12. mars 2021

Ég var frekar ung þegar ég áttaði mig á því að amma mín var ekki alveg eins og ömmur vina minna. Hún bakaði ekki kleinur eða laumaði 500 krónum í úlpuvasann minn þegar ég kom í heimsókn. Hún bauð upp á Homeblest og gaf mér sanseraða regnkápu úr Quelle listanum í þrettán ára afmælisgjöf. Hún fór ekki í lagningu á hverjum föstudegi, heldur klippti hún sig sjálf yfir eldhúsvaskinum og safnaði skotti þegar vel lá á henni. Hún dreifði ekki meinlausum slúðursögum um vini sína og fjölskyldu, heldur njósnaði með kíki um manninn sem bjó fyrir neðan hæðina sem blokkin hennar var á og spann um hann sögur fyrir okkur ömmubörnin.

Hún eldaði ekki uppáhalds matinn okkar þegar við komum í heimsókn, heldur það sem henni þóknaðist og slökkti svo ljósin ef okkur fannst maturinn eitthvað ólystugur og sagði að þetta væri hvort sem er allt eins á bragðið í myrkrinu.

Hún galdraði ekki fram dýrindis morgunmat og kaffitíma þegar við gistum hjá henni um helgar, heldur fór hún í Hagkaup og keypti tilbúin egg í salatbarnum sem hún bauð upp á með brauði. Bara af því henni fannst svo leiðinlegt að elda.

Oftast fannst mér gaman að eiga öðruvísi ömmu. Mér fannst gaman að vera öðruvísi og var það heppin að vera ein af þeim börnum sem komst í einhvern tíma upp með það að vera öðruvísi án þess að gert væri grín af mér fyrir það. Ég naut þess að eiga ömmu sem fór með okkur systurnar í fjallgöngur og útilegur og sem fannst gaman að ruglibulla með okkur. Mér fannst gaman að segja frá ævintýrunum sem við lentum í og að hún fylgdi ekki stereótýpískum kynjahlutverkum. Það voru þó aðrar hliðar á ömmu sem mér líkaði ekki eins vel við: Eins og þegar hún lét sig hverfa út í stormi á aðfangadagskvöld og ræsa þurfti út björgunarsveitir til að leita að henni. Þegar ég var í pössun hjá henni þegar ég var 4 ára og hún skammaði mig allan tímann fyrir hluti sem ég skildi ekki. Þegar hún talaði illa um fólk sem ég elskaði. Þegar hún sagði mér sögur sem voru algjörlega óviðeigandi fyrir börn og þegar mamma þurfti að vera í símanum klukkustundum saman, annað hvort í samræðum við hana, eða til að finna pláss fyrir hana inni á geðdeild.

Ég vissi alltaf að amma var með geðhvarfasýki. Ég er mjög þakklát mömmu fyrir að hafa sagt okkur systrunum það frá upphafi. Það var hluti af lífinu, amma var veik og amma þurfti stundum að leggjast inn á geðdeild. Það hjálpaði mér mikið við að skilja ömmu að vita af veikindum hennar en ég varð samt stundum pirruð út í hana þegar ég var unglingur. Af hverju gat hún ekki bara tekið lyfin sín? Af hverju gat hún ekki bara hætt að vera geðveik? Af hverju, af hverju, af hverju? Ég átti enga aðra ömmu og fannst eins og það væri algjört lágmark að amman sem ég þó ætti væri allavega heilbrigð og fær um að sinna mér á þann hátt sem ömmur vina minna sinntu þeim.





Eftir því sem ég eldist hef ég þó lært enn betur en áður að kunna að meta ömmu mína og hún hefur orðið mér fyrirmynd í mörgu. Sérstaklega þegar kemur að því að lifa lífinu nákvæmlega eins og ég vil, því ég er alveg viss um að amma mín hefði alltaf gert það. Hún hefði alltaf verið skrýtin amma, sem bakaði ekki kleinur, sama hvort hún væri að glíma við geðsjúkdóm eða ekki. Ég er hætt að skilgreina hana út frá geðsjúkdómnum hennar og sé hana sem sterku konuna sem hún var, sem þorði að vera hún sjálf og hafa hátt um sínar skoðanir.

Ég verð samt stundum reið sjálfri mér fyrir að hafa ekki áttað mig á hversu mikil fyrirmynd amma mín var þegar ég var yngri. Kannski hefði ég þorað enn frekar að vera ég sjálf sem barn, en aðallega sem unglingur.

Þegar amma var unglingur á 6. áratug síðustu aldar, fór hún fyrst kvenna í sinni fjölskyldu í framhaldsskóla, þar sem hún skrifaði verkefni um réttindi kvenna, fór til Svíþjóðar sem Au-pair og var yngsta talsímakonan sem starfaði hjá Pósti og Síma. Ég hins vegar áorkaði ekki miklu á mínum unglingsárum árum annað en að hafa áhyggjur af áliti annarra. Ég er samt ennþá reiðari út í kerfið sem greip hana aldrei, út í stofnanir þar sem hún var beitt ofbeldi, lækna sem hlustuðu ekki á hana eða fjölskylduna hennar, fólk sem brást henni og fólk sem misnotaði sér veikindi hennar. 

Ég er reið út í samfélagið sem innrætti mér fordóma gagnvart sjúkdómi ömmu minnar og gerði mér að einhverju leyti erfiðara fyrir að líta á hana sem þá fyrirmynd sem hún svo sannarlega var. Vonandi höldum við áfram að læra sem samfélag svo hætt verði að ýta fólki með geðsjúkdóma til hliðar og þeim veitt sú athygli og aðstoð sem það þarf til að veita öðrum innblástur og vera þeim fyrirmyndir.













— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
Að finna sig - mikilvægi fjölbreyttra fyrirmynda fyrir transfólk

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Geðhvörf: Þrjár systur

næsta grein
Eftirmyndir: Þankagangur um hinseginleika og fyrirmyndir


Lesa meira um...

Geðheilsa: Öðruvísi amma