Ljóð: Til þeirra sem gleymdust

1. mars 2019

Höfundur:
Harpa Rún Kristjánsdóttir
@harparun90
   
Myndahöfundur:
Pálmi Bjarnason og Sigrún Kristjánsdóttir


Gefin
gömlum manni
ekkert girndarráð
fyrir mig.
Seld
í afskekkta sveit
fjarri öllum mínum,
húsmóðir meðal ókunnugra.
     Öldurnar brotna
straumurinn dynur
áfram rennur áin
til sjávar.

Ofurseld
yfirráðum
hollra húsbænda
utan við garð og milli fjala.
Eða ambátt
fjölkunnug en fáum kunn
útlitið framandi
nafnið situr fast í málbeinum manna.
En í myrkri eru allir kettir gráir.
     Öldurnar brotna
straumurinn dynur
áfram rennur áin
til sjávar.

Frá upphafi
er ábyrgðin þín
því hvernig sem fer
situr þú uppi með syndina.
Nema þá aðeins
að ávöxturinn sé rifinn úr skauti þér
af guði eða mönnum
sárið er það sama.
     Öldurnar brotna
straumurinn dynur
áfram rennur áin
til sjávar.

Eigi leyna augu
ef ann kona
en lokuð augu
láta ekkert uppi.
Skipandi raddirnar
þegja
þegar til er ætlast
gegnbleyta sakleysið í skömm.
     Öldurnar brotna
straumurinn dynur
áfram rennur áin
til sjávar.

Gegnum árniðinn
greini ég gleymdar raddir
því steinarnir eru strengir
og vatnið er harpa minninganna.
Ég ber það í lófann og bergi á
og lofa að gleyma ykkur aldrei.

Sofið rótt, elsku systur,
í Drekkingarhyl.






— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **

Lesa meira um...
Mest lesin
Kynferðislegt ofbeldi: Tilveruréttur minn

Nýjast á Vía
Afmælisrit Vía

Flæði: