Ef flóttamanni er brottvísað og enginn tekur eftir því, gefur hann þá frá sér hljóð?
May 1st 2022

Saga hælisleitenda á Íslandi er stutt. Svo stutt að fyrir áratug síðan mátti telja á fingrum annarrar handar þau þeirra sem höfðu fengið stöðu sína sem flóttamenn viðurkennda. Þegar Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir birti grein í laganematímaritinu Úlfljóti árið 1992 hafði enginn hælisleitandi fengið alþjóðlega vernd á Íslandi.

Þá gat hún sér þess til að ástæðan væri sú að stjórnvöld vildu ekki skapa fordæmi sem gæti leitt af sér fjölgun á hælisumsóknum. Stefna íslenskra stjórnvalda var því eins konar einangrunarstefna sem miðaði að því að koma sem best í veg fyrir að umsækjendur um alþjóðlega vernd leituðu til Íslands.

Þótt margt hafi breyst síðastliðin 30 ár þá má þó segja að einangrunarstefnan sé enn við lýði en hafi tekið á sig aðrar myndir. Hún snýst ekki lengur einvörðungu um að fyrirbyggja hælisleitendur nái til landsins, heldur ekki síður um að einangra þá umsækjendur um alþjóðlega vernd sem hingað koma frá nærsamfélagi sínu. Hér eru rakin nokkur nýleg dæmi um birtingarmyndir þessarar stefnu, ráðstafanir sem sumar virðast gerðar með góðum hug en miða þó öll að því sama, að gera íslenskum yfirvöldum eins auðvelt og mögulegt er að nema hælisleitendur af landi brott svo lítið beri á.

Landslagið hefur vissulega stórbreyst á síðustu 30 árum þegar alþjóðleg vernd er annars vegar. Afnám innri landamæra Evrópu hefur auðveldað fólki á flótta að komast til Íslands, þótt sjaldnast sé það fyrsta stopp, en einnig er einfaldlega fleira fólk á flótta. Ísland er þó landfræðilega staðsett þannig að afar erfitt er að komast til landsins án viðkomu í einhverjum af löndum Evrópu.

Íslensk yfirvöld hafa því hneigst til að reiða sig óvenju mikið á svokallaða Dyflinarreglugerð sem kveður á um að fyrsta ríki sem hælisleitandi kemur til innan Evrópu beri að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til meðferðar.

Bent hefur verið á að íslensk stjórnvöld túlki þessa reglugerð mjög þröngt en þar er hvergi að finna bann við því að önnur Evrópulönd taki hælisumsóknir til meðferðar, en það gerir Ísland þó aðeins í undantekningartilfellum.




Hvað með börnin?

Einstrengingslega afstaða íslenskra yfirvalda hefur skiljanlega valdið mikilli óánægju meðal flóttafólks og aðstandenda þeirra, ekki síst þegar fólk í viðkvæmri stöðu á í hlut. Undir lok síðasta áratugar dró því stundum til tíðinda þegar senda átti börn úr landi. Nokkur dæmi eru um skólafélagar og starfsfólk skólanna hafi látið sig örlög félaga og nemenda sinna varða og gerst málsvarar þeirra.

Segja mætti að ákveðnum hápunkti í skólaaktívisma hafi verið náð sumarið 2019 þegar skólafélagar barns sem átti að brottvísa gengu fylktu liði á fjölmennan útifund þar sem brottvísuninni var mótmælt harðlega. Unglingarnir bentu á að brottvísun nemandans færi gegn 3. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um að ávallt skyldi taka ákvarðanir sem varða börn með hagsmuni barna að leiðarljósi. 

Málið fór þannig að barnið fékk að vera áfram á Íslandi, líkt og nokkur önnur börn sem hafa átt málsvara innan skólakerfisins, frjálsra félagasamtaka eða annars staðar þar sem fólk lætur sig hag flóttabarna varða. Það stakk því óneitanlega nokkuð í stúf að vorið 2019, á sama tíma og umrætt barn, skólafélagar og kennarar þess börðust gegn brottvísuninni, þá varð þess vart að Reykjavíkurborg hyggðist stofna sérstaka stoðdeild fyrir börn hælisleitenda.

Þangað er nú öllum börnum hælisleitenda stefnt undir þeim formerkjum að verið sé að veita þeim aukna þjónustu. Á sama tíma þjónar þessi ráðstöfun því að klippa á tengsl þeirra við nærsamfélag sitt, en það hefur einmitt verið fólk úr nærsamfélaginu sem hafa hvað ötulast talað máli barnanna. Þótt þetta eigi á pappírunum að vera tímabundið úrræði þar til að börnin geti farið í sína hverfisskóla er jafnframt gert ráð fyrir að börnin staldri alla jafnan stutt við á Íslandi.

Því læðist að mani óneitanlega sá grunur að mörg barnanna verði send úr landi áður en nærsamfélagið hefur tækifæri til að láta til sín taka. Að með því að taka þau úr hverfisskólunum séu þau gerð ósýnileg því fólki sem líklegast er til að tala máli þeirra.

