Barátta AOC inn á bandaríska þingið

13. október 2020

Höfundur:
Þórdís Eva Einarsdóttir

   

Alexandria Ocasio-Cortez, eða AOC eins og hún er oft kölluð, er þrítug stjórnmálakona í Bandaríkjunum, fædd 13. október 1989. Á stuttum tíma hefur hún risið til frægðar fyrir árangur sinn í stjórnmálum þrátt fyrir ungan aldur. Ocasio-Cortez fæddist í Bronx-hverfinu í New York en hún á ættir að rekja til Púertó Ríkó. Í uppeldinu flakkaði hún á milli Bronx þar sem meirihluti fjölskyldunnar bjó og Yorktown, en foreldrar hennar fluttu þangað svo hún gæti gengið í betri skóla en boðið var upp á í Bronx. Hún stundaði síðar nám við Boston háskóla og útskrifaðist þaðan með gráðu í alþjóðasamskiptum og hagfræði. Eftir útskrift vann hún sem barþjónn og þjónn ásamt því að vinna að ferli sínum í stjórnmálum. Hún vann meðal annars sem sjálfboðaliði í kosningabaráttu Obama árið 2008 og tók þátt í að skipuleggja kosningabaráttu Bernie Sanders til forseta árið 2016 í Bronx. 

Ocasio-Cortez bauð sig fram í prófkjöri Demókrata fyrir þingkosningarnar 2018, en sýnt er frá kosningabaráttu hennar og nokkurra annarra kvenna í heimildamyndinni Knock Down The House. Grasrótarhreyfingarnar Justice Democrats og Brand New Congress leituðust eftir utanaðkomandi aðilum til að bjóða sig fram á móti sitjandi þingmönnum. Helsta markmið þeirra var að útrýma spillingunni sem orsakast af áhrifum peninga, en stjórnmálakerfi Bandaríkjanna er að mestu leyti einokað af auðstéttinni. Þau vildu greiða leiðina að þinginu og gefa fólki nýja möguleika á að starfa í stjórnmálum, án áhrifa auðæfa og sérstakra hagsmunahópa. Hreyfingarnar leituðust því bæði eftir Demókrötum og Repúblikönum til að bjóða sig fram. Þau leituðust eftir nýju fólki sem starfaði ekki sem stjórnmálamenn, heldur væri víðs vegar á vinnumarkaðnum. Svo sem hjúkrunarfræðingar, kennarar, verkfræðingar, verkamenn o.s.frv. Með því að kjósa vinnandi fólk gæti það fengið sína fulltrúa á þingi sem passa upp á þeirra hagsmuni. Þannig væri hægt að breyta hvernig litið er á þingið, sem og stjórnmál almennt í landinu. Á þessum tímapunkti skiptist bandaríska þingið þannig að 81% þingmanna voru karlmenn, flestir hvítir, flestir milljónamæringar og flestir lögfræðingar. Í vegferð sinni hlutu hreyfingarnar yfir 10 þúsund tilnefningar um frambjóðendur. Alexandria Ocasio-Cortez var tilnefnd af bróður sínum. 

Hún bauð sig fram í 14. kjördæmi New York á móti Joseph Crowley, en hann hafði setið á þingi í 20 ár og síðast fengið mótframboð 14 árum áður. Crowley var fjórði valdamesti Demókratinn á þinginu og var talinn líklegur til að taka við sem þingflokksformaður Demókrata í neðri deild bandaríska þingsins. Framboð hennar var því óvænt og ekki talið líklegt til árangurs. Sérstaklega í ljósi þess að hún var ung kona sem vann sem þjónn og hafði litla sem enga reynslu af stjórnmálum. Þegar hún var spurð hvers vegna hún teldi sig geta boðið sig fram á móti honum og komið sínum stefnum í gegn svaraði hún að fyrst enginn annar vildi gera það þá hlyti hún að vera betri kosturinn, í staðinn fyrir að enginn gerði neitt og Crowley héldi áfram sem fulltrúi kjördæmisins. Hún sagði jafnframt að framboð hennar væri ekki yfirlýsing og að markmiðið væri ekki að breyta verklagi Crowley. Hún væri í framboði til að vinna. 

