Handmótuð áhrif — 1600 Niðurfelld nauðgunarmál
Handmótuð áhrif — 1600 Niðurfelld nauðgunarmál er verkefni sem sett var af stað fyrir tilstilli og framtakssemi lögfræðingsins, listakonunnar og aktívistans Evu Huldar Ívarsdóttur. Vegna umfangs og vægis verkefnisins fékk hún fljótlega til liðs við sig æskuvinkonu sína, viðskiptafræðinginn og fjármálasnillinginn Önnu Láru Friðfinnsdóttur.
Frá árinu 2000 — 2020 hafa um 1600 nauðgunarákærur verið felldar niður. Á þessum tölum vildi Eva Huld vekja athygli og fékk því þá hugmynd að myndgera hverja kæru í leirstyttu með aðstoð áhugasamra þátttakenda.
Starfsfólki réttarvörslukerfisins ber ekki skylda að halda utan um þær tölur af málum sem látin eru niður falla.
Samkvæmt utanaðkomandi skýrslu Hildar Fjólu og Þorbjörgu Sigríðar, sem inniheldur tölur frá árunum 2008 — 2009, voru 189 nauðgunarmál tilkynnt til lögreglu, af þeim voru 158 felld niður; 101 hjá lögreglu og 57 hjá Ríkissaksóknara. Út frá þessum tölum áætlaði Eva Huld þann fjölda mála sem felld voru niður yfir tvo áratugi frá 2000 — 2020. „Ég vann mastersverkefnið mitt í lögfræði út frá 20 nauðgunarmálum og í kjölfar útskriftar hafði kona samband við mig varðandi mál hennar sem var látið niður falla.“ Evu brá heldur betur í brún þegar hún skoðaði málavexti og blöskraði þá staðreynd að málið hefði ekki hlotið hljómgrunn innan kerfisins þrátt fyrir fjölda sönnunargagna sem hefðu getað nýst við rannsókn málsins.
Samkvæmd Evu Huld er verkefnið í kjarnan mannréttindabarátta: gjörningur þar sem fólki með sammannlegan reynsluheim er stefnt saman til að túlka á hvaða hátt réttarkerfið hefur brugðist brotaþolum. Réttarkerfið sem meðal annars hefur það hlutverk að gæta mannréttinda og friðhelgi fólks.
Nauðgunarmenning er rótgróinn hluti af okkar veruleika og flestar, ef ekki allar, konur kannast við ógnina sem henni fylgir.
Fólki finnst auðveldara að búa í samfélagi þar sem ‘konur eru bara misskilja’ eða ‘eru of tilfinningaheitar’ heldur en að búa í samfélagi þar sem menn nauðga. Eitruð karlmennska og skortur á samtali veldur því að menn læra ekki að virða mörk, samskipti né það að fá samþykki. Líf kvenna inniheldur hættuna á að vera áreittar eða beittar ofbeldi á hverjum degi, kaldranalegur en raunverulegur veruleiki kvenna.
Með verkefninu vilja skipuleggendur verkefnisins sýna fram á umfang samfélagslegra vandamála sem fyrirfinnast í kerfinu á áhrifaríkan og sjónrænan hátt. Þær vilja vekja athygli á þeim fjölþætta vanda sem í eðli sínu varðar rót mannréttindabaráttu samtímans. Markmiðið er m.a. að afhjúpa þann kerfislæga vanda að nauðgunarmál eru ekki tekin nógu alvarlega í réttarvörslukerfinu og þeim ekki veittur sá framgangur sem nauðsynlegur er. Eins er markmiðið að sameina þolendur, listafólk og fræðafólk til að lýsa vandanum sem best á fjölbreyttan og listrænan hátt. Auka sýnileika umræðunnar og gera vandann áþreifanlegri.
Lokaafurðir verkefnisins verða 1600 leir-listaverk og stefnt er að sýningu í Ráðhúsi Reykjavíkur sem opnuð verður á upphafsdegi 16 daga alþjóðlega átaksins gegn kynbundnu ofbeldi þann 25. nóvember 2021 og fær að standa alla 16 daga átaksins.
Eva Huld segir alla áhugasama velkomna að taka þátt í verkefninu. Þær eru með opnar vinnustofur á miðvikudögum og laugardögum og eru allir velkomnir sem styðja við þolendur og vilja leggja verkefninu lið. Eins hafa þær boðið hópum sem vilja meira næði að koma á öðrum tímum eftir samkomulagi. Þetta er viðkvæmt málefni og gengur nærri fólki, því er mikilvægt að fólki líði vel og sé með þann möguleika að hafa andlegan stuðning ef það velur að koma og taka þátt.
Þær verða með vinnustofur á Akureyri og nágrenni í næstu viku en verða svo aftur með vinnustofur í rýminu sem þær hafa í Reykjavík í lok maí.
Hægt er að fylgjast með framvindu verkefnisins sem og nálgast upplýsingar um vinnustofur verkefnisins hér