18. nóvember 2020

Við sem skrifum þennan pistil erum þrjár systur. Halla er 32 ára myndlistarmaður sem hefur nýlega lokið meistaraprófi í listkennslufræðum frá Listaháskóla Íslands. Viktoría er 30 ára með Bs gráðu í sálfræði og diplómu í starfsendurhæfingu. Gróa Rán er 30 ára iðjuþjálfi sem stundar nú meistaranám í fötlunarfræði við Háskóla Íslands.

Við ólumst upp í sveit og vörðum miklum tíma saman úti í náttúrunni og á meðal dýra. Við erum mjög ólíkar en eitt af því sem við eigum sameiginlegt er að hafa allar greinst með geðhvörf, en það eru tímabil sem einkennast af geðhæðum og geðlægðum.

Þrátt fyrir að vera allar með sömu greiningu, þá eru birtingarmyndir hennar ekki þær sömu. Með því að deila þessu samtali okkar á milli vonumst við til að gefa lesendum tækifæri á að sjá geðhvörf í öðru ljósi út frá okkar upplifunum. 


Halla: Árið 2011 kom það fyrst almennilega í ljós að ég átti við geðræn vandamál að stríða en þá fór ég í geðrof á ferðalagi erlendis. Ég var lögð inn á geðdeild í London og síðan í framhaldi hérna heima á Íslandi. Það er samt oft erfitt að setja fingurinn á það hvenær maður veikist fyrst. Ég held að ég hafi alveg átt við geðræn vandamál að stríða löngu fyrir það.

Viktoría: Á þessum tíma þá vissum við líka ekkert hvað geðhvörf eru svo þessi veikindi voru mjög framandi. 

Gróa Rán: Einmitt, ég var greind með þunglyndi þegar ég var 12 ára gömul en eftir á að hyggja var það upphafið af mínum geðhvörfum. Það er ekki fyrr en 2015 sem ég fékk geðhvarfagreiningu en þá fór ég upp í stóra maníu í kjölfar álags. Álag er eitt af áhættuþáttum þess að maður skýst upp og þarna fór ég það hátt að ég var lögð inn.

Viktoría: Ég greinist svo með geðhvörf ári seinna, en vorið 2016 fór ég upp í mjög stóra maníu. Rétt eins og hjá Gróu var það í kjölfar álags og breytinga í mínu persónulega lífi.


Halla: Eftir að maður veikist þarf maður svo einhvernveginn að takast á við þessa nýju sjálfsmynd sem er að vera geðsjúklingur.

Mér fannst ég ekkert endilega passa við þessa steríótýpu sem ég hélt að ég ætti að passa í.

Ég leitaði að henni í bíómyndum og í bókum. Las um listamenn og fleira á þeim nótum og sankaði að mér því sem mér fannst passa við mína upplifun. Þegar ég sá svo sjónvarpsþátt um konu sem var í mjög alvarlegri maníu þá einhvernveginn áttaði ég mig á að þarna var eitthvað sem samsvaraði því sem ég gekk í gegnum. Ég fann fyrir létti því mér leið þá eins og ég vissi betur hvað var í gangi hjá mér. Ég fékk líka þetta orð, geðhvörf.


Gróa Rán: Ég eiginlega tek undir þetta. Það er svo oft talað um svona stimpil sem tengist greiningum og greiningar eru oftast settar upp sem eitthvað neikvætt eins og í fjölmiðlum og annað. Mín upplifun er hinsvegar sú að greining … nú tala ég auðvitað bara út frá mér persónulega … sé ekkert nema jákvæð, afþví að við það að fá réttu greininguna getur maður fengið rétta meðferð. Aðkoma fagaðila skiptir miklu máli og hjá mér fékk ég aðstoð frá Geðhvarfateymi Landspítalans. Með þeirra stuðningi gat ég lært að lifa með þessum sjúkdómi og fengið rétt lyf sem að hjálpa mér. Þá loksins gat ég fengið líf mitt í rauninni aftur. Maður áttaði sig ekkert á því þá en eftir á gat maður séð hvað geðhvörfin voru í rauninni búin að vera að taka yfir mikið af lífi manns. Þannig að um leið og geðhvarfagreiningin kom, þá allt í einu var þetta svona „aha, þarna er þetta komið!“ og eftir þetta var í rauninni fyrst sem ég gat farið almennilega í bataferli.

Viktoría: Þess vegna skiptir þetta svo miklu máli, að þekkja inn á þennan sjúkdóm og þekkja hvaða áhrif hann hefur á mann sjálfan og einmitt þetta að passa sig að láta sjúkdóminn ekki taka yfir.

