Eva í Tyrklandi: Smáatriðin

22. febrúar 2019

Höfundur:
Eva Sigurðardóttir
@evasigurdar
@evasig__
evasigurdar.com
   

herbergið sem ég bý í er fjólublátt. lakið á tvíbreiðu rúminu er svart og birtan frá eina ljósinu í herberginu er eins og í mátunarklefa í Kringlunni.

Svefnsófinn er þakinn nærfötum því ég finn ekki pláss í fataskápnum – ég drattast til að brjóta þau saman og troða þeim inn um leið og ég er búin að ákveða að flytja þaðan í lok vikunnar.

Strákurinn sem leigir út herbergið og býr í íbúðinni heilsar mér, í þau fáu skipti sem ég sé hann,: „hiiiiiiii eeeeeeva“ og talar eins og það sé búið að stilla talið á helmingshraða.

Hann notar ekki eldhúsið nema til að geyma drasl, engin skápahurð er í lagi og hann á enga gaffla en tvær skeiðar.

Ég má nota eina stillingu á þvottavélinni og þarf að passa að snúa hurðarhúninum á herberginu mínu þegar ég opna og loka – „otherwise it breaks off and I just fixed it“.

Ég kann ekki að kveikja ljósið á ganginum, þar er alltaf dimmt og dregið fyrir alla glugga í stofunni. Þegar ég spyr hann hvernig ég kveiki svarar hann: „whyy do youuu neeeed liight?“

Síðustu daga hef ég verið í smá dvala. Lítið gert annað en að sofa, horfa á netflix og fresta því að byrja daglegt líf í nýju landi.

er myrkur smitandi?

__

Ég fer út og fæ mér kaffi

     þykist vinna.

Ég fer út og fer á klassíska píanó tónleika

     vissuði að píanó er piyano á tyrknesku.

Ég fer út og á Tom Odell tónleika með vinkonu minni,

     hún elskar Tom Odell.

Ég fer út og mæti í skólann en hann er varla byrjaður  

     eða ég misskil kerfið.

Ég fer út og fer að dansa með vinkonum mínum

     meiri metnaður – minna áfengi

Ég held að ég eigi að mæta kl 10 í skólann en er ekki viss

Ég mæti á slaginu (ok smá seint kl 10.25) en veit ekki hvort ég eigi að vera þar. Ég fæ mér kaffi í kaffiteríunni, klappa kisum og hlusta á listnema koma og fara.

Það eru nokkrar hænur á vappinu, ég horfi á fólk horfa á mig,

*ding* Ég þarf ekki að vera her í dag en fínt að ég mæti 10 á morgun og kynnist skólanum aðeins betur.

svo er það bjúrókrasíudeit.

Sól, umferð og bílflaut

fólk og fátækt

tyrkneski fáninn og strákur að pissa hinu megin við götuna

smáatriðin óumflýjanleg

gangstéttin hvorki gangstétt né gata

hálfur steypuveggur, tíu sprungur og klifurjurt meðfram plaströri.

konur með slæðu á höfðinu

ég með slæðu um hálsinn

tveir eldri menn við lítið hringborð á miðri götu.

menn – menn – menn – ein kona – menn – menn – tvær konur – menn – menn – menn

fjölskylda á götunni

gömul kona að selja blóm

ég heyri bílflaut á tíu sekúndna fresti og umferðin er hröð.

tyrkneski fáninn, rústir og litlir kofar.

þvottur hangir til þerris og þvottur verður að hurðum.

grindur fyrir gluggum og kisur að kúra

í gluggum, á rafmagnskössum, í blómabeðum.

glókollur í vafasömu hverfi – stysta leiðin á google maps

verkamenn reka upp stór augu

Fyrsta catcall dvalarinnar og rúnkhljóð í þokkabót – túlkið það eins og þið viljið

Er of ljóshærð, of hávaxin og of hvít.

Fólk ávarpar mig á ensku eða frönsku.

Ertu þýsk?

Ég get ekki fallið í fjöldann – orðið ósýnileg.

Er eitt af blikk skiltunum.

lýjandi. þreytandi. erfitt.

Ertu módel, þú ættir að vera módel, yrðir gott módel, vá – afhverju ertu ekki módel.

__

Í gær flutt ég í nýtt herbergi í nýrri íbúð.

Með meðleigjendum, ekki myrkraverum.

Ég læddist meðfram veggjum á leiðinni út úr gömlu íbúðinni eins og myrkrinu sæmir og stefni á að senda verðandi fyrrverandi meðleigjanda skilaboð í vikunni og láta hann vita að myrkrið sé hans.

Það er drykkjarhæft vatn í eldhúsinu. Rýmið ber ummerki þess að hér sé eldað og þrifið og í skápum og skúffum eru pottar, pönnur, hnífar OG gafflar.

Ég fann sojamjólk í búðinni sem ég set í hilluna mína í ísskápnum og ég elda mér kvöldmat (í fyrsta skiptið í Istanbúl)

Ferðataskan er hálftóm á gólfinu og rúmið nýumbúið, lakið er appelsínugult.

     Ég verð að kaupa mér plöntu. Og lak.

Birtan er, líkt og í fjólubláa herberginu, eins og í mátunarklefa,

     ég ætla að kaupa mér lampa.

Ég er hins vegar með stóran glugga og franskar svalir –

     hugsið ykkur, morgunkaffi og sól á svölunum. Í Istanbúl.

Ég horfi á sjálfa mig í speglinum og sé ljóshærða, hávaxna og bláeygða stelpu, með kvef og byrjandi augnsýkingu.

Í dag ætla ég að hætta að vera ljóshærða, hávaxna og bláeygða stelpan sem nennir ekki athyglinni og verða í staðin ljóshærða, hávaxna og bláeygða stelpan sem er drull.

Þangað til næst.






— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **

Lesa meira um...
Mest lesin
Kynferðislegt ofbeldi: Tilveruréttur minn

Nýjast á Vía
Afmælisrit Vía

Flæði: