Jaðarsettir hópar samfélagsins gera þá kröfu að skapað sé rými fyrir þá, það skapar jafnrétti. Sýnileiki er eitthvað sem jaðarsett fólk þarf að berjast fyrir, í dægurmenningu og list. Tökum þáttaraðir sem dæmi, man tekur eftir því að ef framleiðendur þáttaraðarinnar eru jaðarsettir hvernig hlutverk og leikarar eru valdir. Þó gert sé ráð fyrir að hinsegin fólk sé yfir 10% af mannfjöldanum þá sjáum við ekki 10% af hlutverkum vera hinsegin. Ef það er hinsegin fólk í framleiðslunni á þáttaröðinni þá eru gerðar meiri kröfur um sýnileika hinseginleika og fjölbreyttra jaðarsetningar meðal hlutverkanna. Birtingarmyndir jaðarsetningar verða mikið raunverulegri þegar fólk sem verður fyrir jaðarsetningunni skapar hlutverkið því þau hafa persónulega reynslu af því að vera jaðarsett. Hinsegin fólk ætti því að leika hinsegin fólk og fatlað fólk ætti að leika fatlað fólk. Það er svo mikilvægt að geta speglað sig í öllu því efni sem við neytum.
En svo kemur fyrir að ég heyri hinsegin einstakling segja ,,þarf allt sem ég geri að vera hinsegin eða snúast um hinseginleika?“
og það gerir mig hugsi. Er þá verið að tala um að hinseginleiki verði of stór hluti af lífi þeirra eða tilveru? Fólk velur ekki að vera jaðarsett, en það er hluti af þeirra tilveru og það er ekki hægt að líta á tilveru þeirra án þess að tekið sé tillit til jaðarsetningarinnar. Hinseginleikinn minn er stór hluti af mínu sjálfi en getur aldrei orðið of stór hluti. Þó að ég sé margt fleira en hinsegin þá er ég alltaf hinsegin, ég get ekki sleppt því þegar það hentar öðru fólki ekki. Það sem jaðarsett fólk skapar, á hvaða formi sem er, hefur jaðarsetning þeirra áhrif á ferlið og útkomuna því jaðarsetningin hefur áhrif á líf þeirra. Þó að hinseginleiki sé ekki beint umfjöllunarefni þá hefur hann samt áhrif á umfjöllunarefnið.
Við erum alin upp í samfélagi sem gerir ekki ráð fyrir því að fólk sé jaðarsett, það gerir ráð fyrir norminu – ófatlaða, óhinsegin, hvíta, efnaða, mjóa fólkinu. Barnabækurnar sem við lásum sem börn voru um fólk í norminu, kvikmyndir og þættir birtu leikara eða karaktera sem pössuðu inn í normið.
Þegar karakter er utan normsins þá er hann í aukahlutverki og eina hlutverk hans er að vera öðruvísi. Við verðum fullorðin í samfélagi sem segir ekki sögur jaðarsetts fólks. Ef við viljum sjá fólk eins og okkur í útgefnu efni þá er ábyrgðin sett á okkur og við verðum að skapa efnið sjálf. Við getum ekki gert kröfu á sýnileika jaðarsettra hópa nema ef við vinnum að því sjálf. Með tímanum getur óhinsegin fólk líka farið að gera ráð fyrir því að sjá hinsegin fólk í útgefnu efni.
Sjónarmiðsfemínismi er sá hluti feminískra fræða sem leggur áherslu á stöðu jaðarsettra hópa í samfélaginu. Staðsetning jaðarsettra hópa í stigveldi feðraveldisins gerir þeim kleift að vera meðvitaðir og gagnrýna stigveldi feðraveldisins frekar heldur en ójaðarsettir hópar. Staðsetning okkar í stigveldinu segir til um hvernig raunveruleiki okkar er. Við getum bara sett okkur í spor þeirra sem eru á sama stað eða fyrir ofan okkur í stigveldinu, en ekki þeirra sem eru fyrir neðan. Man getur ekki ímyndað sér hvernig að er að hafa færri réttindi en man hefur upplifað, en man getur ímyndað sér hvernig það er að hafa fleiri réttindi. Hinsegin fólk er ekki allt á sama stað í stigveldinu þar sem hinsegin fólk hefur mismikil forréttindi milli hinseginleika og með tilliti til samtvinnunar annarra mismunabreyta (kynvitund, húðlitur, fötlun o.s.frv.). Þetta er eitthvað sem er tekið með í reikninginn innan hinsegin samfélagsins.
