Í janúar árið 2019 fór 62 ára danskur karlmaður í búð til þess að kaupa sér nýjar gallabuxur. Það getur verið snúið að finna gallabuxur við hæfi, það þekkjum við öll, og hann bað þess vegna um aðstoð. Hjálpin barst hratt og örugglega. Sextán ára afgreiðslustúlka stökk til, vissi nákvæmlega hvar réttu buxurnar væri að finna. Hann afþakkaði þó.
Hann afþakkaði aðstoðina vegna þess að áður nefnd afgreiðslustúlka var með klút um höfuðið – hijab. Maðurinn taldi sig hafa rétt til þess að kaupa sínar gallabuxur í friði, eins og hann orðaði það í blaðviðtali. Án þess að þurfa að sitja undir áhrifum tiltekinna trúarbragða. Í blaðaviðtali sagði hann einnig: „Ég get ekki verið sá eini þeirrar skoðunar!“
Það er hann því miður ekki. Stjórnmálamenn og aðrir menn stukku til og fordæmdu rétt stúlkunnar til að bera klútinn í því fjölmenningarlega samfélagi sem Danmörk er, og hefur verið lengi. Þeim fannst það ófært að ekki væri hægt að kaupa gallabuxur lengur, án þess að verða fyrir árás trúboða.
Sem betur fer var yfirmaður stúlkunnar ekki sammála. Sagði manninum að hann yrði að kaupa sínar buxur annars staðar.
Það er, eins og áður sagði, árið 2019. Við búum í heimi þar sem fólk er alls konar – konur eru alls konar. Það er því erfitt að ímynda sér að klútur, um höfuð eða háls, geti talist árás á 62 ára karlmann sem vantar gallabuxur. En þessi saga endurspeglar því miður þann veruleika sem allt of margar konur sem búa í þeirri fjölmenningu sem Evrópa er, þurfa að þola. Það er komið fram við þær eins og annars flokks borgara, af þeirri ástæðu einni, að þær velja að hylja hár sitt. Konur hafa borið hijab í Danmörku í áratugi, og segja fræðimenn að þessi atburður og viðbrögðin í kjölfarið séu eins og bergmál umræðu sem var löngu hljóðnuð.
Ástæðan gæti verið sú, að víða í Evrópu hafa verið sett lög um notkun búrku og niqab, þar á meðal í Danmörku. Búrkan hylur líkamann allan, og fyrir augunum er net. Á niqab er op fyrir augun. Þær konur sem velja að klæðast niqab eða búrku taka áhættu í hvert sinn sem þær fara út úr húsi. Fötin sem þær kjósa að ganga í eru nefnilega ólögleg. Þeim er meinaður aðgangur að menntakerfinu, og ef þær sækja börnin sín í leikskóla eða fara út í búð til þess að kaupa í matinn, eiga þær á hættu að hringt sé á lögregluna og þær í kjölfarið handteknar.
Það sem verra er, dæmi eru um að borgarar taki lögin í eigin hendur. Óhugnalegar sögur óma á samfélagsmiðlum um konur sem hafa verið rifnar úr fötunum á almannafæri, keyrt er utan í þær með innkaupakerrum og ókvæðisorðum hreytt að þeim. Þó lögin einskorðist við búrku og niqab, bitna þau líka á þeim konum sem bera hijab, sem einungis hylur höfuð og háls.
Þessi grein er skrifuð af virðingu við þessar konur. Því konur eiga að fá að klæða sig eins og þær vilja. Án afskipta lögreglunnar, eða annara samfélagsþegna.
Greinin er skrifuð af virðingu við fyrrum nemanda minn, sem var spurð að því í atvinnuviðtali hvort hún ætlaði sér að bera „þetta“ í vinnunni. Hún togaði í klútinn sem huldi höfuð hennar og spurði: „Þetta? Já reyndar fer ég ekki út úr húsi án þess að bera „þetta“ en ég hafði nú hugsað mér að vinna með höndunum – ekki með klútnum mínum.“ Hún er í fullu námi, með þrjú börn og vinnur flest kvöld vikunnar.
Maðurinn hennar er óvinnufær, því það vantar á hann aðra löppina. Það er líklega rétt að taka það fram að það voru ekki konur með klút um höfuðið sem sprengdu af honum fótinn. Ástandið er manninum hennar þungbært. Hann hefur hvatt hana til þess að taka niður klútinn, því það auki líkur hennar á því að fá vinnu. Það tekur okkar kona ekki í mál. Algeng staðalímynd er sú að feður, bræður og eiginmenn neyði konur sínar til þess að ganga með hijab.
Vinkona okkar lætur engan segja sér hvernig hún klæðir sig – hvorki eiginmann né yfirmann. Og rétt er að taka fram, að hún fékk vinnuna í umræddu viðtali.
Greinin er skrifuð af virðingu við fyrrum vinnufélaga minn, sem 15 ára bauð vinkonu sinni heim með sér í hádeginu því hún bjó í næsta húsi við skólann. Heima hjá henni gerðu þær það sem unglingar gera; hlustuðu á tónlist, borðuðu franskar, töluðu um lífið og tilveruna. Vinkona hennar bað um að fá að prófa einn af klútunum hennar. Án þess að hugsa sig um, batt hún klútinn listilega um höfuð vinkonu sinnar.
Þær hlupu flissandi aftur í skólann. Með léttleika í maganum sem bara unglingar þekkja. Þó brá fljótlega skugga á gleðina. Kennarinn skipaði vinkonu hennar að rífa af sér klútinn. Sendi okkar konu til skólastjórans. Fyrir trúboð. Ein algengasta staðalímyndin er að konur séu neyddar til þess að ganga með hijab. Vinkonu minni sárnaði að vera sökuð um að neyða vinkonu sína til þess að ber hijab.
