Að veita kynjakerfinu viðnám
Femínísk barátta hefur þann megintilgang að styðja við réttindi kvenna, tryggja öryggi þeirra og með gagnrýni og aktívisma gera atlögu að kynjakerfinu. Þessi atlaga er öllum til bóta, frelsar okkur úr fjötrum eðlishyggju og skapar samfélag jöfnuðar og frelsis. En innan þessarar hreyfingar eru ólíkar raddir, sem betur fer.
Ólík sýn og sjónarhorn sem gerir samtalið frjótt, fullt af áskorunum og krefjandi. Femínistar ganga ekki öll í takt, þó að vissulega göngum við öll í sömu áttina.
Kynjakerfið er margslungið, það er rótgróið, oft á tíðum falið. Þar þrífst kynjatvíhyggjan, undirskipun, útilokun og jaðarsetning. Flest okkar sem vinna í þágu femínisma er þetta ljóst. Þegar við erum að taka fyrir málefni þá er það gert til höfuðs kerfinu, aldrei til höfuðs einstaklingunum, sérstaklega ekki konunum sem vissulega þurfa að spila inn í hlutverk kynjakerfisins, oft á tíðum til þess að komast af, hvort sem um er að ræða Onlyfans stjörnur eða áhrifavalda.
Að stilla feminískri gagnrýni til höfuðs Onlyfans upp sem íhaldssamri og kvenkúgandi, þar sem forpokaðar teprur gera atlögu að nútímanum er í besta falli ómálefnalegt. Gagnrýni á Onlyfans ætti ekki að vera gegn þeim einstaklingum sem nýta sér þann miðil hvorki til sölu né kaupa, heldur snýr gagnrýnin að kerfum sem “normalísera” að við hlutgerum konur, að líkami kvenna sé söluvara sem einstaklingar kaupa. Gagnrýnin er til höfuðs klámvæðingu, ekki til höfuðs kynlífi eða erótík.
Hún er til þess fallin að vera núningur við samfélag þar sem konur eru söluvaran, sem á að neyta eða nota.
Kvenfrelsi, kynfrelsi, kyntjáning getur ekki verið bundin í fjötra við kynjakerfið, sem fær að standa óáreitt vegna þess að atlaga að því þykir ekki smart, eða vegna þess að það fer gegn meginstraumnum. Þessi málflutningur er ekki til höfuðs einstaklingunum, eða gegn kynfrelsi. Gagnrýni á Onlyfans er gagnrýni á þann jarðveg sem þessi síða sprettur upp úr, klámvætt samfélag. Ef vilji er fyrir því að kynlífsvinna fljóti upp á yfirborðið þarf að eiga sér stað vitundarvakning um stöðu kynjanna og við þurfum að endurskipuleggja stoðir samfélagsins, konur verða aðeins öruggar á þessum vettvangi sé fullu jafnrétti náð. Þangað til að það tekst munu mörg okkar veita kynjakerfinu aðhald, vera ósammála og óþægileg.
Aktívismi er flókinn, marglaga og oft erfiður. Femínistar eru ekki sammála um Onlyfans. Val og vald eru forréttindi og það er afstaða margra að við verðum að vernda viðkvæma hópa og tryggja stöðu kvenna til þess að val, vald og frelsi sé raunhæft. Jafnframt getum við ekki leyft einum hópi að hafa skilgreiningarvald yfir því hvað eða hvernig kynverund okkar sé. Klám er ekki kynlíf, konur hafa kjörið tækifæri til þess að taka skilgreiningarvaldið í sínar eigin hendur, en í því felst að sjá kynjakerfið í réttu ljósi og forðast fyrirframgefnar kynjamyndir eða karlaugað.
Umræðan um Onlyfans er nánast eins og kynjakerfið sjálft sé að skora á okkur. Þar sem ólíkir hópar skipa sér í fylkingar með eða á móti einstaklingum. Það er um gera að vera gagnrýnin og því ætti að fagna. En ekkert okkar getur bent á hitt því við erum öll fangar í þessu kerfi. Það er það sem við ættum að rýna í og leggja atlögu að, kerfið sjálft, það er viðfangsefni femínískrar orðræðu.
Samtalið sem á sér stað núna innan og utan feminískra hópa er uppfullt af upphrópunum. Það er svo frelsandi að það megi vera ósammála um hvernig við lítum á kynjakerfið. Femínismi er ekki eitthvað eitt, hann er ólíkur innbyrðis – við getum skoðað hann með augum einstaklingsfrelsis og frjálshyggju eða róttæks sósíalisma, ekkert af þessu er rangt.
En missum ekki sjónar af stóra efnisþættinum sem við öll sem titlum okkur sem femínista erum jú í grunninn sammála um: Að veita kynjakerfinu viðnám.
Höfundur er starfandi kynjafræðikennari í framhaldskóla