Við Anna Sonde (15 ára), Johanna Haile Kebede (16 ára), Kristín Taiwo ( 17 ára) , Tamara Akinyi, (18 ára), Tekla Rögn (17 ára) og Valgerður Emanuela Kehinde (17 ára), erum sex stelpur sem að ákváðum að stofna saman instagram reikninginn @antirasistarnir. Þar erum við og fleiri að deila upplifunum okkar varðandi rasisma. Í greininni verður fjallað um hvernig staðalímyndir í afþreyingarmenningu endurspeglast í raunveruleikanum og hvernig áhrif hún hefur á svartar konur.
Femínismi hefur ekki alltaf verið opin öllum og því viljum við nýta tækifærið til þess að lýsa upplifunum svartra kvenna.
The angry black woman eða Sapphire skopmyndin er ein af mörgum staðalímyndum. Uppruni hennar má rekja til skopleikja á 20.öld, þar sem leikarar voru málaðir svartir í framan. Heitið sjálft „the sapphire trope” kemur frá sjónvarpsþáttunum, the Amos and Andy show á 6. áratugnum þar sem kona aðalpersónunnar, Sapphire var gjarnan álitin reið og ókvenleg. Staðalímynd sem átti að vera andstæðan af prúðu hvítu konunni. Svartar konur voru málaðar upp sem sterkar, karlmannlegar, dónalegar og reiðar. Þær áttu að hafa veikt svarta karlmenn og dregið úr karlmennsku þeirra. Þær voru gagnstæða þess sem konur áttu að vera á þeim tíma. Því fengu svartar konur sjaldan að fagna kvenleika sínum á sjónvarpskjáum. Yfir árin hefur staðalímyndin þróast í það að svartar konur séu „aggressive”,„ghetto” eða „ratchet”. Heilar þáttaraðir hafa snúist í kringum þessar staðalímyndir en í þeim er gert lítið úr upplifum svartra og brúnna kvenna. Hvítir áhorfendahópar sjá ekkert rangt við þetta, enda hefur skemmtun á kostnað erfiðs svarts fólks verið gerð eðlileg. Þó er vinsælasta staðalímyndin líklega hlutverk ósvífnu svörtu vinkonunnar eða “the sassy black friend”. Hún er oftast aðeins aukapersóna í sögu hvítra manneskja og er notuð sem aðhláturs efni fyrir áhorfandann. Persónan hennar hefur lágt flækjustig og er aðeins þar til þess að styðja aðalpersónuna. Oftast er dregin sú ályktun að svarta konan sé með innbyggða reiði, og því auðvelt að fá svörtu konuna í að missa sig.
Þessi staðalímynd ýtir undir það að minni líkur séu á því að við tjáum okkur um hluti sem angra eða trufla okkur.
Í afþreyingarmenningu nú til dags er þessi staðalímynd oft það eina sem svartar stelpur geta litið upp til. Staðalímyndin um reiðu svörtu konuna er í dag notuð til þess að ógilda upplifanir svartra kvenna. Tjáning á tilfinningum ætti að vera grundvallarréttindi en þeirra njóta svartar konur ekki. Þær þurfa sífellt að hylja tilfinningar sínar fyrir öðrum. Ef að þær opna sig, er ekki tekið mark á þeim og þær álitnar reiðar og árásargjarnar. Áhrif þess á samfélagið eru mikil og er talið að allt að 70% svartra kvenna séu hræddar um að litið sé á þær sem árásargjarnar. Þetta leiðir til þess að svartar konur byggja upp vegg sem erfitt er að brjóta. Oft er það eina sem svört kona hefur hún sjálf, sem einstaklingur samfélagsins.
Það sem er áhugavert er að hinum megin á rófinu er „the jezebel trope” eða sú hugmynd að svartar konur séu í eðli sínu kynferðislegar en á einn hátt hafnar sú staðalímynd hugmyndinni um að svartar konur hafi ekki kvenleika. Vandamálið við það er að yfir árin hefur kvenleiki svartra kvenna verið fastur í því hve kynferðislegar þær eru. Í staðinn fyrir að virða svartar konur og kvenleika þeirra eru þær hlutgerðar og litið á þær sem kynferðislegar.
Staðalímyndin á uppruna sinn í nýlendustefnunni og þrælahaldi, en svart fólk var talið undirmannlegt og nær dýrum en mönnum.
Það var sett í dýragarða út um allan heim og sérstaklega svartar konur sem voru álitnar með svo stóra og kynferðislega líkama. Þar á meðal Zarah Baaman en hún var svört kona sem var álitin vera með munaðargjarnan líkama, með breiðar mjaðmir og stór brjóst. Hún var sýnd sem verðlaunagripur um allt Bretland og átti að sýna hve holdlegar svartar konur voru.
Þrælahald og nýlendustefna leiddi til umhverfis þar sem svörtum konum var sífellt nauðgað. Út frá því fæddust blönduð börn, en hvítt fólk þurfti að finna afsökun til þess að geta nauðgað ungum svörtum konum þar sem það var varla litið á þær sem manneskjur. Því var sú hugmynd sköpuð að svartar konur væru í eðli sínu freistandi og kynþokkafullar. Líkami þeirra var í kjölfarið næstu aldir hlutgerður og andlitsdrættir þeirra taldir vekja holdlegar hvatir. Þetta sést alls staðar í Hollywood.
Persónur líkt og Carmen Jones í samnefndri mynd og Sharon Stone í The Flintstones sýna fram margar af þessum staðalímyndum.
Staðalímyndirnar framkallast meira að segja í ástarmálum svartra kvenna sem eru oft lituð af þráhyggju á svarta kvenmannslíkamanum. Setningar líkt og „ég hef aldrei verið með svartri konu” eða „svartar konur eru með svo stóra rassa” hlutgera svartar konur sem kynferðislegar gyðjur sem hafa ekki tilfinningar eða persónuleika. Svartar konur hafa tilfinningar líkt og allt annað fólk. Það, að það þurfi að taka það fram, sýnir hve langt við eigum eftir til að ná jafnrétti.
Gegnum söguna hafa upplifanir svartra kvenna ekki verið teknar með í femíníska baráttu. Kerfi líkt og hvít kynþáttahyggja skildu svart og annað litað fólk út undan.
Nú, á tímum sem þessum, eru loksins að skapast hreyfingar sem taka inn upplifanir allra kvenna en hægt er að líta til „womanism” og „intersectional feminsim”. Femínismi á að tryggja frelsisbaráttu fyrir allar konur. Feðraveldið mun því aldrei falla án þess að önnur kerfi kúgunnar hrynji með.