Drew Angerer/Getty
Drew Angerer/Getty

Líkt og hreyfingarnar stóðu fyrir var stefna Ocasio-Cortez að eyða áhrifum peninga úr stjórnmálum. Hún gagnrýndi harðlega að Crowley fengi sitt fjármagn frá stórfyrirtækjum og auðmönnum. Slíkt kerfi væri að bæla niður lýðræði og gerði venjulegu fólki erfitt fyrir að bjóða sig fram. Sjálf fjármagnaði Ocasio-Cortez kosningabaráttu sína með framlögum frá kjósendum. Stefnumál hennar fólu einnig í sér opinbert sjúkratryggingakerfi fyrir alla þjóðina, lögbundin lágmarkslaun sem duga fyrir framfærslu, ókeypis háskólamenntun og endurskoðun innflytjendalöggjafarinnar og útlendingaeftirlitsins. 

Áhersla Ocasio-Cortez í kosningabaráttunni var að tala beint við íbúa kjördæmisins, bæði með því að heimsækja fólk og að vera virk að sýna frá sínum störfum á samfélagsmiðlum. Hún einbeitti sér að því að virkja nýja kjósendur og ræða við ólíka hópa af fólki, en íbúar kjördæmisins eru af fjölbreyttum uppruna. Fyrsta verkefnið var að safna nægum undirskriftum til að komast á kjörseðilinn. Lágmarksfjöldi undirskrifta var 1.250, en í ljósi þess hve valdamikill andstæðingur hennar var setti hún markið á 10.000 undirskriftir. Það markmið náðist og 12. apríl 2018 komst nafnið hennar á kjörseðilinn.  

Crowley virtist ekki hafa miklar áhyggjur af framboði hennar fyrst um sinn, en allt tímabilið var hann talinn hafa örugga forystu. Ocasio-Cortez hélt þó áfram af hörku og gagnrýndi Crowley. Hún sagði hann ekki vera góðan fulltrúa kjördæmisins og hefði ekki hagsmuni verka-og láglaunafólksins þar að leiðarljósi. Hann byggi ekki einu sinni sjálfur í New York. Í fyrstu kappræðum frambjóðendanna mætti Crowley ekki sjálfur heldur sendi fulltrúa í sinn stað. Þetta var harðlega gagnrýnt og varð honum ekki í hag. Samt sem áður bjuggust fjölmiðlar við öruggum sigri Crowley og könnun sýndi fram á forystu hans. 

Kosningadagurinn 26. júní 2018 rann upp og fólk flykktist á kjörstað. Niðurstöðurnar komu í ljós um kvöldið og báru í ljós óvæntan sigur Ocasio-Cortez. Hún hafði hlotið 57% atkvæða og þar með unnið öruggan sigur á Crowley í prófkjörinu. Sigur hennar prýddi fyrirsagnir fjölmiðla og athygli landsins beindist að Ocasio-Cortez.

Þingkosningarnar sjálfar áttu sér svo stað um haustið. Andstæðingur Ocasio-Cortez var Repúblikaninn Anthony Pappas. Kjördæmið skiptist hins vegar þannig að meirihluti íbúa studdu Demókrataflokkinn og fulltrúar þess hafa flestir verið Demókratar í gegnum árin. Ocasio-Cortez vann þar af leiðandi afgerandi sigur á Pappas, með 78% atkvæða. Hún hóf störf sín á þinginu 3. janúar 2019 og varð þar með yngsta kona sem náð hefur kjöri á Bandaríkjaþing. 

Árangur hennar hefur veitt innblástur víðs vegar og er hún fyrirmynd margra ungra kvenna. Óhefðbundin vegferð hennar að stjórnmálum sannar það að venjulegt fólk getur haft áhrif og náð langt. Kjör hennar er mikilvægur áfangi í átt að markmiðinu að auka fjölbreytileika á bandaríska þinginu. 

Jesse Korman
Jesse Korman

Heimildir

Heimildamyndin Knock Down The House
https://stundin.is/grein/9051/endurkoma-sosialiskra-stjornmala-i-bandarikjunum/
https://www.nytimes.com/2018/06/26/nyregion/joseph-crowley-ocasio-cortez-democratic-primary.html
https://www.cityandstateny.com/articles/politics/campaigns-elections/how-alexandria-ocasio-cortez-won-race-shocked-country.html
https://www.frettabladid.is/frettir/ovaent-kosningaurslit-i-new-york/


— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **

Lesa meira um...
Mest lesin
Kynferðislegt ofbeldi: Tilveruréttur minn

Nýjast á Vía
Afmælisrit Vía

Vía mælir með
Femínismi og öðrun