítið tæklaðar bara með því að tala um ástandið — það er ekkert um rauðsokkahreyfinguna, svolítið talað í kringum þær, smá tabú.
Það virðist vera svo lítill áhugi á að rannsaka hvað konur voru að gera á Íslandi. Kennarinn minn hefur nefnt það. Það virðist vera sú hugmynd uppi að konur hafi ekki gert neitt og verið bara heima með börnin og séð um heimilið. Við heyrum ekkert um þær og gerum ráð fyrir því að þær hafi ekki verið að gera neitt — en þær gerðu heilmargt annað. Engin furða að maður viti það ekki, því manni er ekki kennt. Til þess að vita það þarf að heyra um það og tala um það. En maður fær enga kennslu og þarf að stúdera þetta sjálfur — sem er galið. Ekki allir fara í rannsóknir sjálfir og hafa hvorki tíma né áhuga. Þetta ætti að vera hluti af skyldufögum allt niður í grunnskóla og mögulega leikskóla.
Ég þakka Guðmundu fyrir spjallið og það einstaklingsframtak sem hún hefur lagt á vogarskálarnar.
En hversu mörg einstaklingsframtök þurfum við til þess að koma þessu inn í kennslu í skólum og sögubækur?
Hvað þarf til?