Eva í Tyrklandi: Don’t be shy, I’ll give you free chai
Það er eitthvað voða notalegt við það að heyra í nágrönnunum.
Á fótum kl hálf fjögur á aðfaranótt mánudags.
Að ryksuga á þriðjudagsmorgni.
Börn að leik á efri hæðinni og fréttirnar í gangi.
Falskt píanó og æfingar samhliða ljósaskiptunum.
Píanóleikur nágrannans minnir mig á aumingja Kristínu og Steina sem þurftu að hlusta á mig æfa mig á píanóið á hverjum degi (ish) í 12 ár.
Tónstigar og Czerny æfingar. Tunglsónatan og Für Elise. Aftur og aftur og aftur og aftur.
Ó, svo spilaði bróðir minn á trompet á tímabili.
—
Sólin kyssir á mér nef og enni og ég þarf að píra á mér augun
það er svalt en mér er sama.
sólin.
Ég æfi mig að klæða sólina af mér, stenst freistinguna um að afklæðast og tana líkt og sönnum Íslendingi sæmir.
Sólin gerir ekki annað en að staðfesta þá trú mína að andleg heilsa mín stjórnast alfarið af veðurfari og hitastigi.
Ég er orðin frek á góða veðrið og tek því mjög persónulega ef hitastigið fer undir 15 gráður – ég er orðin mjög stressuð fyrir næstu dögum því það á að kólna smá.
—
Mannmergð
Mannlíf
Mannþröng
Mannhaf
Fjölmenni
Ég hef tekið eftir því að mikill meirihluti þeirra sem ég sé á götum úti, í búðum og á veitingastöðum eru karlkyns. Karlar út um allt. Þeir afgreiða þig, þjónusta þig og mæta þér á götum úti. Þrír strákar fyrir hverja stelpu.
Og ég næ ekki utan um þá hugsun að í Istanbúl einni búi um 60 sinnum fleiri en á öllu Íslandi.
Tuttugu milljónir. Og ég er ein af þeim.
Mér finnst ég aldrei sjá sama fólkið. Svo ánægjulegt.
Sú hugsun er svolítið einmanaleg, og stundum er hættulegt hvað ég kann vel við einveruna. En ég hef kynnst frábæru fólki og ég er alls ekki einmana,
og þó. Stundum er athyglin sem ég fæ svolítið einmanaleg.
—
Staða kvenna hefur verið mér hugleikin síðustu vikur. Það að vinna að femínísku verkefni eins og Flóru á stað eins og Istanbúl er mjög áhugavert. Á sama tíma og útgáfuhóf Flóru var haldið, þar sem femínismi réð ríkjum, beitti lögreglan í Istanbúl táragasi gegn þeim sem mætti á kvennamótmælin.
Það er eins og innbyggt í karakter kvenna að gera ráð fyrir „herramennsku“ karla – t.d. að reikna með að karlar opni hurðar fyrir þær og borgi fyrir þær. Þær láta á sig fá þegar talað er niður til þeirra og strákar eru ágengir. Þeir bjóða stelpum grimmt á deit en taka ekki mark á neitunum og halda áfram að spjalla. Kannski þarf ég bara að læra að vera skýrari.
Mér finnst ég sjá mynstur í því fólki sem ég kynnist – strákar sem hafa frumkvæði að því að kynnast mér og opnar stelpur sem trúa því að hjónaband og börn séu ekki eina leiðin í lífinu – leiðin sem margar konur taka í Tyrklandi, vinna, eignast kærasta, giftast honum, hætta að vinna, eignast börn og sjá um börn og heimili á meðan karlinn sér fyrir fjölskyldunni. Karlar hafa völdin. Þrisvar hef ég verið fyrir aftan par – karl og konu – á göngu og þegar ég nálgast grípur hann í hana og dregur hana frá svo ég komist framúr. Ég þekki reyndar eina stelpu sem getur ekki beðið eftir að gifta sig og hætta að vinna til að sjá um heimilið.
