18. nóvember 2020

Geðheilsa er mikið í umræðunni og á síðustu árum hefur orðið gífurleg vitundarvakning um mikilvægi þess að ræða andlega líðan og leita sér aðstoðar þegar þess þarf. Þá er mikið talað um að hlúa að geðheilsunni og aðferðir til þess. Opin umræða um tilfinningar, vanlíðan og hvers kyns sálræn vandamál er gríðarlega mikilvæg því hún eykur skilning og dregur úr fordómum. Til að umræðan nýtist þarf þó að vera til staðar ákveðinn skilningur á því hvað geðheilsa er. Þegar upplýsingar og ráð um geðheilsuna koma úr mörgum áttum og frá ólíkum einstaklingum geta þau jafnvel orðið ruglandi og yfirþyrmandi.

Á manni alltaf að líða vel? Þurfa allir að hugleiða, stunda jóga og vera hjá sálfræðingi til að eiga möguleika á góðri geðheilsu? Hvað er geðheilsa?

Góð leið til að skilja geðheilsu er að setja hana í samhengi við líkamlega heilsu enda er geðheilsa alveg jafn órjúfanlegur hluti af heilsu einstaklings. Á sama hátt og við erum ekki alltaf frísk þá erum við ekki alltaf glöð og áhyggjulaus. Góð geðheilsa snýst um jafnvægi; að geta upplifað bæði góðar og erfiðar tilfinningar. Góð geðheilsa er þegar manni líður að jafnaði vel og getur tekist á við mótlæti og áskoranir daglegs lífs.

Það gildir um bæði líkamleg og andleg veikindi að sum eru alvarleg en önnur eru væg, stundum þarf aðstoð fagaðila og stundum er hægt að meðhöndla þau án aðstoðar. Þannig má líkja vægum andlegum erfiðleikum við flensur og kvefpestir. Dæmi um þetta er þegar við eigum daga þar sem okkur líður frekar illa eða erum stressaðri en vanalega án þess að það vari lengi, komi ítrekað fyrir eða hafi teljanleg áhrif á líf okkar. Í slíkum tilvikum er mikilvægt að hlúa að sér og reyna að draga úr einkennum. Flest þekkjum við leiðir til að losna við kvef en það er ekki síður mikilvægt að læra hvað virkar fyrir hvern og einn til að draga úr vanlíðan, stressi og hvers kyns erfiðum tilfinningum sem geta komið upp í daglegu lífi. 


Stundum eru veikindi alvarlegri en svo að við getum meðhöndlað þau án aðstoðar. Þegar einstaklingur fær lungnabólgu leitar hann til læknis og þegar einstaklingur upplifir alvarlegri sálræn einkenni ætti að leita til fagaðila. Algengt er að fólk telji sinn vanda ekki nógu alvarlegan til að leita aðstoðar og miði við vandamál annarra, bíómyndir, bækur eða álíka. Slíkur samanburður er ekki gagnlegur og ef maður er í vafa ætti að fá mat fagaðila á því hvort aðstoðar sé þörf. Það þarf ekki að vera með fullmótaða geðröskun til að fá aðstoð, mörgum finnst gott að leita til fagaðila þegar þau upplifa erfiðar tilfinningar, eiga í einhverskonar samskiptavanda eða eru að ganga í gegnum persónulega erfiðleika eins og að hætta í sambandi eða missa ástvin. Finni maður fyrir andlegum erfiðleikum en telji þá ekki vera nógu alvarlega til að leita aðstoðar er gott er að hafa í huga að þeir gætu verið byrjunin á alvarlegra vandamáli.


Það er mikilvægt að þekkja einkenni og vera vakandi fyrir andlegum veikindum og erfiðleikum. Andleg veikindi geta læðst aftan að fólki. Einkenni stigmagnast oft yfir langan tíma og það er auðvelt að verða samdauna þeim, telja að þau séu eðlileg og reyna að harka þau af sér.

Íslenska mýtan um að það sé merki um dyggð að harka hlutina af sér á eflaust stóran þátt í geðvanda þjóðarinnar.

Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að geðheilsa kemur öllum við. Það fer enginn í gegnum lífið án þess að kvefast og með sama hætti upplifa allir einhvern tímann andlega erfiðleika. Erfðir og umhverfi ráða því hversu alvarleg sálræn vandamál við munum upplifa, á sama hátt og þessir þættir stjórna því hversu alvarlega við veikjumst eða slösumst líkamlega um ævina.

         Allir þurfa að hlúa að sinni geðheilsu með viðeigandi hætti. Viðeigandi háttur getur verið gífurlega mismunandi eftir fólki og umfangi vandans. Sumir iðka jóga eða stunda hugleiðslu að staðaldri. Fyrir aðra getur verið nóg að grípa til jóga eða hugleiðslu þegar geðheilsunni hrakar og fyrir enn aðra gera slík bjargráð lítið gagn. Fyrir marga er mikilvægt að sofa nóg og hreyfa sig. Það sem virkar fyrir einn virkar ekki endilega fyrir annan. Hvert og eitt okkar þarf að finna sín geðheilsuráð, læra á sína líðan og leita sér aðstoðar þegar henni hrakar of mikið eða of lengi. Oft er sagt að heilsan sé það mikilvægasta sem við eigum og það á líka við um geðheilsu. Það er nauðsynlegt að einstaklingar, samfélagið og stjórnvöld setji geðheilsu í forgang til að stuðla að bættri líðan og auknum lífsgæðum.

Höfundur er Kristín Hulda Gísladóttir, sálfræðingur.— — —

Hægt er að lesa meira um geðheilsu, tilfinningar og geðraskanir á gedfraedsla.is.

Upplýsingar um úrræði má finna á https://gedfraedsla.is/hvert-get-eg-leitad/.

Vert er að benda á að ef leitað er til aðila sem ekki hafa starfsleyfi frá Landlæknisembætti eru þeir ekki skuldbundnir til að fylgja reglum um starfshætti eða siðareglum auk þess sem ekki er hægt að tilkynna um misbresti í starfi til Landlæknis. Landlæknisembættið gefur út starfsleyfi fyrir sálfræðinga, lækna, hjúkrunarfræðinga, félagsráðgjafa, áfengis- og vímuefnaráðgjafa og fleiri fagstéttir. Starfsheiti á borð við ráðgjafi, þerapisti, fræðingur, klínískur ráðgjafi, klínískur fagaðili og meðferðaraðili eru ekki lögvernduð starfsheiti og um þau gilda engar reglur.

— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
fyrri grein
Úr heimi móður: Allir eru að bíða eftir mömmu

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Veganismi: Skoðanaskipti

næsta grein
Úrræði jaðarsettra, aðgengi og hindranir


Lesa meira um...

Hvað er geðheilsa?