Bíttu á jaxlinn, ekki gráta
Og þú beist á jaxlinn og hélst inni tárunum
Og þau söfnuðust saman
Og mynduðu stóra stíflu innra með þér
Og þú beist aftur á jaxlinn
Og tárin hrönnuðust upp
Og stíflan stækkaði
Og það varð til stöðuvatn innra með þér
Og þú beist fastar á jaxlinn
Og stöðuvatnið varð að söltum sjó
Og tilfinningarnar syntu stefnulaust um í hafinu
Og þú kunnir ekkert annað en að öskra
Og þú öskraðir hátt
Og öskrið barst í gegnum himininn
Og heyrðist út um allar trissur
Og þér fannst þú ekki lengur finna fyrir gleði
Og þér fannst þú ekki geta elskað
Og þú upplifðir hvorki sorg né vonbrigði
Og þér fannst þú ekki finna fyrir neinu
Þú varst dofinn
Þú sást enga liti, greindir ekki einu sinni muninn á svörtu og hvítu allt rann saman allt var grátt aðeins grátt
Þar til einn daginn
Þegar stíflan brast
Og þú grést þangað til öll tárin voru uppurin
Og þá fyrst fannstu fyrir létti
Og þá fyrst fannstu fyrir gleði
Og þá fyrst gastu elskað
Og þú elskaðir af öllu hjarta
Og nú þegar þú brosir
meinaru það.