Litur einhverfra en ekki einhverfu

14. apríl 2021

Höfundur:
Heiða Dögg
@einhverfadoggin
@einhverfadoggin
   

Það er einkennilegt.

Það er einkennilegt hvað það er sjaldan hlustað á þau sem verið er að tala um.
Þau sem málefnið snýst um og baráttan er fyrir.

En þetta er algengt.
Algengara en við viljum viðurkenna.
Oftast er þetta fólk sem meinar vel.
En.
Þau hlusta ekki.
Þau stunda ekki virka hlustun og skilja því ekki reynsluheim þeirra sem þau eru að berjast fyrir.

Þetta er algengt í heimi mínum.

Ég er margt og eitt af því er einhverf.
Ég fékk seint staðfestingu, þó svo að mig hafði grunað það lengi.
Og í raun, ef að heilbrigðisstarfsfólk fengi betri fræðslu um einhverfu og almennt um taugsegið fólk (e. Neurodivergent) þá hefði ég verið greind 5 ára.
Í staðinn var ég týnd og skildi ekki af hverju ég virkaði og skynjaði heiminn allt öðruvísi en margir aðrir.

Þegar ég loksins vissi að ég væri einhverf þá ákvað ég að kafa enn meira í heim minn og reynsluheim annarra einhverfra, og þar var grunur minn því miður staðfestur.
Mín reynslusaga var ekki einstök.
Fleira fólk en ég fékk ekki að vera það sjálft.
Fyrir okkur var ekki annað í boði en að setja upp grímuna svo að fólk grunaði ekki hversu öðruvísi við værum.
Þannig var hægt að sleppa við hæðni og skammir, en það á kostnað geðheilsu okkar.

Hryllingssögurnar sem ég fékk að heyra fengu hár mín til að rísa og tárin streyma.
Margar af þessum sögum voru tengd Bandarískum samtökum sem kallast Autism Speaks. 
Þau segjast vera vinna í þágu einhverfra einstaklinga, en raunin er allt önnur.
Saga þeirra er allt annað en fallegt í garð einhverfra og þetta er mikilvægt að vita.

Hví?
Því að þau eignuðu sér bláa litinn sem lit einhverfra.

Svo þið skiljið kannski af hverju við sem er einhverf viljum ekki tengja bláa litinn við okkur.
Við viljum ekki tengjast samtökum sem hafa komið hræðilega fram við einhverfa einstaklinga.
Þau segjast vera betrumbæta sig, en það virðist ekki ganga hratt.

Okkar litir eru því ekki blár.

Litir okkar sem eru einhverf eru rauður og gullitaður, og eins höfum við fengið lánaða regnbogalitina.
Við notum líka stærðfræðimerkið „infinity“ því það lýsir okkur svo vel.
Við erum jafn mörg og við erum ólík.
Það er ekki hægt að mæla okkur á skala lítið eða mikið einhverf.
Þetta er mun nær litahjóli sem sýnir hvað einhverfir einstaklingar geta skynjað ólíkt og hvað getan getur verið fjölbreytt.

Það er kannski ágætt að taka fram.
Einhverfa er ekki í tísku, heldur eru greiningartólin betri og aðgengi að samskiptaúrræðum, sem einhverfir geta nýtt sér, betri.
Þið þurfið ekkert að gera athugasemd við einhverfuna okkar.
Hlustið bara.
Hlustið virkilega á okkur og þið komist kannski að því hvað við erum mögnuð þegar við fáum að vera við.

Þótt þú þekkir eina einhverfa manneskju þá þýðir ekki að þú vitir allt um einhverfu.
Bara alls ekki.

Jafn vel þótt þú þekkir þrjár eða fleiri þá þýðir það ekki að þú vitir allt um einhverfu.
Svo ekki taka að þér að fræða aðra um einhverfu.
Kíkið á samfélagsmiðla og lesið frásagnir okkar.

Því við erum jafn ólík og við erum mörg.
Ég ætla að taka þetta fram aftur til þess að ítreka mikilvægi þess.
Við erum jafn ólík og við erum mörg.

Til að draga þetta saman í einfalda punkta:

Við sem erum einhverf erum jafn ólík og við erum mörg
Litur einhverfra er rauður, gulllitaður og regnbogalitirnir
  • Ekki blár
Einhverfa er eins og litarhjól þar sem skynjun og geta er eins misjöfn og við erum mörg

Og, já svo það er alveg á hreinu þá erum við ekki að fara neitt.

höf. Heiða Dögg






— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **

Lesa meira um...
Mest lesin
Kynferðislegt ofbeldi: Tilveruréttur minn

Nýjast á Vía
Afmælisrit Vía

Vía mælir með
Þú lítur ekkert út fyrir að vera einhverf