Mamma sagði mér einu sinni frá samræðum sem hún átti við ömmu. Ég var lítill þegar þær áttu sér stað, líklega tveggja eða þriggja ára, og man ekki eftir þessu en mamma sver að þetta sé satt. Samræðurnar snérust greinilega um mig því amma snéri sér allt í einu að mömmu og sagði; „þetta barn á eftir að ganga í stuttbuxum einn daginn“.
Það voru nokkur atriði sem vöktu athygli mína þegar móðir mín sagði mér frá þessu. Í fyrsta lagi var þetta sirka 1995 eða 1996 og þá var mjög óalgengt að stúlkur væru í stuttbuxum á Filippseyjum. Í öðru lagi sagði amma barn en ekki stúlka. Eins og hún hefði á tilfinningunni hvað framtíð mín bæri í skauti sér. Þessi orð særðu auðvitað og móðguðu móður mína en hún var fljót að vísa þessu á bug. En framtíðin átti eftir að koma henni á óvart.
Við fluttum til Íslands árið 1998 en pabbi hafði flutt hingað 1996. Hann fékk vinnu á Íslandi, bjó í lítilli íbúð í Hveragerði og lagði fyrir til þess að geta flutt fjölskyldu sína yfir hálfan heiminn. Loksins var fjölskyldan sameinuð og lífið var gott. Við systir mín byrjuðum í skóla og eignuðumst vini. Foreldrar okkar unnu mikið og eftir nokkur ár gátum við flutt til Reykjavíkur. Við fluttum í Breiðholtið þar sem búa miklu fleiri, bæði innflytjendur og Íslendingar. Ég byrjaði í skóla og eignaðist nokkra vini en þau vináttubönd áttu ekki eftir að endast.
Grunnskólagangan var viðburðalítil, ég eignaðist nokkra vini en hékk lítið með krökkunum í bekknum. Ég var mest með systur minni og við lékum okkur saman, eða við frændsystkini okkar. Systir mín er aðeins ári eldri en ég svo við urðum mjög náin og erum reyndar enn.
Þegar ég var lítill og eftir því sem ég varð eldri fannst mér ég hvergi passa, hvorki félagslega né líkamlega. Það var eins og ég tilheyrði ekki en ég gat ekki sagt nákvæmlega til um hvers vegna. Fannst mér ég ekki tilheyra þessu lífi? Eða fannst mér ég ekki tilheyra þessu lífi sem þessi manneskja?
Svarið við þessari spurningu átti eftir að koma í ljós seinni hluta unglingsáranna.
Ég vissi frá unga aldri að ég var öðruvísi. Ég hafði ekki áhuga á sömu hlutum og systir mín og hagaði mér allt öðruvísi en aðrar stelpur í skólanum. Allt í mínu fari var strákalegt og mér leið ekki vel í eigin líkama. Það var eins og eitthvað vantaði. Þegar ég varð unglingur fóru strákar að vekja athygli mína. Ég laðaðist að þeim. Seinna meir dvínaði þessi áhugi og hvarf á endanum alveg. Ég áttaði mig á því að ég hafði aldrei laðast að þeim, ég vildi vera eins og þeir. Ég hristi þessa hugmynd af mér og bældi niður tilfinningar mínar. Þetta var byrjunin á neikvæðu hugarfari og vanlíðan en ég vissi það ekki þá. Ég kom fyrst út úr skápnum með tvíkynhneigð. Ég hélt að tvíkynhneigð væri fullkomin skýring á því hvers vegna ég upplifði allar þessar ólíku tilfinningar og hneigðir. Þegar ég viðurkenndi að ég hafði jafn mikinn áhuga á stelpum og strákum var eins og þungu fargi væri af mér létt. Ég var hamingjusamur og ánægður, mér leið eins og ég væri loksins sú manneskja sem mér var ætlað að vera.
Með tímanum gerði ég mér grein fyrir að ég hafði meiri áhuga á stelpum en strákum, sem olli mér reglulegum kvíðaköstum og ég varð sífellt þunglyndari og vonlausari vegna þeirrar stöðu sem ég var í.
Ég laug að sjálfum mér og öðrum í langan tíma. Ég var aldrei hreinskilinn um hver eða hvað ég var, ég fylgdi bara þeim óskrifuðu reglum sem voru félagslega samþykktar á þeim tíma en það olli mér mikilli þjáningu og vanlíðan.
Ég var lagður inn á geðdeild rétt fyrir tvítugt vegna sjálfsmorðshugsana og kvíða. Ég skildi ekki hvers vegna mér leið svona illa né allar þessar neikvæðu hugsanir. Einhvern veginn hafði ég sjálfur komið mér í þessa stöðu og aðeins um tvennt að velja; að fara gegn ráðum læknisins og bæla allt niður eða reyna að komast að því hvers vegna mér leið svona. Ég var inni á geðdeild í tæpa tvo mánuði og átti bæði góða og slæma daga. Stundum neitaði ég að fá heimsóknir og mér fannst ég einfaldlega vera þar sem að ég ætti að vera.