Skýr skilaboð til ungs fólks

Fleiri ráðstafanir hafa verið gerðar á síðustu árum sem miða á svipaðan hátt að því að eingangra umsækjendur um alþjóðlega vernd og jaðarsetja það bæði landfræðilega og félagslega. Stjórnvöld hafa lengi hýst flóttafólk í húsnæði utan eða á blájaðri höfuðborgasvæðisins. Upp úr 2010 bjuggu umsækjendurnir á gistiheimilinu Fit í Reykjanesbæ en frá u.þ.b. 2015 hafa þeir verið hýstir á Arnarholti á Kjalarnesi, Víðinesi í jaðri Mosfellsbæjar og á Ásbrú í Reykjanesbæ.

Alls staðar er sagan sú sama. Flóttafólkið kvartar yfir einangrun, stopulum samgöngum og fjarlægð frá tengslaneti sínu, en þar að auki hefur verið lagt blátt bann við öllum heimsóknum til flóttafólks í móttökumiðstöðvar á vegum Útlendingastofnunar.

Sambærilegt bann í Ungverjalandi hefur verið dæmt ólögmætt af Mannréttindadómstóli Evrópu. Hérna erum við því með enn eitt dæmið um hvernig opinberar stofnanir á Íslandi beita sér fyrir því að einn viðkvæmasti samfélagshópurinn sé jaðarsettur með því að hýsa hann á óaðgengilegum stöðum og banna allar heimsóknir þangað.

Nú síðasta ár eða svo hafa opinberar stofnanir jafnvel gengið enn lengra í jaðarsetningarviðleitni sinni. Hér koma hin svokölluðu 19. greinar mál til sögunnar, en það er heiti á röð af ákærum gegn sjö ungum einstaklingum sem hafa látið sig stöðu flóttafólks varða og tekin virkan þátt í mótmælum gegn mannfjandsamlegri meðferð flóttafólks á Íslandi.




Fólkið sem um ræðir er bæði íslenskt og af erlendum uppruna en á það sameiginlegt að hafa rödd í samfélaginu, m.a. í gegnum samtökin No Borders, sem getur talað máli flóttafólks og náð eyrum heimafólks og stjórnvalda. Þau voru handtekin við mótmæli í mars og apríl árið 2019 fyrir brot á 19. grein lögreglulaga sem kveður á um að almenningi sé ”skylt að hlýða fyrirmælum sem lögreglan gefur, svo sem vegna umferðarstjórnar eða til þess að halda uppi lögum og reglum á almannafæri.”

Ekkert sagt um hvort fyrirmælin eigi að vera sanngjörn, lögmæt eða réttmæt og því um opna heimild að ræða til að ákæra mótmælendur fyrir t.d. að standa ekki á gangstétt eða sitja ekki á gólfinu, eins og var gert í 19. greinar málunum. 

Það sem er óvenjulegt við 19. greinar málin í samanburði við önnur svipuð mál er að fólkið er saksótt á einstaklingsgrundvelli, en ekki sem hópur eins venjan er. Það þýðir m.a. að málaferlin taka lengri tíma, þau hafa í för með sér meira andlegt álag fyrir hin ákærðu auk þess sem málskostnaður allt að sjöfaldast.

Með því að reka málin á einstaklingsgrundvelli er því augljóslega verið að stóla á að ákærurnar hafi afleiðingar, ekki aðeins fyrir hin ákærðu heldur einnig fyrir samfélagið í heild og þá ekki síst yngstu kynslóð fullorðins fólks sem er einmitt sá hópur sem hefur hvað ötullegast barist fyrir flóttafólki á Íslandi. Sjömenningunum er haldið uppteknum við að verja sig fyrir dómi svo þau hafi ekki orku til að berjast í þágu flóttafólks. Þarna er jafnframt verið að senda skýr skilaboð til ungs fólks um að þau skuli ekki dirfast að gerast málsvarar fyrir afar jaðarsettan samfélagshóp.

Þegar enginn veit að þú ert til

Hérna höfum við séð fjölmörg ólík dæmi um hvernig íslensk yfirvöld, bæði ríki og sveitarfélög, hafa reynt að jaðarsetja og einangra flóttafólk bæði félagslega og landfræðilega. Er það gert bæði bókstaflega, með því að hýsa það á einöngruðum stöðum, og í yfirfærðri merkingu með því að skera á tengsl við aðra samfélagsmeðlimi með sérúrræðum og lögsóknum gegn stuðningsfólki.

Sama hvort þessi jaðarsetning er meðvituð eða sett fram sem aukin þjónusta, eins og stoðdeild Reykjavíkurborgar, þá eru afleiðingarnar þær sömu. Jaðarsetning gerir fólk útsettara fyrir ofbeldi, félagsleg einangrun getur haft alvarleg andleg veikindi í för með sér og þar fram eftir götunum. En þrátt fyrir það hafa yfirvöld á Íslandi leitast með mjög eindregnum hætti eftir því að einangra umsækjendur um alþjóðlega vernd frá nærsamfélagi sínu og klippa á þau bönd sem þegar eru til staðar, allt til að hægt sé að vísa fólki úr landi með sem auðveldustum hætti.

Því hver tekur upp hanskann fyrir þig ef enginn veit að þú ert til?













— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
When no one knows that you are there

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
19. greinar málin

næsta grein
En fejlfri kultur: Handicap, ableisme og sletning i Norden


Lesa meira um...

Ef flóttamanni er brottvísað og enginn tekur eftir því, gefur hann þá frá sér hljóð?