18. nóvember 2020

— TW —

Það er óhollt að reykja, vegna þess að það er krabbameinsvaldandi. Það er ósiður að senda smáskilaboð undir stýri, vegna þess að þá er líklegra að þú lendir í eða valdir umferðarslysi. Hvívetna er biðlað til þín að bursta tennurnar tvisvar á dag, drekka vatn, keyra á löglegum hraða, sofa nóg, borða fimm ávexti á dag og stunda líkamsrækt til þess að viðhalda líkamlegri heilsu en hvergi er þér ráðlagt að huga að geðheilsunni. Auglýsingar í sjónvarpinu sýna föl andlit látinna barna á þjóðvegum landsins og þú ert beðið um að spenna á þig beltin, en hvar er verið að biðla til þín að stunda geðrækt?

Á hverju ári látast að meðaltali þrjátíu og níu einstaklingar úr sjálfsvígum á Íslandi. Það er ansi há tala og sjáum við á tímum heimsfaraldurs tæplega 70% aukningu á sjálfsvígum í íslensku samfélagi. Þrátt fyrir þessar óhugnanlegu tölur og þá óumflýjanlegu staðreynd að fátt er hægt að gera til þess að útrýma sjálfsvígum, rétt eins og fátt er hægt að gera til þess að útrýma krabbameini, virðist sem svo að bannhelgin sem hvílir yfir sjálfsvígum vegi hærra en þörfin fyrir forvörnum. Sjálfsvíg eru gríðarlega erfið og flókin umræðu, vegna þess að þeim fylgir alltaf óheyrileg sorg og eftirsjá. Það er skiljanlegt upp að vissu marki en að sama skapi má spyrja sig að því, hvernig við ætlum að fara að því að breyta einhverju sem ekki má tala um.

Hvernig ætlum við að fræða fólk um sjálfsvíg ef það er bannað að segja frá þeim? 

Geðræn vandamál, raskanir og sjúkdómar eru leyndarmál í hverri fjölskyldu. Það eru líkamlegir sjúkdómar sjaldnast. Það þykir engin skömm yfir því að Gunna frænka sé með sykursýki en það má aldrei minnast á það að Nonni frændi hafi látist úr sjálfsvígi. Fjölmiðlar veigra sér að sama skapi við því að fjalla um sjálfsvíg þjóðþekktra Íslendinga, en deila má um ágæti þeirrar ákvörðunar.  Rökin eru gjarna sú að sé verið að hlífa fjölskyldu hins látna frá frekara umtali, því sjálfsvíg virðast vera slúðurfréttamatur og þeim fylgir mikil skömm. En hvers vegna er meiri skömm yfir því að látast úr sjálfsvígi heldur en að fá hjartaáfall eða lenda í banaslysi? Þegar sjálfsvígum er sópað undir teppið, ýtir það aðeins undir sjúklega dulúðina og vanþekkingu samfélagsins á sjálfsvígum sem dánaorsök. Þegar augljóst er að um sjálfsvíg er að ræða, ber að fjalla um það líkt og fjallað væri um hvert annað andlát. Aðeins með því að rífa plásturinn af og ræða bannhelga hlutina opinskátt og blaðalaust, getum við unnið að því að efla forvarnir samfélagsins. Við getum ekki haft áhrif á það sem ekki má tala um. 


Sjálfsvíg eru því miður, eins og staðan er í dag, hluti af mannlegri reynslu. Það eru til sjúkdóma, raskanir og alvarlegir heilsubrestir sem valda því að fólk lætur lífið úr sjálfsvígum. Það er því vonlaust að ætla að koma í veg fyrir þau með einu og öllu. Fólk heldur áfram að reykja þó það sé óhollt og fólk heldur áfram að veikjast á geði, þó umræðan opnist. Við getum hins vegar átt stóran þátt í forvörnum gegn sjálfsvígum og unnið markvisst að fækkun þeirra, rétt eins og með betri forvörnum eru færri ungmenni sem reykja í dag og ég er líklegri til þess að spenna beltin þegar ég er minnt á það. Okkar sterkasta vopn gegn fordómum, vanþekkingu og afnámi banvænnar þagnarinnar – er fræðsla.

Árangursríkasta leiðin til þess að sporna við aukningu sjálfsvíga er að ræða um þau á þeim forsendum sem eðlilegast væri: sjálfsvíg eru dánarorsök alvarlegra heilsubresta og geðvandamála. 

