14. október 2020

Þegar ég fluttist fyrst til Vestfjarða fyrir tveimur árum síðan varð ég heilluð. Heilluð af landslaginu, fólkinu, beintengingunni við náttúruna, fjöllunum, náungakærleikanum og afslöppuninni sem fylgdi því að fjarlægja sig frá ysinu og þysinu í borginni. Eftir að hafa tekið þá hvatvísu ákvörðun að prófa að búa í tæplega 200 manna þorpi fór mig fljótlega að dreyma um að geta sest hér að til frambúðar. Þá flæktist málið. Ég sá ekki marga möguleika í stöðunni fyrir mig. Ég var jú búin að mennta mig, stefndi raunar alltaf á að starfa á alþjóðlegum vettvangi, og það var lítið fyrir mig að hafa í þeim geira hér. 

Í lok síðasta árs ákváðum ég og kærastinn minn þó að stökkva á tækifærið og láta drauminn um að búa á Flateyri til frambúðar rætast. Með þeirri ákvörðun færði ég ákveðnar fórnir en hef ekki einn einasta dag séð eftir henni. Það eru þó nokkrir hlutir sem eru mér hugleiknir varðandi samspil þess að vera aðflutt ung kona og femínisti í litlu sjávarþorpi og langar mig að koma mínum upplifunum af því á framfæri með þeirri von að vekja einhver til umhugsunar.

Ég tek það fram að ég get auðvitað bara talað út frá minni eigin reynslu, reynsluheimur fólks er ólíkur auk þess sem að landsbyggðin er langt frá því að vera einsleitt svæði.

Það þykir iðulega til mikilla tíðinda þegar nýtt fólk flytur í þorpið mitt og íbúar taka því fagnandi, þar sem fólksfækkun hefur lengi verið viðvarandi vandamál. Ég var engin undantekning á því og fólk tók mér vel en á móti voru margir líka undrandi á þessari ákvörðun, sérstaklega fólkið mitt fyrir sunnan. Vegna þess að þrátt fyrir þá kosti sem fylgja smábæjarlífinu þá er stór hindrun fólgin í skorti á tækifærum fyrir ungt fólk og því kemur mér það lítið á óvart að ungt fólk og sérstaklega ungar konur setji það fyrir sig að búa í litlum bæjarkjörnum. 

Á minni stöðum er eðli málsins samkvæmt meiri einsleitni, einhæfara atvinnulíf og færri atvinnugreinar sem fólki stendur til boða. Ég er oft spurð að því hvað ég hugsi mér nú að gera í framtíðinni, búandi á Flateyri. Mín upplifun er sú að starfsval fólks sé enn mun kynjaðra hér en það er í höfuðuborginni. Það má velta því fyrir sér af hverju það stafar, en eflaust eru ýmsir hlutir sem spila þar saman. 

Eftir flutningana hef ég fundið mun sterkar fyrir því hvernig samfélagið býst við ákveðnum hlutum af mér og konunum í kringum mig. Ég minnist þess þegar ein vinkona mín sagði mér frá því fyrsta sem hún hugsaði þegar hún frétti að við værum að flytja aftur vestur, að ég hlyti að vera ólétt. Það var rökréttasta útskýringin á þessari ákvörðun okkar, en svo var ekki – okkur langaði einfaldlega til að setjast hér að.

Það er algeng staðalímynd að ungar konur flytjist bara út á land ef þær ætla sér að eignast börn.

Ég er á engan hátt að sakast við vinkonu mína fyrir að halda þetta, mér finnst þessi viðbrögð einfaldlega kristalla nokkuð sem ungar konur á landsbyggðinni standa frammi fyrir. Eitt helsta aðdráttaraflið fyrir ungt fólk til að flytjast út á land eða aftur heim er að þar er oft auðveldara að ala upp börn. Það gefst meiri tími með börnunum, þau komast fyrr inn á leikskóla og jafnvel er ekki jafn mikil þörf á að báðir foreldrar séu útivinnandi. Það hryggir mig hins vegar að þetta sé meðal einu aðdráttaraflanna sem raunverulega eru til staðar fyrir okkur. Við erum nefnilega ekki bara útungunarvélar! 

Á þessum nótum finn ég líka fyrir kynjuðum væntingum varðandi starfsval. Þegar ég og kærastinn minn vorum bæði að leita okkur að vinnu heyrði ég setningar á borð við þessar oftar en ég get talið: „Heyrðu er kallinn þinn kominn með vinnu? Er‘ann ekki hraustur? Talaðu við (einhver karl), hann vantar einhverja duglega menn.“ Að sama skapi er mér alltaf bent á umönnunar- og þjónustustörf þegar upp kemur umræða um starfsmöguleika mína.

Þau sérfræðistörf sem standa til boða eru langflest í menntageiranum eða heilbrigðisgeiranum. Að sjálfsögðu er mikilvægt að hafa hæft fólk í þeim störfum en það hryggir mig að framboðið fyrir konur sem vilja mennta sig og starfa í heimabyggð sé svona einhæft og stuðli áfram að staðalímyndum um hlutverk kynjanna.

