Konur eru meirihluti námsfólks ofar grunnskólastigs á Íslandi og hlutfallslega enn fleiri í háskólanámi eða 60% stúdenta. Í óbirtum niðurstöðum könnunar Maskínu, framkvæmd frá 29. maí til 11. júní 2020, sem send var út að beiðni mennta- og menningarmálaráðuneytisins en samin af SHÍ og yfirlesin af ráðuneytinu og LÍS, sögðu 71,9% kvenna að þær ynnu með námi en 61,1% karla sagði hið sama. Yfir 10% munur á svörum þessara kynja og hvort unnið sé með námi. Þegar kemur að sumarstörfum sögðu 10,4% karlanna að þeir hefðu ekki verið í vinnu sumarið 2019 meðan 7,5% kvenna voru ekki í sumarvinnu 2019. Niðurstöðurnar gefa þá vísbendingu að konur vinni fremur samhliða námi og í námshléum en karlar. Þá vaknar spurningin hvort takmörkun á aðgangi vinnandi námsfólks að atvinnuleysistryggingasjóði sé aðgerð sem bitni óbeint á konum?
Hér á landi er lögfest bann við mismunun. Óbein mismunun er þegar að skilyrði sem virðist hlutlaust, bitnar verr á öðru kyninu og engar málefnalegar ástæður eða lögbundið markmið réttlætir það. Séu fleiri gögn skoðuð sýna vinnumarkaðsrannsóknir Hagstofunnar að hlutfall starfandi kvenna í námi er ætíð hærra en hlutfall karla frá því að mælingar hófust árið 2003:
Þá má benda á niðurstöður annarrar könnunar sem SHÍ sendi út, í samstarfi við ráðuneytið og LÍS, til nemenda allra háskóla landsins þar sem 2.500 stúdentar svöruðu á tímabilinu 14. maí til 26. maí 2020.
[Myndin hér að ofan er hluti af mynda-parinu Systur eftir Evu Sigurðardóttur, sem er fáanlegt hér á Uppskeru listamarkaði.]
Hér á landi er lögbundið að stjórnvöld geri áætlun um kynjaða fjárlagagerð. Kynjuð fjárlagagerð felur í stuttu máli í sér að leggja kynjað mat á fjárútlát ríkisins og endurskipulagningu tekna og útgjalda þannig að þau stuðli að jafnrétti kynjanna. Í Grunnskýrslu kynjaðrar fjárlagagerðar frá mars 2019, útgefinni af forsætisráðuneytinu, var leitast við að varpa ljósi á stöðu kynjanna innan einstakra málefnasviða og málaflokka ríkisins. Þar var ekki að finna greiningu á stöðu mála vinnandi námsfólks.
Kynjaskipt tölfræði og gögn eru nauðsynlegur grundvöllur við skilvirka stefnumótun um jafnrétti kynjanna og við kynjaða fjárlagagerð. Því er nauðsynlegt að stjórnvöld ráðist í gagngera greiningu á stöðunni.
Sú takmörkun að námsfólk eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum í námshléum kann að virðast hlutlaust en þar sem konur vinna frekar með námi til að framfleyta sér og eru meirihluti námsfólks bitnar sú takmörkun meira á konum. Konur verða því frekar fyrir réttindaskerðingunni sem lög kveða á um en karlar, og það leiðir til óbeinnar mismununar.
[Myndin hér að ofan er hluti af mynda-parinu Systur eftir Evu Sigurðardóttur, sem er fáanlegt hér á Uppskeru listamarkaði.]
Í ljósi kynjaðrar fjárlagagerðar og með það að markmiði að stuðla að efnahagslegu jafnræði kynjanna er fullt tilefni til að endurskoða takmörkun á aðgengi námsfólks að atvinnuleysistryggingasjóði.
Heimildir:
1 Samkvæmt 2. tl. 2. gr. laga nr. jafnréttislaga telst óbein mismunun vera þær aðstæður þegar að því er virðist hlutlaust skilyrði kæmi verr við einstaklinga af öðru kyninu, borið saman við einstaklinga af hinu kyninu, nema slíkt sé unnt að réttlæta á málefnalegan hátt með lögmætu markmiði og aðferðirnar til að ná þessu markmiði séu viðeigandi og nauðsynlegar.
Grein þessi byggir á kafla úr meistararitgerð höfundar í lögfræði „Réttindi námsfólks til framfærslu í atvinnuleysi – „… fjármagn úr ríkissjóði fyrir að gera ekki neitt“. sem skilað var 4. janúar sl., varin 22. janúar og gaf prófdómari og leiðbeinandi 9,0 í einkunn. Ritgerðin verður aðgengileg í heild sinni á Skemmunni þann 21. febrúar 2021.