Eva í Tyrklandi: Farðu varlega

13. febrúar 2019

Höfundur:
Eva Sigurðardóttir
@evasigurdar
@evasig__
evasigurdar.com
   

Ég er lent.
Ég man ekki eftir því að hafa tekið ákvörðun um að koma hingað. Er bara allt í einu mætt og veit ekki alveg við hverju ég á að búast – nema því að ég þurfi að fara varlega, passa mig á öllu og öllum, undirbúa mig fyrir áreitið og sjokkið og vara mig á ágengum karlmönnunum.

— — —

Ég þykist reykja tvær sígarettur fyrir utan flugvöllinn og fylgist með fólki. Fólki að reykja, fólki að flýta sér, fólki með fjölskyldur og fólki á bílum.
Leigubílstjórar kalla og bjóða mér far. Ég neita og þarf smá rými til að hugsa, er það taxi eða metro.

Ég sest inn í leigubíl með batteríslausan síma og enga inneign. Ég sýni bílstjóranum heimilisfangið sem ég blessunarlega mundi eftir að skrifa niður í skissubókina mína. Hann brosir og spyr hvort ég hafi heimsótt Istanbúl áður og hvaðan ég sé. Hann kannast ekki við Ísland – glottir þegar ég segi að þar búi einungis um 300 þúsund manns.

Mér er óglatt eftir flugið, sígarettureykinn og af smá stressi. Ég reyni að hlaða símann með lélega hleðslutækinu mínu.

Bílstjórinn gefur mér brjóstsykur með kanillbragði og spjallar á bjagaðri ensku. Mér verður skyndilega mjög bumbult og ég finn ólguna í maganum – Ég fæ æluna upp í munn en kann ekki við að ýta í hann og biðja hann um að stoppa í allri umferðinni.

Ég kyngi ælunni, kúgast tvisvar í viðbót en eftir að hafa kyngt þrisvar róast maginn. Ég vona að bílstjórinn hafi ekki tekið eftir þessu, meðvirka ég vil ekki vera með vesen.

Hún stendur fyrir utan og talar við bílstjórann. Ég borga honum og veit ekki alveg hvernig mér á að líða.
Hún ber töskuna mína alla leið upp á þriðju hæð og þverneitar að leyfa mér að halda á henni sjálf.

Þær eru þrjár, brosmildar og gestrisnar. Ég hef aldrei hitt þær áður en þær bjóða mér inn á fína heimilið sitt – dekra mig í köku. (takk Úlfur fyrir að plögga þessu)

Vinkona mín, yfirmaður hennar og tveir synir í hádegismat. Við tölum um víkinga, fótboltamenn og eldfjöll. Sigþórsson er víst ömurlegur því hann kom til Tyrklands, fékk fullt af pening en spilaði ekkert. Svikari – þeirra orð, ekki mín.

Ég hlusta á þau tala á tyrknesku.
Hún pantar – þeir borga.

Ég sit á arkitektúrstofu í Istanbúl og drekk tyrkneskt kaffi og smakka turkish delight. My heart will go on með Celine Dion er í gangi. Yfirmaður vinkonu minnar segir henni að sýna mér bækur á skrifstofunni um myndlist því ég er listakona. Ég vel mér bók um Degas og skoða myndirnar – textinn á tyrknesku.

Ég vafra um – ég týnist. Ég drekk kaffi og eyði 12 þúsund króna símainneign á innan við hálftíma.

Ég fer á klúbb með stelpunum. Við erum mættar um tíu, með þeim fyrstu. Tveir bjórar og hip hop. Það sem stóð upp úr var lélegur plötusnúður og ég (bókstaflega).

Morgunverðarhlaðborð. Rölt í björtu.
Vinukonurnar hissa á því hvað ég tek fáar myndir. Er ekki þessi týpíski túristi – svo íslenskt að finnast það asnalegt.

Matur. matur. matur.
Hey körfuboltakona, þú færð afslátt
Matur. matur. matur.

Heitt vín og strákamál. Áttu kærasta?
Giftingaraldur og barneignir.

— — —

Ný íbúð – nýtt heimili – nýr skóli

Ég ákveð að rölta í skólann fyrsta daginn minn, það er sól. 40 mínútur segir google maps. Það sem ekki stóð var að gangan var öll upp í mót.

Mæti sveitt á fund með yfirmanni deildarinnar og hún er sein.

Hún talar og talar. Ég hlusta og hlusta.
Ég mun velja kúrsa út frá þeim kennurum sem tala ensku, þvert á deildir.

Það kemur í ljós að ég er eini erasmus nemandinn í þessari byggingu – veit ekki hvort mér finnist það gott eða slæmt, líklegast bæði.

Ég þarf að fara á skrifstofuna að redda nemakorti svo ég komist inn í gegnum security í skólanum vandræðalaust og hún ákveður að skutla mér – var örugglega í sjokki yfir því að ég hafi gengið í skólann en ekki tekið strætó.

Ég mæti á skrifstofuna og það fyrsta sem ég heyri: „I’ve seen you before, I know your face“. Ætli ljósa hárið mitt standi ekki smá út, sem og bláu augun, gegnsæ húðin og jú bara flest í mínu fari.

Spjalla við hann og þarf að mæta aftur seinna að klára alls konar til að fá kortið. Ég er svo léleg í svona praktísku bjúrókrasíudóti. Hlýtur að reddast (hehe).

Ég fer og hitti vinkonur mínar og þær sýna mér skólann sinn sem er í evrópska hluta borgarinnar. Önnur þeirra röltir svo með mér og sýnir mér nokkra af túristastöðum borgarinnar.

— — —

Fyrstu dagarnir hafa verið yfirþyrmandi og yndislegir. Það er svo ótrúlega margt að sjá og ég sé ekki fram á geta gert nema lítinn hluta af því sem mig langar á næstu mánuðum.

Það er allt morandi í fallegum byggingum, köttum, fólki, kaffihúsum og góðum mat.

Það fólk sem ég hef átt í samskiptum við eru öll af vilja gerð að aðstoða mig svo mér líði sem best. Ég hef lítið orðið vör við allar hætturnar sem eiga að vera á hverju götuhorni í borginni. Ég held að þessar áhyggjur séu stórlega ýktar og óþarfi.

Auðvitað þarf ég að passa mig, ég er kona, en þarf ég þess ekki alls staðar?

Ég mæli með Istanbúl og ég hlakka til að eyða næstu mánuðum hér – þið eruð öll velkomin í heimsókn!






— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **

Lesa meira um...
Mest lesin
Kynferðislegt ofbeldi: Tilveruréttur minn

Nýjast á Vía
Afmælisrit Vía

Flæði: