Í gær voru 96 ár síðan að Alexandrína drottning lagði hornstein að byggingu Landspítalans
– tilkoma spítalans var árangur sleitulausrar vinnu íslenskra kvenna fyrir bættum aðstæðum sjúkra og veikra og er nátengd baráttu þeirra fyrir stjórnmálaréttindum á Íslandi
Eins og segir á vef Kvennasögusafnsins þá áttu konur verulegan þátt í því að koma spítalanum á fót. Íslenskar konur hófu nefnilega fjársöfnun árið 1916 til byggingar Landspítalans í tilefni þess að hafa loksins fengið viðurkennd stjórnmálaréttindi sín árið 1915. Kvenréttindadagurinn, 19. júní, varð allt frá byrjun að árlegum hátíðar- og fjáröflunardag kvenna fyrir Landspítalasjóðinn og sjóðurinn lagði á endanum stóran skerf til hins nýja spítala.
Í ávarpi Kristínar Ástgeirsdóttur á Þingvöllum á 90 ára afmæli stjórnmálaréttinda kvenna rekur hún meðal annars sögu íslenskra kvenréttindakvenna og segir: „Kvenréttindakonur töldu sig hafa annarri reynslu að miðla en karlar, þær hefðu aðra sýn á samfélagið, þær sæu ýmislegt það sem karlar sæu ekki eða vildu ekki sjá. Þar áttu þær við hið veika, fátæka og smáa, þá þegna þjóðfélagsins sem þurftu aðstoð og vernd.“
Landspítalinn tók til starfa 20. desember árið 1930 og er að mörgu leiti minnisvarði stjórnmálaréttar kvenna á Íslandi. Eins og Kristín Ástgeirsdóttir segir í áðurnefndu ávarpi þá var það „…einmitt í þeirra anda að beita kröftum sínum í þágu allrar þjóðarinnar ekki síst hinna sjúku.“ Vert er að minna á það að á sunnudaginn næstkomandi eru 107 ár frá því að íslenskar konur gátu boðið sig fram og kosið sjálfar til alþingiskosninga.
Á vef Landspítalans skrifar Árni Björnsson, sem hefur tekið saman sögu spítalans, svona:
„Tilurð Landspítalans var árangur af langri og harðri baráttu þar sem konur voru í fararbroddi og hafa þær æ síðan haft frumkvæði að mörgum framkvæmdum í sjúkrahúsmálum í landinu.“ Fyrir utan áðurnefndar kvennréttindabaráttu konur má hér meðal annars nefna St. Jósefssystur sem unnu mikið brautryðjendastarf í heilbrigðisstarfsemi hér á landi og Félag íslenskra hjúkrunarkvenna (í dag Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga) sem stóð í fararbroddi fyrir eflingu hjúkrunarfræðimenntunar.
Í steininn sem Alexandrína drottning lagði árið 1926 er meðal annars ritað „Hús þetta – Landsspítalinn – var reistur fyrir fje sem íslenskar konur höfðu safnað og Alþingi veitt á fjárlögum til þess að: Líkna og lækna.“
Alexandrína var gift Kristjáni 10. danakonungi og var þar af leiðandi drottning dana frá 1912 til 1947, hún var drottning Íslendinga frá því að Ísland varð fullvalda ríki árið 1918 og fram til stofnun lýðveldis árið 1944.
Eins og margar aðrar drottningar var hún upptekin af góðgerðarmálum og þar til hún lést vann hún umfangsmikið starf á þeim vettvangi. Þótt henni sé lýst sem hlédrægni, feiminni og ekki mikið fyrir opinberar framkomur er hún sögð hafa haft skarpa greind. Hún var ákafur golfari og ljósmyndari ásamt því að stunda einnig handverk á háu stigi.
Alexandrína er amma sitjandi Danadrottningar Margrétar 2.