Á Geðdeildinni fannst mér ég hafa misst allt samband við umheiminn og í fyrsta sinn á ævinni horfðist ég í augu við vandann og þær spurningar sem ásóttu mig. Hvers vegna mér leið eins og mér leið og hver vegna ég gerði það sem ég gerði. Ég tók þátt í hópmeðferð á deildinni, mér til mikils ama. Sumir dagar voru betri en aðrir en einnig komu dagar þar sem ég gerði ekkert annað en að sofa. Þetta var virkilega erfitt tímabil fyrir bæði mig og fjölskylduna mína. Kvíði og þunglyndi voru ekki til í orðaforða foreldra minna og þau skildu bara ekki hvernig nokkur gæti óskað þess að vera ekki á lífi. Þrátt fyrir það voru þau þolinmóð við mig og reyndu sitt besta til að skilja og styðja mig. Þau eru reyndar enn að reyna að skilja mig og vera til staðar fyrir mig, á sinn hátt.
Hvers vegna mér fannst ég ekki tengja við huga minn né líkama. Hvers vegna mér fannst ég vera að ljúga að öllum þegar ég kynnti mig með gamla nafninu mínu og hvers vegna mér fannst ég ekki þekkja mína eigin spegilmynd. Í nokkrar mínútur, í fyrsta sinn á ævinni, upplifði ég hugarró.
Upphaf kynleiðréttingarferlisins var mér erfitt. Þótt ég væri búinn að viðurkenna fyrir sjálfum mér að ég væri strákur, þá var hluti af mér sem þurfti að venjast tilhugsuninni og taka hana í sátt. Þvert á trú margra tekur það sinn tíma að koma út úr skápnum sem þitt sanna sjálf og viðkomandi þarf tíma til að venjast því. Mér finnst eins og fólk gleymi þessu oft. Að koma út úr skápnum sem trans maður (e. female-to-male transgender) er stórt skref, sama hversu mikið þú veist að það er rétt. Þessi ákvörðun hafi ekki bara áhrif á geðheilsu mína, hún hafði líka mikil áhrif á fjölskylduna og þá sérstaklega mömmu. Að vissu leyti var hún að syrgja dóttur sína og hennar framtíð en í raun og veru var barnið hennar loksins búið að láta sjá sig.
Til að hefja kynleiðréttingarferlið þarf að mæta í mörg viðtöl við meðferðaraðila sem sérhæfa sig á þessu sviði. Í viðtölunum þurfti ég að horfast í augu við mörg af mínum vandamálum og takast á við þau. Það var mjög erfitt fyrir mig að tala um kynama minn (e. gender dysphoria) við ókunnuga manneskju en ég varð að gera það til þess að geta tekið næsta skref í ferlinu. Mér varð það ljóst í þessum viðtölum að ástæðan fyrir því að mér fannst ég svona ótengdur sjálfum mér var að mér leið ekki vel í eigin skinni. Hugurinn var einfaldlega ekki í takt við líkamann. Þetta skýrði svo margt:
Ég hélt að það yrði erfitt að velja mér nafn, en það var ábyggilega það auðveldasta við allt ferlið. Í lokin á einum læknatímanum sagði læknirinn minn við mig: „Í næsta tíma, myndi ég vilja að þú kynntir þig með öðru nafni, eins og við værum að hittast í fyrsta skipti. Við vinnum svo út frá því“. Vikuna á eftir hugsaði ég um nöfn sem kæmu til greina og ég prófaði meira að segja að skrifa nokkur niður með eftirnafninu mínu, til að kanna hvort það kæmi vel út. Ég leitaði líka á netinu þar sem var fullt af nöfnum sem vöktu athygli mína. Þegar næsti tími með lækninum rann upp og ég kynnti mig með nýju nafni var það þó ekki eitt af nöfnunum sem ég hafði flett upp, heldur datt mér þetta nafn í hug fyrirvaralaust og tilfinningin var ólýsanleg.
Næstu árin í kynleiðréttingarferlinu voru mjög erfið en þrátt fyrir það upplifði ég frelsi. Mér leið eins og ég hefði loksins fundið mitt raunverulega sjálf. Mér fannst ég ekki lengur lifa í lygi. Loksins var ég sú manneskja sem mér var ætlað að vera en samt var ég í raun enn sama manneskjan, með sömu eiginleika og sama persónuleika og áður.
Eins og fólkið í kringum mig, þurfti ég líka að venjast breytingum á líkamanum vegna hormónanna; fæturnir stækkuðu um heilt númer, skeggvöxtur og líkamshár urðu sýnileg en aðalbreytingin var hvað röddin dýpkaði mikið.
