Þegar að ég vissi að barnæskan væri búin

12. apríl 2019

Höfundur:
Lára Sigurðardóttir

   
Myndahöfundur:
Eva Sigurðardóttir
@evasigurdar
@evasig__
evasigurdar.com


Ég grét þegar að ég kom heim. Ég settist á rúmið mitt grátandi og horfði yfir herbergið sem var mjög lítið og undir súð, svo ég horfði í rauninni á súðina.

Þetta ár var ég búin að ganga þessa leið svona fimm sinnum í viku.

Upp Hraunteiginn, til vinstri upp Gullteig, framhjá Laugarnesskóla og leikskólanum Hofi, svo aftur til vinstri og niður Hofteiginn, svo til hægri niður innkeyrsluna eða stíginn (þetta var bakhús).

Ég gekk alltaf sömu megin og ég fór aldrei aðra leið, aldrei gegnum skólalóðina eða eitthvað slíkt. Arna var sérstaklega þolinmóð gagnvart þessari sérvisku minni, þessum vana sem ég hef að gera hlutina alltaf nákvæmlega eins. Sérstaklega þegar um er að ræða gönguferðir eða leiðir. Ég fer alltaf sömu leiðina.

Þegar að ég var að æfa fótbolta með Þrótti tíu ára gömul fór ég alltaf samferða Örnu. Æfingasvæðið var ekki í hverfinu okkar, Laugardalnum, heldur ská á móti Holtagörðum, beint á móti Jóa Fel bakaríi, í Sundunum. Í mínum huga var þetta eins og að fara til annars lands. Ég man að þetta var um sumarið og við hjóluðum alltaf á æfingu. Ég man líka að ég þekkti Örnu ekkert sérstaklega vel þá, við vorum ekki nánar vinkonur á þessum tíma. Við hjóluðum alltaf sömu leiðina. Alltaf sömu leiðina. En í eitt skiptið þá var Arna búin að finna aðra fljótari leið og ég komst í pínu uppnám. Ég man að ég gat hreinlega ekki hugsað mér að fara aðra leið og skildi ekki afhverju í ósköpunum við gætum ekki bara farið leiðina sem að við fórum alltaf. Sömu leiðina. Leiðina okkar. Ég stappaði niður fótunum og byrjaði næstum því að gráta. Arna sagði rólega að við myndum þá bara fara leiðina okkar, sömu leiðina og alltaf, jafnvel þótt hún væri lengri. Ég gleymi þessu ekki. Það var ekki fyrr en löngu seinna að ég hugsaði hversu sérvitur ég væri og vanaföst. Ég skammaðist mín. Ég áttaði mig líka á því hvað Arna væri skilningsrík, jafnvel án þess að hún vissi hvað þetta skipti mig miklu máli.

Kvöldið sem ég sat grátandi á rúminu mínu og horfði yfir herbergið, á súðina, var ég tuttugu og eins. Ég var að koma frá Örnu. Arna var á leiðinni til Perú og ég var sjálf á leiðinni til Danmerkur nokkrum mánuðum seinna. Ég vissi að þegar að Arna kæmi heim frá Perú yrði ég farin. Ég vissi að allt myndi breytast, að allt væri þegar breytt.

Við vorum fleiri vinkonurnar sem vorum svo oft heima hjá Örnu. Þetta ár var ég samt oftast bara ein heima hjá Örnu. Við vorum allar farnar eitthvert á þessum tímapunkti. Til annars lands, ekki bara í Sundin. Sumar voru aftur komnar til baka en voru samt á leiðinni eitthvert annað. Að verða fullorðnar heitir það víst. Að eignast elskhuga, læra eitthvað nýtt, flytja úr hverfinu, flytja lengst í burtu, finna aðra leið, að fara aðra leið.

Það sem ég vissi að myndi aldrei verða eins var að við myndum aldrei bara vera heima hjá Örnu aftur. Hvorki ég ein eða með hinum. Að bara vera var að tala, leggja sig, lesa, hlæja, horfa á eitthvað, hlusta á tónlist, segja frá, gráta, bíða eftir símtali, borða nammi, horfa á Örnu brjóta saman þvott – taka til – fara í gegnum pappíra. Það sem ég vissi var að engin manneskja, eins og Arna, sem var búin að þekkja mig í svona mörg ár var í Danmörku. Engin manneskja sem vissi hvað ég væri sérvitur en skildi mig samt.

Kvöldið sem ég sat á rúminu mínu og grét saknaði ég þess sem var og kveið því sem koma skyldi.

Þetta kvöld gekk ég þessa leið heim, upp stíginn eða innkeyrsluna (þetta var bakhús), til vinstri, upp Hofteiginn, til hægri niður Gullteig, framhjá leikskólanum Hofi, framhjá Laugarnesskóla, aftur til hægri inn Hraunteiginn.






— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **

Lesa meira um...
Mest lesin
Kynferðislegt ofbeldi: Tilveruréttur minn

Nýjast á Vía
Afmælisrit Vía

Flæði: