Lífið í Istanbúl er áframhaldandi ringulreiða og veisla.
Gamlir menn blessa mig og ákalla Allah á götum úti
Ungir menn adda mér á instagram og senda mér skilaboð
Sólin skín og húðin roðnar.
Ég kann að telja á tyrknesku og panta mér kaffi.
Skólaskírteinið er loksins tilbúið, tveimur mánuðum seinna en áætlað var, en ég þarf hins vegar ekki á því að halda, verandi eini skiptineminn á mínu skólasvæði og geng í gegnum öryggisleitina án þess að sýna eitt né neitt – nema bros og ljóst hárið.
Ég sit á götuhorni við uppáhaldskaffihúsið mitt (eitt af mjög mörgum) og horfi og hlusta.
Bænakall úr næstu mosku
Lítið barn að öskra á mömmu sína
Skransali dregur timburvagn á eftir sér og hrópar eitthvað óskiljanlegt á nokkurra sekúndna fresti
Ég hrekk upp við bassann í tónlist þegar hvítur BMW keyrir framhjá með hvolp hálfan út um gluggann
Eldri kona vaggar framhjá og skammar mig fyrir að vera berleggja
Önnur dáist að ljósa hárinu mínu
Hópur af krökkum hefur hátt. Mana hvert annað að klifra yfir grindverk og hoppa hærra
Sonur afgreiðslukonunnar leikur sér með spiderman fígúru og truflar móður sína reglulega í vinnunni
Eldri maður gengur fram hjá með tvo stóra hunda í eftirdragi
Ég klappa tveimur kisum og stappa í takt við jazzaða útgáfu af Gangster paradise
Trukkur skreyttur tveimur jakkafataklæddum mönnum með rauð bindi blastar poppuðu lagi og hvetur fólk til að gefa blóð
Hópur af unglingsstrákum helst í hendur og gantast á leiðinni heim úr skólanum
Ung fjölskylda labbar framhjá, mamman með bleikt hár og tvo snúða, bert á milli, í buffalo skóm – 10 ára dóttir hennar líka
Síðustu vikur hafa einkennst af gleðskap og dansi með öðrum skiptinemum í borginni. Þess á milli mæti ég í skólann, borða tyrkneskan morgunmat og slaka á í sólinni. Mér finnst ótrúlegt að ég hafi verið hér í þrjá mánuði og að ég eigi bara tvo mánuði eftir.
Skapstyggir strætóbílstjórar í óskipulagðri umferð og hópar að dansa halai í görðum hafa sett mark sitt á dvöl mína hér sem og allt góða fólkið sem ég hef kynnst. Ég á núna þrjár tyrkneskar systur og þrjá meðleigjendur sem ég var svo heppin að fá inn í líf mitt þegar ég flutti í nýju íbúðina. Fólk er svo frábært. Svo er Ramadan í fullum gangi með tilheyrandi samkomum og ógrynni af góðum mat þegar fólk brýtur föstuna á kvöldin.
Það er eitthvað svo fallegt við að vakna fyrir fjögur um morgun með meðleigjendunum og borða og hlæja saman fyrir föstu.
Það er eitthvað svo fallegt við að útskýra fyrir forvitnu afgreiðslufólki hvaðan ég er og hvað í andskotanum ég er að gera í Tyrklandi.
Það er eitthvað svo fallegt að koma heim eftir partý og heyra fyrsta bænakall dagsins.
Það er eitthvað svo fallegt við að skoða magnaða sögulega staði eins og Hagia Sophia en taka meira eftir öllum fyndnu túristunum sem pósa og taka myndir villt og galið innan um mörg hundruð ára arkitektúr og list.
Æ og bara svo margt annað.
Iyi Akşamlar
Þangað til næst.