Mér finnst staða kvenna verða skýrari með tímanum en ég á enn langt í land með að skilja hver hún er í raun og veru. Mér finnst ekkert að því að velja það að vera heimavinnandi húsmóðir en ég set spurningamerki við ástæður „valsins“ því ég trúi því ekki að allar þessar konur ákveða að hætta að vinna af sjálfsdáðum, jafnvel eftir 5 ára háskólanám og góðan árangur í starfi. Þetta er þó að breytast og eru færri og færri konur sem hætta að vinna svona snemma.
Ég á erfitt með að staðsetja mig sem femínista innan samfélagsins hérna og veit ekki hversu mikið pláss ég get tekið.
Mér finnst ég þurfa að læra að vera kynþokkafull í fasi og framkomu – eins og allar smágerðu stelpurnar sem dansa á skemmtistöðum, hljóðlátar svífandi um göturnar og „kvenlegar“ að drekka kaffi í kaffiteríunni í skólanum.
Mér finnst ég þurfa segja eitthvað þegar ég upplifi sexisma en eins finnst mér ég ekki í þeirri stöðu að skilja allar hliðar og mín rödd ekki mikilvæg í samanburði við rödd kvenna héðan.
Mér finnst ég algjör tussa að höndla ekki karlrembulætin í vinahópi meðleigjanda minna og stóð á mínu og rökræddi um femínisma við þá eftir að þeir gerðu lítið úr vinkonu minni og gáfu til kynna að það tæki því ekki að hún færi í læknisfræði því hún þyrfti að hætta snemma og sjá um börnin – og þeim var alvara.
Mér finnst ég að mörgu leiti öruggari hér en annars staðar því hér eru konur taldar veikara kynið og margir karlar sem finna hjá sér þörf til að vernda mig og aðrar konur.
Mér finnst ég þurfa að kafa djúpt í menninguna til að skilja almennilega stöðu kynjanna – því stundum virðist hún fullkomin og góð – en stundum mjög íhaldssöm og gamaldags.
__
Don’t be shy, I’ll give you free chai.
Hello, hey. Terrace, terrace. We have terrace.
Good price only for you!
Áreiti afgreiðslumanna er mismikið og er það mismunandi milli daga hversu mikið þeir pirra mig. Ég er svo augljóslega útlendingur og þeir spotta mig úr mikilli fjarlægð og munu gera það áfram. Það er líklegast best fyrir geðheilsu mína að venjast þessu sem fyrst. Mamma og pabbi voru í heimsókn um helgina og sáu þeir sér gott til glóðarinnar og tókust á um að fiska okkur inn á veitingastaði og kaffihús. Þrír (túristar) fyrir einn. Eins kom Úlfur snillavinur minn í heimsókn og við fórum á skemmtistað sem spilaði tyrkneska 90’s tónlist – eina lagið sem ég þekkti allt kvöldið var tyrkneska eurovisionlagið sem vann árið 2003 .
—
Það var óskaplega gott að fá fólk í heimsókn og túristast aðeins í borginni sem ég kalla heimilið mitt. Kynnast henni betur og njóta lífsins – það er svo sannarlega auðvelt í Istanbúl. Spennandi viðburðir og tónlist út um allt, góður matur á hverju horni og saga og kúltúr í loftinu sem ég anda að mér. Brunch-kona eins og ég er heldur betur í góðum málum í landi þar sem íbúar eru með doktorsgráðu í morgunmat og brunch-menningin í hávegum höfð.
Mér líður rosaleg vel hérna. Ég er búin að finna mín uppáhalds kaffihús þar sem ég hef eytt ófáum klukkustundum að vinna og eins er ég (loksins) búin að kaupa mér nýtt lak og tvo þykkblöðunga.
Nú taka við tvær miðannavikur í skólanum (held ég hehhh) ef þetta er rétt skilið hjá mér að það verði einhverskonar miðannamat – kemur í ljós…
Heyrðu – svo fann ég draumahúsið mitt á lítilli paradísareyju fyrir utan Istanbúl – þar sem eru engir bílar og allir ferðast á hjólum og hestum. Hlakka til að fá ykkur í heimsókn..