Úr heimi móður: Hátíð mildi og sáttar í nánd

14. desember 2020

Höfundur:
María Ólafsdóttir
   

Staldrið við! Sjáið! Hin mesta sjálfspyntingar hátíð mæðra er í nánd!!! Hátíð ljóss og friðar (eða kertaljósa sem fela mesta skítinn og handalögmála þriggja barna í stofunni) Nú er komið að því sem aldrei fyrr að draga fram svipuna og minna sig á hvað maður sé nú með allt (heimilis)lífið algjörlega í lúkunum. Aðventan er hafin og er ekki örugglega búið að baka eina sort og mögulega skreyta piparkökur eða klastra saman piparkökuhúsi? Já og hvað með þennan aðventukrans og kertin og grenið sem átti að kaupa í hann. Svo er það þessi jólaköttur ætli hann sé hættur að éta börn eða mögulega étur hann bara börn klædd í fjöldaframleiddum fötum. Ég var nú aldrei neitt góð í handavinnu en ég ætti kannski að hunskast til að sauma jólafötin á börnin, reyndar er ekki til saumavél og heimilinu og engin sníðaskæri, eiginmaðurinn á nokkra títuprjóna og saumabox. Enda ætti engin manneskja jafn óþolinmóð og ég að koma nálægt slíku. Svo eru það jólagjafahugmyndirnar handa allri fjölskyldunni og hjálpi þeim sem ekki nýttu sér tilboðsdaga. Nú er líklegast allt uppselt eða pósturinn nær mögulega að senda þetta heim til þín á Þorláksmessu. Talandi um það. Ætti að skúra eldhúsgólfið þá eða dugar það bara á aðfangadag? Já og er enn í tísku að skúra vandlega og léttskúra svo daginn eftir. Kannski sleppur þetta bara með vel heitri tusku og smá Ajaxi á verstu blettina. Talandi um bletti. Sósubletturinn frá því í fyrra er enn fastur í spariblússunni. Ætli það væri ekki bara auðveldara að festa í sig nælu heldur en að láta sjá sig í efnalaug svona skammarlega seint. Ætli ég komist yfirhöfuð í þessa spariblússu og er algjörlega ólöglegt að vera bara í jogginggalla á aðfangadagskvöld? Kannski hægt að nýta Zoom stemninguna í ár og vera glerfínn að ofan en í joggingbuxum að neðan. Það myndi hjálpa heilmikið við ofátið. Át já. Það þarf að elda matinn og maturinn þarf að hæfa öllum. Best að reyna að borða snemma og moka ofan í liðið áður en allt fer á yfirsúning. Er stafasúpa ekki bara fínn jólamatur sé hún lituð rauð eða græn? Svo eru það rúmfötin þau verða að vera hrein á aðfangadag. Er einhver sem tekur að sér að strauja rúmföt? Ég myndi borga morðfjár fyrir slíkt. Þarf svo ekki að þrífa allt hátt og lágt, alveg agalegt að sjá ísskápinn hvað þá bökunarofninn, hver býr eiginlega hérna? Já og það eiga allir að vera þægir á jólunum hættið nú þessum látum börnin góð …

Að lokum: Vinsamlegast látið sem þið hafið ekki lesið ofantalið. Sýnið ykkur mildi um jólin og gerið hvað það sem lætur ykkur líða vel. (Munið samt að vera kurteis og góð eins og mamma kenndi ykkur). Veltist um í heitu súkkulaði með börnunum, horfið á jólamyndir og föndrið ef þið nennið. Eigið kósí og knúsandi aðventu og í guðanna bænum ætlið ykkur ekki um of.

Úr heimi móður eru pistlar eftir Maríu Ólafsdóttur, þriggja barna móður á Seltjarnarnesinu.



Mynd: Eva Sigurðardóttir






— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **

Lesa meira um...
Mest lesin
Kynferðislegt ofbeldi: Tilveruréttur minn

Nýjast á Vía
Afmælisrit Vía

Vía mælir með
Úr heimi móður: Allir eru að bíða eftir mömmu