Femínísk fjármál: Fólk er innviðir
Samtökin Femínísk fjármál skrifa:
Í kjölfar COVID-19 faraldursins hafa rannsóknir bent til að umönnunar- og heimilisábyrgð kvenna hafi aukist. Í samanburði við önnur Evrópulönd er Ísland með hæst hlutfall fólks sem veitir veikum, fötluðum eða öldruðum skyldmennum reglulega umönnun. Aukið álag vegna ólaunaðrar vinnu innan fjölskyldna og heimila í COVID-19 faraldrinum hefur ekki hvað síst verið tengt skertu skólahaldi, frístundastarfi og þjónustu við fötluð börn og ungmenni.
Konur eru líklegri til að axla þessar byrðar í venjulegu árferði, og ástæða til að ætla að þær byrðar þyngist í faraldrinum. Það getur haft áhrif á atvinnuþátttöku, fjárhagslegt öryggi kvenna og andlega líðan. Á COVID-tímum er ástæða til að gæta sérstaklega að því að hið samfélagslega ójafnvægi í verkaskiptingu kynjanna ýkist ekki og hafi ekki alvarleg neikvæð áhrif.
Því ætti að vera algjörum forgangi að halda skólum og velferðar-stofnunum opnum og að nauðsynlegir fjármunir séu settir í að styðja og vernda það framlínustarfsfólk sem þar starfar, sem eru að meirihluta til konur. Það er jákvætt að það hefur verið lagt kapp á að halda skólum opnum, en reynsla annarra landa sýnir að það er ekki sjálfsagt. Þó er ástæða til að huga sérstaklega að vinnuumhverfi starfsfólks í umönnun og kennslu og meta störf kvenna að verðleikum.
Teikn eru á lofti um niðurskurð á næstu árum og aðhaldskrafa hefur verið sett á mörg svið opinberrar þjónustu, þar sem konur starfa í meirihluta. Á þessum sömu sviðum opinberrar þjónustu hefur álag aukist gífurlega, m.a. vegna Covid-19, og þörf eftir þjónustunni ekki minnkað. Niðurskurður gæti leitt til undirmönnunar og erfiðra vinnuaðstæðna starfsfólks, sem hefur bein áhrif á þjónustuna. Stjórnvöld hafa talað fyrir því að hlífa innviðunum, en mikilvægt er að gera meir og styrkja innviðina. Innviðirnir eru ekki hvað síst fólkið sem heldur uppi velferðar-, mennta- og heilbrigðiskerfinu, og samhliða því að það þarf að búa þeim góðar vinnuaðstæður, þarf líka að grípa fólkið sem á seinni vaktina svokölluðu, inni á heimilunum og við umönnun aðstandenda.
Vegna þjónustufalls hins opinbera við fötluð og langveik börn og ungmenni í kjölfar sóttvarnaraðgerða má ætla að foreldrar þeirra barna verði fyrir neikvæðum fjárhagslegum áhrifum þegar þau verða að vera heima hjá börnum sínum sem eiga ekki kost á annarri umönnun. Laun í sóttkví ná ekki til þess hóps, né heldur til þeirra foreldra sem þurfa að halda börnum sínum heima vegna lokana í skólastofnunum eða frístundastarfi. Það veltur á eðli starfa þeirra og velvilja vinnuveitanda hvort þau geti unnið heima eða fengið greidd laun í sóttkví. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar tryggja þeim einungis eingreiðslu sem er 25% hlutfall af umönnunarbótum eins mánaðar, ef þau (eða þær, en flestir viðtakendur umönnunarbóta eru mæður) hafa verið heima með fatlað eða langveikt barn í a.m.k. 15 virka daga. 25% af hæstu mánaðarlegu umönnunarbótum nema 48 þúsund krónum.
Laun í sóttkví hefðu átt að ná til foreldra barna sem gátu ekki verið að heiman af þessum sökum, til að tryggja fjárhagslegt öryggi þessara fjölskyldna. Til að tryggja að úrræðið stuðli að jafnrétti þyrfti útvíkkuð útgáfa af úrræðinu fyrir foreldra í þessari stöðu að vera einstaklingsbundið og óframseljanlegt.
Komumst við öll í gegnum þetta saman?
Við þurfum að spyrja okkur hvort við séum í stakk búin fyrir eftirleikinn af þessum faraldri. Þörf fyrir sálrænan stuðning mun vafalaust aukast, en nú þegar eru biðlistar eftir ákveðinni sálfræðiþjónustu, sjúkraþjálfun og þjónustu í geðheilbrigðiskerfinu. Þá hefur fjármögnun greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna sálfræðiþjónustu ekki verið tryggð. Það vantar áætlun um hvernig á að taka á biðlistum og fyrirbyggja aukið brottfall af vinnumarkaði og úr skólum. Síðasta ár hefur verið mörgum erfitt og eitt af stóru verkefnunum í kjölfar COVID verður að koma í veg fyrir vanlíðan í samfélaginu okkar. Stjórnvöld þurfa að setja það á dagskrá.
Höfundar:
Steinunn Rögnvaldsdóttir
Sigríður Finnbogadóttir
Höfundar sitja í stjórn Femínískra fjármála, félagi áhugafólks og sérfræðinga um kynjuð fjármál
feminiskfjarmal.is
Grafík: