Um samskipti við geimverur

12. maí 2021

Höfundur:
Vigdís Hafliðadóttir
@vigdishin

   

Þær eru á meðal okkar. Við fyrstu sýn virðast þær vera eins og hver önnur manneskja: eins byggðar, eðlilegar í samskiptum, skynsamar og skýrar en viti menn: í móðurkviði eða síðar á lífsleiðinni hefur heilum þeirra verið skipt út fyrir heila á veru af annarri plánetu sem skynjar heiminn á óhefðbundinn hátt. Heilahluta sem er vanþróaðri en meðalheili homo sapiens að því leytinu til að vitiborinn á sviði samskipta er hann ekki. Sérstaklega þegar tilfinningar annarra eiga í hlut.

Stundum varir þessi umskipting aðeins um stundarsakir, í ýmsum tilvikum frá unglingsárum fram á fertugsaldur en í öðrum tilfellum út lífið.  

Geimverum finnst ekkert athugavert við að láta ekki aðra vita um ferðir sínar, hvort þær komist í afmælið eða skírnina, mæta jafnvel ekki á áður ákveðið stefnumót. Þær svara oft ekki mikilvægum skilaboðum, opna jafnvel ekki skilaboð sem búist eða vonast er eftir svari við. Geimverur klippa á samskipti án þess að gefa upp nokkra ástæðu fyrir þann sem skilinn er eftir í myrkrinu. Þær slútta rómantísku sambandi einmitt þegar þeim hentar, óháð því hvaða áhrif það hefur á hinn aðilann. Þær höndla ekki augnsamband við fyrrum hjásvæfu þegar stigið hefur verið út úr þeim hliðaveruleika sem vill gjarnan myndast á nóttunni. Fyrir þeim er ekkert undarlegt eða sárt að hundsa aðra manneskju fullkomlega í rými sem áður var sjálfsagt mál að heilsa. Oftast er hægt að átta sig á að eitthvað hafi verið geimveruhegðun þegar sagt er frá henni og viðbrögðin eru: HA? Í alvöru? eða Hvað í fjandanum?

Í raun gera geimverur oft bara það sem þeim sýnist það, þegar sem sýnist það, sem getur verið aðdáunarverður eiginleiki, en í flestum geimverutilfellum þarf einhver annar að gjalda fyrir þennan sterka vilja. 

Ég segi geimverur án nokkurra heimilda því ég get bara ekki hugsað mér sennilegri ástæðu fyrir þeim undarlegu ákvörðunum sem teknar eru á sviði samskipta en að eitthvað alvarlegt og dularfullt hafi komið fyrir þessa heila sem virka annars bara nokkuð vel. Geimverur geta nefnilega alveg verið fínustu manneskjur: góð börn, góðir vinir, skapandi, skemmtilegar, klárar, réttsýnar, duglegar og margt annað jákvætt. 

Eða hvað gæti annað orsakað þetta? Hvernig getur manneskja sem er með heilbrigða heilastarfssemi ekki fattað að það að eiga í samskiptum við aðra og búa í samfélagi feli í sér ábyrgð og að hegðun hvers og eins hafi afleiðingar? 

Nú er ég ekki að tala um stóra samhengið, gang heimsins, viðbrögð markaðarins, hlýnun jarðar o.s.frv eða alvarlega þætti á borð við kúgun og ofbeldi, enda lítillækkandi fyrir fórnarlömb að kenna geimverum um ofbeldið sem þau hafa þurft að þola. Kvarðinn til umfjöllunar hér er miklu minni og afmarkast við annað fólk, upplifun þess og tilfinningar í hversdeginum. 

Hver og einn þarf nú auðvitað að bera ábyrgð á eigin tilfinningum heyrist oft og auðvitað er mikið til í því. Við ráðum kannski ekki mikið við að tilfinningar, sökum ytri þátta, blossi upp innra með okkur, þó við séum eflaust betur til þess fallin með betri andlegri líðan. Ég get samt ekki bara sagt líkamanum að sleppa því að vera leið eða reið núna. Bara susssuss. Hins vegar er hægt að ná tökum á hvað við gerum með tilfinningarnar en það er umræðuefni annars pistils.  

En GUÐ MINN GÓÐUR hvað það getur verið erfitt að hafa stjórn þegar það eru GEIMVERUR lausar á meðal okkar. Er svarið bara æðruleysi?

Sætta sig við að það er ekkert við þessu að gera? Draga andann djúpt og halda áfram með líf sitt? 

Það getur verið svo erfitt að sætta sig við það sem maður skilur ekki. Ef einhver ber ekki þær tilfinningar til manns sem maður vonaðist eftir er það kannski sárt, en það er skiljanlegt. Hrifning er ekki sjálfgefin og ekki hægt að krefja nokkurn um að líða á ákveðinn hátt. Ef einhver sem manni þykir væntum mætir ekki í afmælið manns, vegna þess að viðkomandi var í slæmu andlegu standi eða með mígreniskast, er það leiðinlegt, en það er skiljanlegt. 

Geimveruhegðun kemur hins vegar stundum svo flatt upp á mann og skilur eftir svo margar spurningar að það er erfitt að átta sig á hvar eigi að byrja í sáttarferlinu. 

Ég er enginn samskiptagúru svo það sé á hreinu. Auk þess að vera stundum hvatvís bjáni hef ég hef bæði gerst sek um einhverskonar geimveruhegðun (ég hugsa að við höfum það flest í einhverjum mæli á ákveðnum tímapunkti í lífinu) og lent í ýmsum  samskiptaárekstrum. Sumir hafa skilið eftir smá dæld en aðrir valdið stærra og meira tjóni.

Oftast hefur tekist að gera við skemmdirnar, en þá þarf alla sem málið varðar með, þó ekki sé nema til að segja: „jú, þú mátt gera við þetta“. 

Ósvikin geimveruhegðun er samt svo snúin því geimveran sýnir yfirleitt engan vilja til að bæta eitt né neitt. Hún er bara farin annað, tilbúin að geimverast í öðrum, dauðfegin að losna við þessa rugluðu og óþægilegu manneskju úr lífi sínu sem krefur hana um að vera eitthvað sem hún er ekki. Geimveran verður líka að gera það, því um leið og hún tekst á við raunveruleikann og horfist í augu við sjálfa sig, tilfinningar sínar og gjörðir, er eins og framandi hluta heilahvelsins sé skilað til réttmæts eiganda og viðkomandi verður aftur að manneskju. Það er ekki endilega eftirsóknarvert, því það að vera manneskja er bara miklu erfiðara.






— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **

Lesa meira um...
Mest lesin
Kynferðislegt ofbeldi: Tilveruréttur minn

Nýjast á Vía
Afmælisrit Vía

Vía mælir með
Ég snoðaði mig