Ljóð: Til þeirra sem gleymdust
Gefin
gömlum manni
ekkert girndarráð
fyrir mig.
Seld
í afskekkta sveit
fjarri öllum mínum,
húsmóðir meðal ókunnugra.
Öldurnar brotna
straumurinn dynur
áfram rennur áin
til sjávar.
Ofurseld
yfirráðum
hollra húsbænda
utan við garð og milli fjala.
Eða ambátt
fjölkunnug en fáum kunn
útlitið framandi
nafnið situr fast í málbeinum manna.
En í myrkri eru allir kettir gráir.
Öldurnar brotna
straumurinn dynur
áfram rennur áin
til sjávar.
Frá upphafi
er ábyrgðin þín
því hvernig sem fer
situr þú uppi með syndina.
Nema þá aðeins
að ávöxturinn sé rifinn úr skauti þér
af guði eða mönnum
sárið er það sama.
Öldurnar brotna
straumurinn dynur
áfram rennur áin
til sjávar.
Eigi leyna augu
ef ann kona
en lokuð augu
láta ekkert uppi.
Skipandi raddirnar
þegja
þegar til er ætlast
gegnbleyta sakleysið í skömm.
Öldurnar brotna
straumurinn dynur
áfram rennur áin
til sjávar.
Gegnum árniðinn
greini ég gleymdar raddir
því steinarnir eru strengir
og vatnið er harpa minninganna.
Ég ber það í lófann og bergi á
og lofa að gleyma ykkur aldrei.
Sofið rótt, elsku systur,
í Drekkingarhyl.