Með þessum hugleiðingum mínum er ég alls ekki að gera lítið úr þeim störfum sem hér eru tekin dæmi um, né fólkinu sem vinnur þau. Sjálf vinn ég í dag við umönnun fatlaðra, starf sem mætti alveg fá nokkur auka virðingarstig í samfélaginu að mínu mati. En þótt ég elski vinnuna mína breytir það því ekki að ástæða þess að ég fór í það til að byrja með er sú að það var einfaldlega ekkert annað í boði, hvað þá eitthvað þar sem menntun mín og sérhæfing kæmi að notum. 


Auðvitað eru hlutirnir ekki alveg svo klipptir og skornir að allar konur séu í „kvennastörfum“ og allir karlar í „karlastörfum“ og ég veit um þónokkrar konur sem hafa brotist á móti straumnum, látið til sín taka í karllægum greinum, stofnað til eigin reksturs og nýsköpunar. Einnig finnst mér ég sjá breytingar í því að karlar séu í auknum mæli farnir að vinna störf sem áður voru talin sem hefðbundin kvennastörf. Ég hef engar tölulegar upplýsingar á bakvið þetta, en ég vona að þessi fjölbreytni sé að færast í aukana og að þær kvenfyrirmyndir sem ég hef hér í dag séu vísir að því sem koma skal – að konur verði leiðandi í nýsköpun og láti staðalímyndir kynjanna ekki aftra sér í því. Ég verð þó vör við það sjálf að konur sem standa í rekstri fá mun minna lof fyrir heldur en karlarnir – oft heyri ég t.d. bara minnst á karlinn þegar talað er um rekstur sem að gagnkynja hjón stunda saman og konan þurrkast út. 

Ég finn jafnframt meira fyrir því að mér finnst erfiðara að taka slaginn þegar kemur að umræðum um málefni kynjanna hér en í stærri félagslegum mengjum. Þrátt fyrir að mér finnist ég búa í einstaklega opnu samfélagi sem tekur vel á móti nýju fólki með vinsemd og áhuga, þá er ég meðvitaðari um að skoðanir mínar geti stangast á við skoðanir annarra og að ég hef meiri vara á þar sem það er dýrkeyptara að vera ósammála fólki í litlu samfélagi. 

Stundum heyri ég möntrur af þeim toga að ungt fólk vilji ekki búa á landsbyggðinni, það vanti fleira ungt fólk og hins vegar að það sé vandamál hversu lágt menntunarstig sé á sumum stöðum á landsbyggðinni. Þessir hlutir spila nefnilega saman. Yngri kynslóðir eru jafnan meira menntaðar en þær sem á undan komu og vonandi heldur sú þróun áfram.

Fólk er hvatt til að fara og mennta sig, til þess að geta komið aftur og aukið við þekkingarstigið í plássinu. Eftir að námi lýkur er svo lítið um að velja ef fólk vill snúa til baka þar sem framboð af sérfræðistörfum er mjög lítið. Konur eru mun líklegri en karlar til að sækja sér menntun á háskólastigi og því bitnar þetta fremur á þeim. 

Fjöldi ungs fólks víða að frá landsbyggðinni vill mennta sig og gerir það, vitandi að það sé líklegast með því að fyrirgera sér þeim draumi sínum að búa á heimaslóðum í framtíðinni, ala upp börn í litlu samfélagi eða gefa til baka til samfélagsins sem ól það upp.

Skv. gögnum Hagstofunnar eru 15% íbúa á Vestfjörðum með háskólamenntun, samanborið við 44% á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er sláandi hlutfall að mínu mati. 

En vandamálið er ekki það að ungt fólk vilji ekki búa á landsbyggðinni eða að landsbyggðarfólk vilji ekki mennta sig. Við viljum einfaldlega standa frammi fyrir fjölbreyttari valmöguleikum og viljum eiga möguleika á að spreyta okkur á fleiri sviðum en einungis þeim sem ríkjandi kynjakerfi hefur kennt okkur að séu í boði. 

Mig dreymir um framtíð þar sem að lítil þorp á landsbyggðinni eru í blóma, með nýsköpun og fjölbreyttari atvinnugreinar á fjölbreyttum hæfnisstigum eru áberandi og konur hafa tækifæri til að láta til sín taka. Jafnframt þurfum við sem búum í smærri byggðakjörnum að gæta þess að hvernig við tölum, drögum fólk ekki í dilka, leggjum okkar af mörkum við að uppræta það kynjakerfi sem er til staðar og gætum þess að samfélagið okkar sé opið fyrir allri flórunni hvað varðar kyn, kyngervi og kynhneigð. Minni staðir hafa nefnilega líka þann eiginleika að minna getur þurft til að breytingar eigi sér stað. Hvetjum ungt fólk á landsbyggðinni til nýsköpunar, sýnum þann vilja í verki og gætum þess að hort sé til jafnréttissjónarmiða. Það er mikið í húfi þegar kemur að því að stuðla að jöfnum tækifærum kynjanna til að skapa sér örugga framtíð og atvinnu.

Væri ekki svolítið bjartari framtíð fólgin í því að fjölga tækifærum kvenna á landsbyggðinni, með fjöldann allan af ólíkum bakgrunnum, og ungu fólki almennt, sem kæmi sér vel fyrir alla heildina? Það held ég. 













— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
Af femínisma í Mið-Austurlöndum og orientalisma

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Umhverfisáhrif: Á femínismi heima á haugunum?

næsta grein
Making Space for Women and Non-Binary in the (Danish) Art World


Lesa meira um...

Ástæður fyrir ungar konur til að flytja út á land (atvinnutækifæri eru ekki ein þeirra)