Inngildandi orðnotkun eykur fjölbreytni umsækjanda og gæði ráðningarferlis
Orð eru mikilvæg, orðin sem við notum hafa áhrif á hvernig við upplifum og skynjum heiminn. Orðin sem við veljum segja mikið og stundum miklu meira en við sjálf gerum okkur grein fyrir.
Við sem einstaklingar fæðumst inn í samfélög þar sem óskráðar reglur og væntingar eru í gildi um kynjahlutverk og hegðun. Við verðum vör við þessar óskráðu reglur á heimilum okkar, í skólakerfinu, sjónvarpi og svo framvegis. Við lærum frá blautu barnsbeini að gera okkar besta til þess að mæta þessum væntingum og hegðum okkur í takt við þær. Þessar væntingar hafa svo áhrif á hvernig við sjáum okkur sjálf og hvernig aðrir sjá okkur.
Agentic og communal eru hugtök sem oft eru notuð til þess að útskýra þessar væntingar sem gerðar eru til kynjanna og hvernig þau ættu að hegða sér. Agentic hegðun er sú hegðun sem við tengjum frekar við karlmennsku og dæmi um eiginleika hennar eru keppnisskap, metnaður og áhættusemi. Communal hegðun er þá sú hegðun sem við tengjum frekar við kvenleika og eru þættir eins og samskiptahæfni, hlýja, nærgætni og hjálpsemi eiginleikar hennar. Þegar konur og karlar sýna þessa hegðun eru þau oftar en ekki verðlaunuð af samfélaginu vegna þess að þau standast væntingar og “tikka í boxið”, og passa í staðalímyndina. Auðvitað eru einstaklingar jafn mismunandi og þeir eru margir. Öll getum við verið metnaðarfull og hjálpsöm þó að almennt tengjum við ákveðna hegðun og eiginleika við staðalímyndir um konur og karla.
Áhrifin af notkun agentic og communal orðalags koma sérstaklega vel í ljós í atvinnuauglýsingum, svo dæmi sé nefnt. Til dæmis sjáum við að þegar auglýst er eftir umsækjendum í stjórnunarstöður eru þeir þættir og eiginleikar sem óskað er eftir oft mjög agentic. Í framhaldi sjáum við að það eru færri konur sem sækja um þessi störf vegna þess að þær eiga erfitt með að endurspegla sig í þessu hlutverki og starfi þar sem að þær hafa alist upp í samfélagi sem hefur sagt þeim að þessi hegðun eða eiginleikar eigi ekki við um þær. Rannsóknir sýna að áhrifin eru þó víðtækari en þetta og slíkt orðalag hefur áhrif á fleiri hópa innan samfélagsins, til dæmis fólk sem skilgreinir sig utan kynjatvíhyggjunnar, eldra fólk, fólk af erlendum uppruna, fatlaða og hinsegin fólk. Þessir einstaklingar ná oft ekki að endurspegla sig í orðalagi atvinnuauglýsinga og sækja því síður um störfin, þrátt fyrir að vera fyllilega hæfir umsækjendur.
Engin manneskja kemst hjá því að vera hlutdræg. Á hverju augnabliki verðum við fyrir miklu magni upplýsinga en heilinn okkar nær einungis að meðtaka og vinna úr brotabroti af þessum upplýsingum sem við verðum fyrir. Því reiðir heilinn ósjálfrátt á hlutdrægni til þess að flokka þessar upplýsingar og vinna hratt úr þeim. Heilinn býr sér til ákveðnar flýtileiðir. Þetta er mjög eðlilegt ferli og gerist hjá okkur öllum. Þessi ómeðvitaða hlutdrægni hjálpar okkur við ákvarðanatöku, gerir okkur kleift að meta aðstæður og bregðast við. Þessi hlutdrægni getur því verið einstaklega hjálpleg og lífsnauðsynleg, en heilinn okkar framkvæmir þessar sömu flýtileiðir þegar við hittum og kynnumst nýju fólki. Ómeðvitað byrjum við að setja fólk í flokka og dæma fólk eftir klæðaburði, húðlit, ásýnd, kyni, aldri o.s.frv. Við byrjum því að gera okkur upp hugmyndir um hvernig fólk er, löngu áður en þau hafa gengið tækifæri á að hafa áhrif á skoðun okkar.
Þegar kemur að ráðningum, stöðuhækkunum og úthlutun verkefna verðum við óhjákvæmilega fyrir áhrifum hlutdrægni. Fyrirtæki hafa því mörg aðlagað umsóknarferlin með því að fjarlægja nöfn og myndir af ferilskrám og sett upp þjálfanir í ómeðvitaðari hlutdrægni. En áður en að ferilskráin kemur á borð ráðningarstjóra og áður en umsækjendur eru boðaðir í atvinnuviðtal, er atvinnuauglýsingin skrifuð.
