29. nóvember 2018

Hæ! Ég er kynsegin.

Ég heiti Margrét. Þú mátt samt alveg kalla mig Mars, sumir vinir mínir gera það.

Æ, málið er að ég nota fornafnið hán (sem beygist eins og lán) og fólki finnst oft auðveldara að nota það með Mars þar sem Margrét er svo kvenlægt nafn.

Sjáðu til, ég er ekki hán, hán er bara fornafn. Ég er nefnilega kynsegin.

Svona hljóma flest fyrstu kynni mín þessa dagana. Ég var að byrja í háskólanum og á hverjum degi sest ég niður með einhverjum sem ég hef aldrei talað við. Áður en varir er gullna spurningin borin upp:

„Hvað heitir þú?“

Og ég byrja strax að greina þig, velta því fyrir mér hversu upplýst/ur þú sért, hversu langa ræðu ég þurfi að taka til þess að telja þér trú um að ég sé fyrir víst ekki kona.

Til þess að sanna tilverurétt minn. Eða hvort þú munir hvort eð er ekki breyta neinu heldur hafa þetta bara eftir þínu höfði. 

Besta leiðin mín í gegnum heiminn núna er að gefa mig út í bitastærðum. Eins og Kit Kat án barnaþrælkunar. Nógu stórt til þess að vera freistandi, til þess að fólk vilji taka bita. Samt ekki það stórt að þú fáir leið á bragðinu strax. Ég búta mig niður svo tilvera mín verði auðmeltanleg fyrir hin almenna borgara. Svo engum blöskri og enginn verði svo örvinglaður að viðkomandi fái sér aldrei aftur Kit Kat þegar þau leita að sæti á Háskólatorgi.

kynsegin

Málið er að með því að vera ég sjálft þá er ég ósjálfrátt og óumflýjanlega orðið pílagrímur. Ég er trúboði hinsegin trúarbragðsins. Trúleysingjar horfa á mig fullir efasemda og hugsa „Þú hefur afvegaleiðst litla barn,“ og vilja ólmir beygja mig til baka. „Það er hættuleg myndlíking að líkja þessu við pílagrímsför, fólk gæti misskilið,“ segir frænka með áhyggjuróm í röddinni.

Stundum langar mig að ganga með YouTube-link í vasanum og geta slengt honum á sjónhimnu fólks í hvert sinn sem einhver lítur á mig ráðvilltum augum þegar ég segist vera svangt. Eða tattúera HÁN THEY/THEM á ennið mitt. 

Þessar pælingar koma þó bara þegar ég er fullkomlega búið á því. Sem er stundum. Enda ósköp streituvaldandi að fá alltaf hraðan hjartslátt þegar maður segir til nafns.

Inntakið í þessu er samt sem áður ekki að hætta að spyrja til nafns. Það er mikilvægur partur af nýjum kynnum. Inntakið, kæri lesandi, er að opinn hugur getur opnað heilu nammibúðirnar. Bara með því að segja: „Já, ertu kynsegin? Segðu mér meir.“

Eftir að ég skrifaði þennan pistil fór ég yfir hann nokkrum sinnum til þess að hljóma ekki of hvasst og ágengt. Til þess að gera hann auðmeltanlegan. Til þess að hafa hann í bitastærðum. Kannski meira eins og Mackintosh en Kit Kat. Virkar vel er það ekki? Að líkja sálarörðugleikum sínum við súkkulaði?

kynsegin

Nú getur þú velt því fyrir þér í skammdeginu hvaða parta af þér þú hefur einfaldað í bitastærðir. Og hvaða bita þú þiggur af öðrum. Pældu í því hvernig fólk er í raun nammipokar fullir af allskonar gómsætum hlutum og hvað við gætum öll notið hvors annars betur ef við værum bara tilbúin að smakka.

 — Mars 

Fleiri greinar eftir Mars Proppé.













— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
Sóley Tómasdóttir - Muna: Loka gluggum og sleppa áreitni!

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Kynjatvíhyggja: Meira en litningar

næsta grein
Konur á móti körlum: Aðskilnaður kynjanna í Mexíkóborg


Lesa meira um...

Kynsegin: Andlegar bitastærðir