Hinsegin fólk er margvíslega jaðarsett, ekki einungis vegna samtvinnunar mismunabreyta. Hinsegin fólk sem er sís mætir ólíkum fordómum og hindrunum heldur en hinsegin fólk sem er trans eða kynsegin, sem er ólíkt upplifunum hinsegin fólks sem er intersex. Við erum því mismunandi jaðarsett þó að við séum öll hluti af hinsegin samfélaginu. Réttindabarátta hinsegin fólks er því mjög fjölbreytt og á sum hennar við ákveðinn hinseginleika. Hinsegin fólk er ekki aðeins að berjast fyrir eigin réttindum heldur fyrir réttindum alls hinsegin fólks.
[Myndin hér að ofan, Regnboga Gleym-mér-ei eftir Söru Höskuldsdóttur, er fáanleg hér á Uppskeru listamarkaði.]
Þó að ég geti aldrei upplifað hinseginleika sem er ekki minn þá er það á minni ábyrgð að kynna mér margbreytileika hinsegin samfélagsins, hvernig hann tvinnast saman og hvernig staða mismunandi hinsegin fólks er í samfélaginu. Það er mikilvægt að hinsegin samfélagið standi saman og taki öllu hinsegin fólki opnum örmum. Það er mikilvægt fyrir hinsegin fólk sem er í gagnkynja samböndum, fyrir hinsegin fólk sem talar ekki opinskátt um eigin hinseginleika og fyrir hinsegin fólk sem er ekki komið út. Sýnileiki er mikilvægur til að sýna hversu mörg og ólík við erum.
Það er ákveðin krafa um sýnileika þeirra sem eru hinsegin en það þýðir ekki að þau sem kjósa að hafa ekki hátt um hinseginleika sinn séu eitthvað minna hinsegin eða óvelkomin í hinsegin samfélagið. Enn mikilvægari krafa er á hinsegin fólki að skapa öruggara rými sem býður allt hinsegin fólk velkomið.
Hinsegin fólk er oft spurt að því hvernig þau komu út og hvernig viðbrögðin voru. En þá er alltaf verið að spyrja bara um fyrsta skiptið sem þau komu út. Það er ákveðinn vendipunktur að segja upphátt við einhvern annan að man sé hinsegin, þá er man orðin það örugg með sjálft sig að man getur deilt því með öðrum. Fyrsta skiptið sem fólk kemur út er bara byrjunin því hinsegin fólk þarf stöðugt að vera að koma út, fyrir nýju fólki og í nýjum aðstæðum. Það getur verið mjög auðvelt og það getur verið flókið. Við sumar aðstæður þarf að bíða með að koma út til að tryggja eigið öryggi eða hlúa að eigin heilsu og vellíðan. Þó að hinseginleiki sé mikilvægur hluti af tilveru hinsegin fólks (og við viljum ekki án hans vera) þá er hinsegin fólk alltaf í viðkvæmri stöðu þegar það kemur út. Til þess að geta verið ég sjálf þarf ég að koma út. Samfélagið á að geta verið fordómalaust í garð hinsegin fólks þá þarf hinsegin fólk að geta komið út við allar aðstæður og verið öruggt.
Í gegnum söguna hefur stækkun hinsegin samfélagsins oft skapað fjandsamlegar aðstæður, sem hefur tekið tíma að vinna úr. Samstaða jaðarsettra hópa er sérstaklega mikilvæg við aðstæður sem þessar. Að draga úr baráttu annarra jaðarsettra hópa en síns eigin sýnir kjarkleysi og fordóma. Sem dæmi má nefna fordóma í garð tvíkynhneigðra, trans fólks og BDSM-hneigðra frá öðru hinsegin fólki. Þó að það gerist mikið sjaldnar meðal hinsegin fólks heldur en óhinsegin fólks þá er mikið sárara að sjá fordómana eiga sér stað innan hinsegin samfélagsins því það á að vera öruggt rými fyrir allt hinsegin fólk. Ef fólk á alltaf að vera hinsegin þá þarf það að geta verið hinsegin innan hinsegin samfélagsins líka.
Að segja að hinseginleiki fólks taki of mikið pláss eða að hinseginleika einhvers sé þrýst á óhinsegin fólk endurspeglar fáfræði og fordóma. Það ógnar ekki óhinsegin fólki að hinsegin fólk fái að taka pláss, fái að tala um hinsegin líf sitt og tilvist og skapa hinsegin efni og list. Jaðarsett fólk hefur þurft að búa í samfélagi sem þröngvar samfélagslegum normum og stöðlum á öll.
Ég vil vera hinsegin alltaf. Þá er ég hreinskilin við sjálfa mig og tek það pláss sem ég þarf. Ég vil ekki þurfa að hafa áhyggjur af því að vera of hinsegin fyrir hið samfélagslega norm. Allt sem ég geri er því hinsegin.
Höfundur er varaforseti Q – félags hinsegin stúdenta