Þessi ómeðvitaða hlutdrægni á það til að læðast inn í tungumálið okkar, til dæmis þegar við skrifum atvinnuauglýsingar, þegar við lýsum vinnustaðamenningu og listum upp eiginleika sem við viljum sjá í næsta vinnufélaga okkar. Þetta gerist yfirleitt ómeðvitað og án alls illvilja – en afleiðingarnar eru miklar. Við sjáum það að þegar atvinnuauglýsingar innihalda í miklu magni stereotýpísk og hlutdræg orð (e. biased words) fækkar umsækjendum um allt að helming, og þá sérstaklega fjölbreyttum umsækjendum eða þeim sem tilheyra minnihlutahópum.
Þetta er sérstaklega áhugavert í því landslagi sem við finnum okkur í í dag – fyrirtæki eiga í miklum erfiðleikum með það að ráða í stöður og keppast um umsækjendur. Einnig eru fyrirtæki og stofnanir í miklum mæli með ákveðnar stefnur, loforð og markmið um aukið jafnrétti, jafnari kynjahlutföll og loforð um frekari fjölbreytileika. Konur eru í meirihluta þegar kemur að því að sækja sér háskólamenntun en samt sem áður í miklum minnihluta í stjórnunarstöðum og því er ennþá langt í land. Fyrirtæki og stofnanir eru í auknum mæli að leita leiða til þess að ná til breiðari umsækjendahóps og reyna að stuðla að betri vinnustaðamenningu sem býður fjölbreytileikann velkominn. Að notast við inngildandi orðalag eða orðalag sem útilokar engan, óháð því hvaða hópi einstaklingurinn tilheyrir, er ein þeirra leiða sem fyrirtæki eru að horfa til í auknum mæli.
Develop Diverse er danskt sprotafyrirtæki sem hefur það að markmiði að skapa jöfn tækifæri á vinnumarkaði fyrir alla, óháð kyni og kynvitund, aldri, líkamlegri getu, uppruna og taugafjölbreytileika með inngildandi tungumáli. Develop Diverse var stofnað í Kaupmannahöfn árið 2017 af Jenifer Clausell-Tormos. Jenifer langaði að nýta tækni og gervigreind til þess að flýta fyrir því að loka kynjabilinu í atvinnulífinu og úr varð Develop Diverse.
Develop Diverse er hugbúnaður sem greinir skrifaðan texta og skimar fyrir stereotýpískum og hlutdrægum orðum og kemur með uppástungur að inclusive orðum sem hægt væri að nota í staðinn. Með hugbúnaðinum fylgir líka nákvæm útskýring á því hvers vegna orðið er hlutdrægt í þessu samhengi. Þetta er einstaklega hjálplegt þar sem notandinn fær tækifæri á því að kynnast og afhjúpa sína ómeðvituðu hlutdrægni og læra hvernig orð hafa áhrif á mismunandi hópa. Develop Diverse gefur einnig textanum stig á Inclusivity skalanum sem gefur til kynna hversu inngildur textinn er í heildina og hvaða hópar ná að endurspegla sig í orðunum og hvaða hópar ekki.
Hugbúnaðurinn er byggður á víðtækum rannsóknum innan félags- og málsálfræði og notast er við nýjustu tækni innan Machine Learning (ML) og Natural Language Processing (NLP) til þess að finna hlutdræg orð og stinga upp á betri orðum. Innanhús atferlisrannsóknir eru einnig framkvæmdar til þess að skilja betur áhrif orðanna.
Við sjáum að þegar fyrirtæki og stofnanir notast við inngildandi orðalag stækka þau umsækjendahóp sinn og ná til fleiri einstaklinga, sökum þess að ýta ekki undir staðalímyndir eða að ómeðvitað gefa til kynna að aðeins þeir sem líta út á ákveðinn hátt, tilheyra ákveðnum aldurshópi eða hafa líkamlega burði eiga heima í starfinu eða hjá fyrirtækinu. Með inngildandi orðalagi bjóðum við öll velkomin og fögnum fjölbreytileikanum.
Það er einstaklega gaman og hvetjandi að kynna fólk fyrir inngildandi tungumáli og heyra hversu mikill vilji er hjá einstaklingum og fyrirtækjum að læra og gera betur – það gefur von um jafnari og bjartari framtíð. Þegar þessi grein er skrifuð er Develop Diverse hugbúnaðurinn fær um að greina enskan, danskan og sænskan texta. Kannski verður hægt að greina íslenskan texta einhvern daginn, hver veit. Það hefði að minnsta kosti verið gaman að renna þessari grein í gegnum Develop Diverse og læra hvar hægt væri að gera betur!
Stefanía Sjöfn Vignisdóttir Berndsen er búsett í Kaupmannahöfn og starfar hjá Develop Diverse, dönsku sprotafyrirtæki sem sérhæfir sig í inngildandi tungumáli (e. inclusive language). Stefanía útskrifaðist með meistaragráðu í Diversity & Change Management árið 2020 frá Copenhagen Business School.