Öll orð hafa ábyrgð og þegar kemur að því að breyta viðhorfum samfélagsins til hins betra, skiptir orðræða öllu máli. Fordómar grassera í fáfræðinni og þegar fólk upplifir fordóma, er enn líklegra að það loki sig af og deyi. Orðræðan skiptir öllu máli og þess vegna er ekki aðeins mikilvægt fyrir okkur sem samfélag að opna umræðuna heldur einnig beina henni á rétta braut. Þegar við förum að tala rétt um sjálfsvíg getum við farið að vinna rétt að forvörnum. Þannig breytast viðhorf samfélagsins. Rétt eins og gert hefur verið í umræðunni um kynjamisrétti, kynþáttafordóma og fordóma gagnvart druslum, verðum við að eigna okkur orðræðuna og breyta viðhorfum samfélagsins til sjálfsvíga. Sjálfsvíg eru dánarorsök, þau eru ekki athyglissýki. Það kýs enginn að vakna einn daginn uppfullur af sorg, sársauka og djúpstæðu hatri í eigin garð sem verður til þess að heilinn sannfærir eiganda sinn um að deyja. Sjálfsvíg eru ekki framin í hugsunarleysi eða sjálfselsku, þau eru afleiðing alvarlegra heilsubresta. Þegar talað er um sjálfsvíg sem sjálfselsku eða gert er grín að þeim, eins og að líkja einhverju leiðinlegu við það að vilja drepa sig, er verið að gera lítið úr þeirri erfiðu og flóknu upplifun að finna fyrir því að langa að deyja.
Sjálfsvígshugsanir eru mesti sársauki sem ég hef nokkurn tímann upplifað. Þær bora sig inn í heilann eins og sníkjudýr og halda í sér lífi með því að éta upp til agna allt sem þér þykir vænt um og allar þínar góðu tilfinningar, minningar, drauma og vonir. Þær éta ormagöng í gegnum heilann þangað til ekkert er eftir nema tómleikatilfinningin sem fylgir því að lifa með alvarlegu þunglyndi. Fátt er jafn ógnvænlegt og upplifa það að langa að deyja. Í því er engin skynsemi, enda er heilinn til þess búinn að halda í okkur lífinu. Það er bókstaflega hans eina hlutverk, að sjá til þess að við höldum lífi. Það er engin skynsemi í því að langa að deyja, þegar lífið hefur upp á svo margt að bjóða.

Geðraskanir spyrja ekki út í skynsemi.

Þær láta góðviðrisdaga og ástríkar orðsendingar aðstandenda þinna sem vind um eyru þjóta á sama tíma og þær sannfæra þig um að binda endi á eigið líf. Geðraskanir eru einmitt það, raskanir og sjúkdómar sem eiga að lúta sömu lögmálum í orðræðunni og líkamlegir sjúkdómar. Fólk sem deyr úr krabbameini er ekki uppnefnt athyglissjúkt eða sjálfselskt og það ætti fólk sem deyr úr sjálfsvígum ekki að vera uppnefnt heldur.

Sjálfsvíg eru og verða alltaf erfið umræðu. Umræðan verður aðeins erfiðari og flóknari ef endalaust er lokað á hana. Sjálfsvíg eru alltaf flókin, sársaukafull og torskilin fyrir þau sem eftir standa, vegna þess að flest eru svo heppin að upplifa aldrei sársauka sjálfsvígshugsanna. Eftir stendur viðkvæmur hópur fólks sem fær lítil bjargráð í geðheilbrigðiskerfinu og þarf að reiða sig nánast alfarið á grasrótarstarfsemi og félagasamtök til þess að ná áttum eftir ástvinamissinn. Aðstandendaskömmin er mikil, vegna þess að mikil samfélagsleg pressa er sett á fjölskyldur, vini og maka, að bjarga þeim sem veikur er. Okkur er sagt að „tjékka” á vinum okkar, vera duglegri að hringja og spjalla, segja þetta en ekki hitt, eins og eitt töfrasímtal geti bjargað sjúklingi sem kannski hefur verið veikur um árabil. Foreldrar álása sér fyrir uppeldið og vinir fyrir að hafa ekki sinnt sjúklingnum betur sem er jafn fáránlegt og að skammast í sjálfu sér fyrir að hringja ekki í vin sinn sem lést í bílslysi og minna þau á að nota belti. Þegar sársaukinn hefur tekið yfir og manneskjan er við það að láta lífið úr sjálfsvígi er fátt hægt að gera og á það heldur ekki að vera á ábyrgð aðstandenda að bjarga þeim veiku. Til þess höfum við heilbrigðiskerfi og menntað fólk innan þess, skólakerfi sem á að stunda forvarnir og kenna okkur um geðheilsu jafnt og líkamlega heilsu. Það er alveg jafn mikilvægt að bursta tennurnar og það er að hlúa vel að geðheilsunni. 

Við búum í velferðarríki sem ætti að setja geðheilsu þjóðarinnar markvisst í forgang.

Þegar geðheilsunni fer hrakandi, fer líkamlegu heilsunni það líka og öfugt. Geðheilsan er grunnurinn sem við byggjum líf okkar á og þegar koma brestir í steypuna eigum við ekki að þurfa að reiða okkur á foreldra okkar eða maka til þess að maka steypu yfir sprungurnar. Á hverju ári látast að meðaltali þrjátíu og níu einstaklingar úr sjálfsvígum á Íslandi og það er okkar skylda, sem samfélag, að setja geðheilsuna í forgang, efla forvarnir og kennslu í skólum, heilbrigðiskerfinu, hjá lögreglunni og ríkisstjórninni – því þegar öllu er á botninn hvolft erum við öll með geð, og öll getum við orðið veik á því.

Höfundur er Silja Björk, rithöfundur

— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
fyrri grein
Kynleiðrétting: Þegar ég varð ég sjálfur

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Kona er nefnd: fræðandi hlaðvarp um konur og kynsegin

næsta grein
Flóra samfélagsins og heilbrigðiskerfið


Lesa meira um...

Þrjátíu og níu létust úr sjálfsvígum