Þú veist, ég er ekki geðhvörf, ég er Viktoría og er með geðhvörf.

Það kom bara svona ósjálfrátt hjá mér að ég fór að kalla geðhvörfin Málhildi. Sá lífstíll sem ég lifi og lyfin sem ég tek, hjálpa til að halda henni rólegri og í skefjum. Ef ég myndi hætta að passa upp á mig þá yrði Málhildur laus og hún tæki yfir. Málhildur er samt alveg vinkona mín, hún er ekkert einhver norn. Hún er bara Málhildur, ég verð að leyfa henni að lifa með mér en hún verður að halda sér rólegri.

Gróa Rán: Ég gerði líka svolítið eins og Viktoría og tók smá nálgun að ég ákvað að vera vinkona geðhvarfanna. Ég einhvernveginn vildi viljandi bara reyna að horfa á þetta eins jákvætt og ég gæti. Ég tek ábyrgð á svefninum, hreyfi mig reglulega o.þ.h.. Ég tek þessi skref sem að hjálpa mér að viðhalda jafnvægi og batanum. Þannig næ ég að lifa vel með geðhvörfunum og þau hafa ekki neikvæð áhrif á mitt daglega líf. Maður nær að lifa mjög innihaldsríku lífi, svona alla jafna, geðhvörfin hverfa náttúrlega aldrei alveg. Stuðningur aðstandenda skiptir líka mjög miklu máli. Að mínu mati er sjúkdómurinn ekki bundinn við eina manneskju. Geðhvörf hafa ekki bara áhrif á okkur heldur hafa þau rosalega mikil áhrif á aðstandendur. Ég er því ekki eingöngu að huga að minni heilsu heldur reyni ég að vera sem mest í jafnvægi fyrir fjölskylduna mína.


Viktoría: Áður en ég greindist sjálf þá sá ég geðhvörf eingöngu út frá sjónarhorni aðstandanda. Eftir að ég greinist þá breyttist sú sýn alveg og núna get ég sett mig betur í spor systra minna og finnst ég geta veitt betri stuðning fyrir vikið. Að læra á geðhvörf út frá mismunandi sjónarhornum er að mínu mati mjög mikilvægur þáttur til að skilja hvað er raunverulega í gangi. Halla er nýlega búin að gefa út bók, Tók ég eftir því þá eða tók ég eftir því eftirá? sem fjallar um hennar upplifun á því að fara í geðrof. Þegar ég les bókina þá rifjast upp mitt sjónarhorn sem aðstandandi en ég fæ líka innsýn inn í það sem Halla var að upplifa í geðrofinu. Ég hafði aldrei einhvernveginn pælt í því hvernig Höllu leið og hvað hún var að hugsa á þessu tímabili afþví að ég var í mínu hlutverki sem aðstandandi og það eina sem ég gat reynt að gera í þessum aðstæðum var að styðja Höllu sem mest þó að mér fyndist ég stundum bara ekki geta gert neitt. Þegar ég veiktist fyrst var ég mjög heppin að eiga systur sem báðar höfðu upplifað geðhvörf því þær byrjuðu að taka eftir hegðun og einkennum geðhvarfa og gátu því gripið fyrr inn í. Það er alveg möguleiki að ég hefði farið alla leið í geðrof því hegðun mín var svipuð og hjá Höllu rétt fyrir hennar geðrof. Ég sjálf áttaði mig ekki á því hvað var að gerast, en þannig er það líka þegar maður er í maníu. Það skiptir þess vegna svo miklu máli að vita hvað geðhvörf eru og læra inn á sinn eigin sjúkdóm. Það að vera með geðhvörf er heldur ekki eitthvað neikvætt.

Ég get talað fyrir okkur allar þegar ég segi að ef við hefðum valdið til að breyta fortíðinni og koma í veg fyrir okkar geðhvörf þá myndum við ekki gera það.

Þetta var erfitt og er stundum enn, en þessi reynsla hefur þroskað okkur mikið og gert okkur að þeim einstaklingum sem við erum í dag.
Geðhvörf eru bara ein birtingarmynd af mannflórunni sem til er í þessari veröld.


— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
fyrri grein
Þegar bakpokinn verður of þungur: Að greinast með flókna áfallastreitu

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Staðalímynd

næsta grein
Ef ekki núna — ný lög um niðurgreiðslu geðheilbrigðisþjónustu


Lesa meira um...

Geðhvörf: Þrjár systur