Hún upplifði þarna í fyrsta sinn (en ekki það síðasta) að fólki stæði ógn af fötunum sem hún klæðist.
Greinin er skrifuð af virðingu við fyrrum nemanda minn, sem ég hitti einu sinni úti í búð, en þekkti ekki því ég hafði ekki séð hana öðruvísi en með svartan klút sem huldi höfuð og háls. Þarna í búðinni liðaðist dökkt hárið langt niður á bak. Ég spurði hana hvers vegna hún væri með hijab í skólanum en ekki í úti í búð. Það voru tvær ástæður fyrir því; annars vegar því hún hafði aldrei áður setið í skólastofu með hinu kyninu.
Henni fannst óþægilegt að sitja í rými með svo mörgum karlmönnum og huldi þess vegna höfuð sitt. Hún tók hijabinn hins vegar af eftir skóla því hún var hrædd um að verða fyrir aðkasti á almannafæri fyrir að bera hann. Algeng staðalímynd er sú að litið sé á konur með hijab sem fanga trúarbragðanna. En í tilfelli vinkonu okkar veitti klúturinn henni frelsi og öryggi – gerði henni kleift að líða vel í skólanum á meðan hún vandist nýjum menningarheimi.
Það sorglega er að hún óttaðist áreiti, fyrir það eitt að ganga í þeim fötum sem á sama tíma veittu henni skjól í nýjum aðstæðum.
Greinin er skrifuð af virðingu við fyrrum vinnufélaga minn, sem missti mömmu sína úr krabbameini. Hún fór í kjölfarið að ganga með hijab, til þess að heiðra minningu móður sinnar. Á hverjum morgni situr hún fyrir framan spegilinn, bindur vandlega á sig hvítan klútinn og hugsar til mömmu sinnar. Finnst hún hafa hana nær sér þegar hún hylur hár sitt. Algeng staðalímynd er sú að klúturinn sé birtingarmynd kúgunar.
Í fyrstu voru viðbrögð fólks í nærumhverfi vinkonu okkar á þá leið að það væri synd að hún þyrfti nú að ganga með hijab. Fólk gerði ekki ráð fyrir því að þetta væri hennar val eða að klúturinn hjálpaði henni í sorginni. Hún vann þá á kaffihúsi og þegar eldri fastakúnni sá hana í fyrsta sinn með hijab, hrósaði hann henni og sagði henni að hann færi henni vel. Það þótti henni vænt um. Nú ber hún hijabinn stolt, af virðingu við sjálfa sig og af virðingu við mömmu sína.
Greinin er skrifuð af virðingu við vinkonu mína, sem stóð í sakleysi sínu og beið eftir strætó með mér. Gamall maður vatt sér upp að okkur. Hann leit á hana, ranghvolfdi augunum og frussaði svo út úr sér: „Það er með ólíkindum að það er ekki einn einasti Dani eftir hér í borg!“ Hann var ekki að tala við hana – Danann. Hann var að tala við mig – útlendinginn. Ég varð svo hissa að ég kom ekki upp orði. En sé eftir því alla daga.
Það er algeng staðalímynd að konur með hijab verði ekki fyrir fordómum eða mismunun. Það er ekki rétt!
Það sá ég og heyrði flesta daga, þau 11 ár sem ég bjó í Kaupmannahöfn.
Þann 1. febrúar ár hvert, er alþjóðlegur dagur hijabsins. Dagurinn var fyrst haldinn árið 2013, og er markmið hans að stuðla að skilningi, umburðarlyndi og virðingu fyrir þeim konum sem búa í okkar fjölmenningarlega heimi og velja að bera hijab. Milljónir kvenna frá um 190 löndum taka þátt í þessum degi ár hvert til að vinna með fjölmenningu, í von um að eyða algengum staðalímyndum um hijabinn og vinna gegn þeim fordómum sem konur með hijab mæta. Það er gert með fyrirlestrum, vinnustofum og með því að hvetja konur til þess að ganga með hijab þennan tiltekna dag – sama hverrar trúar þær eru.
Konur bera hijab af eins ólíkum ástæðum og þær eru margar. Alþjóðlegur dagur hijabsins sýnir okkur fjölbreytileika þessara kvenna. Dagurinn ber þann boðskap að konur hafi rétt til þess að klæðast því sem þær vilja! Sá réttur snýst ekki bara um trúfrelsi, heldur kvenfrelsi og kvenréttindi almennt!
Ég hvet ykkur, kæru lesendur, til þess að lesa um World Hijab Day og jafnvel fylgja #stronginhijabi á samfélagsmiðlum. Það er á okkar ábyrgð að lesa okkur til, vera fróðleiksfús og forvitin. Ég hvet ykkur einnig til þess að brosa til næstu konu sem þið mætið og hefur valið að bera hijab. Hrósa henni jafnvel fyrir fallegan klút. Eins og við myndum hrósa annarri fyrir fallega handtösku eða hanska.
Það er árið 2019, heimurinn er að verða fjölmenningarlegri staður með hverjum deginum og við eigum að standa með konum sem klæða sig eins og þær sjálfar kjósa – hversu lítið eða mikið þær velja að hylja líkama sinn. Það er hvorki tími né rúm fyrir miðaldra karla með dónaskap. Þeir verða að kaupa buxurnar sínar annars staðar.
Pistlahöfundur er guðfræðingur að mennt, með meistaragráðu í trúarlífsfélagsfræði.
Hún hefur búið í Kaupmannahöfn undanfarin ellefu ár, þar sem hún hefur starfað náið með innflytjendum og flóttamönnum víðs vegar að úr heiminum. Heiðrún er nýverið flutt til Íslands aftur og starfar nú í Borgarneskirkju, ásamt því að sinna ritstörfum ýmis konar.