Ljóð: draumur
mig dreymdi einu sinni.
og í drauminum átti ég barn.
mitt barn.
og það fékk freknurnar mínar
og rauðbirkna hárið mitt
og grænu augun mín
og allt það góða sem ég hef nokkurn tíma átt.
og barnið mitt stækkaði aldrei
en vitkaðist bara og vitkaðist
þangað til vitið þess hafði vaxið mér yfir höfuð.
og ég hélt á litla, vitra barninu mínu,
sem fékk freknurnar mínar
og rauðbirkna hárið mitt
og grænu augun mín
og allt það góða sem ég hef nokkurn tíma átt.
og litla, vitra barnið mitt horfði í augun mín.
grænt í grænt.
tók með litlu lófunum sínum um vangana mína og hvarf.
og ég sat eftir.
og freknurnar sem voru eins mínar
voru eins og duft í kjöltunni minni.
og ég vissi að ég ætti að gráta
en ég gerði það ekki
því þetta var ekki sorglegt fyrir konu eins og mig,
sem á sama tíma er hrædd við að eiga barnið
og hrædd um að geta aldrei átt barnið.