Fólki sem ég hafði ekki hitt í töluverðan tíma brá þegar það heyrði mig tala. Það kom líka fyrir að mamma mín trúði mér ekki þegar hún talaði við mig í símann. Ég tók ekki sjálfur eftir því að röddin dýpkaði, maður heyrir það eiginlega ekki sjálfur fyrr en maður hlustar á gamla upptöku. Meira að segja þá trúði ég ekki hve mikið dýpri hún var orðin. Annað sem ég tók eftir snemma í ferlinu var hvað það gladdi mig mikið að heyra fólk nota karlkynsfornöfn og nýja nafnið mitt. Það voru svona litlir hlutir sem gerðu dagana bærilegri. Þetta sýndi mér líka hversu vænt fólki þótti um mig og vildi að mér liði vel. Með hverjum deginum jókst sjálfstraustið og ég fór að trúa að kannski væri ekki svo slæmt að vera til.
Næsta skref í ferlinu var brjóstnámsaðgerðin. Ég hafði heyrt aðra trans stráka tala um hana; hversu langan tíma hún tæki, hvernig hún færi fram, hversu langan tíma það tæki að jafna sig og hvað það hefði verið stórkostlegt að fara í sund í fyrsta skipti. Fyrir aðgerðina hafði ég ekki farið í sund í tvö ár, sem er langur tími fyrir mig. Eftir margar misheppnaðar tilraunir til að fá að fara í aðgerðina, sem var oft frestað vegna undirmönnunar á spítalanum, kom loksins að þessu. Þann 27. júní 2017, eftir næstum því tvö ár á karlhormónum (e. testersterone), breyttist líf mitt til hins betra. Þungri byrði var af mér létt, bókstaflega, og mér fannst ég loksins geta andað. Ég þurfti ekki lengur að binda upp brjóstin, eða vera í þröngum vafningi undir stuttermabolnum. Ég þurfti ekki lengur að krossleggja arma eða vera hokinn til að láta barminn virðast vera flatari.
Sem betur fer fyrir mig voru brjóstin á mér ekki stór. Aðgerðin tókst vel og ég fór heim af spítalanum með tvo lítil ör, u.þ.b 2-2,5 cm við hvora geirvörtu. Í dag sjást örin varla. Ég hefði aldrei trúað því að skurðaðgerð gæti haft svona mikil áhrif á það hvernig ég upplifi mig í eigin líkama. Þegar ég hafði jafnað mig eftir aðgerðina fór ég í sund í Hveragerði í fyrsta skipti í tvö ár og tilfinningin þegar ég gekk út í engu nema sundskýlu er eitthvað sem ég mun aldrei gleyma. Ber og flöt bringa var eitthvað sem ég þurfti að venjast en mér var alveg sama; fyrstu vikurnar eftir aðgerðina gekk ég um ber að ofan heima, hvort sem ég var á leiðinni í sturtu eða ekki.
Það eru nokkrir hlutir sem ég er orðinn góður í síðan ég kom út sem ég sjálfur; að þykjast samþykkja „búningsherbergjatal“ í karlaklefanum þó að ég taki aldrei þátt í því og fara í sturtu og skipta um föt í ræktinni. Það síðara krefst mikillar leikni í að hylja kynfærin með handklæði.
Ég hugsa oft um hvar ég væri staddur hefði ég ekki haft hugrekki til að horfast í augu við vandann og spyrja mikilvægra spurninga eins og „af hverju líður mér svona?“ og „hvað get ég gert?“ Ég hugsa að ég væri ekki hér í dag, hefði ég kosið aðra leið, útgönguleiðina. Það er alltaf einhver leið til að yfirstíga allar hindranir en maður verður að vera tilbúinn að leggja á sig þá vinnu sem það krefst, daga sem nætur. Þetta lagast ekki á einni nóttu, hlutirnir breytast ekki eftir viku, þetta tekur tíma og þú þarft stanslaust að minna þig á að það er ekkert að þér og að það er engin skömm að viðurkenna að þú sért að glíma við vandamál og þurfir hjálp. Umkringdu þig góðu fólki, fólki sem gerir þig hamingjusamt/hamingjusama/n og þakklátt/þakkláta/n að vera til og hættu að setja sjálft/sjálfa/n þig aftarlega í forgangsröðina — því að þú átt skilið að vera fremst á þeim lista. Þú ert þess virði. Fyrir mörgum árum gat ég ekki talið mér trú um það, en ég veit það núna.
Nú hef ég verið á karlhormónum í fimm ár og það eru rúmlega þrjú ár frá því að ég fór í brjóstnámsaðgerð. Ég er 27 ára og stunda nám í ensku til B.A. gráðu og er líka í hlutastarfi. Ég er trúlofaður og við eigum von á okkar fyrsta barni. Ég á fjölskyldu sem elskar mig og styður, ég umgengst fólk sem gerir mig hamingjusaman, sem ég get sýnt tilfinningar mínar og grátið með og allt þar á milli.