Bláholið
Veðrið var milt, nýfarið að örla á vorinu. Sólin skein á tærbláum himni eftir næturfrostið. Hún bjó í húsi með grænu bárujárnsþaki. Það stóð þétt upp við önnur hús, annað með rauðu þaki og hitt með stálgráu. Öll voru húsin hvítmáluð að utan. Hennar hús var með bláum gluggakörmum. Hún stóð við gluggann í stofunni og horfði út á götuna. Kaffibollinn í höndum hennar hlýjaði köldum fingurunum. Hún hafði alltaf verið handköld. Afi hennar sagði að þá hlyti hún að vera með hlýtt hjarta. Henni þótti vænt um þessi orð og minntist þess oft þegar hún bölvaði köldum fingrunum. Hrokkið hárið bylgjaðist niður á hvíta skyrtuna. Hún fékk sér sopa af kaffinu og dæsti. Henni leið vel. En samt ekki. Það var eitthvað sem var að angra hana en hún gat ekki sett fingurinn á það. Henni fannst eitthvað vanta og leið eins og hún saknaði einhvers. Hún horfði gegnum gluggann á fólkið ganga fram hjá húsinu og ímyndaði sér hvernig það sæji hana utanfrá. Rammaða inn í bláan glugga með kaffibollann í höndunum.
Hún hafði vaknað snemma um morguninn og farið í sund. Hún elskaði að synda og finna vatnið streyma um sig þegar hún tók sundtökin fimlega. Henni leið vel í vatninu. Þar var ekkert sem að vænti neins af henni. Ekkert sem krafði hana svara eða aðgerða. Bara hún og vatnið.
Tómið innra með henni stækkaði með hverjum deginum. Ef hún gerði ekkert var það ekki nóg og samviskubitið nagaði hana. Ef hún gerði eitthvað var það ekki nógu mikið. Ef hún gerði of mikið fannst henni það illa gert. Hún vissi ekki hvað hún átti að gera og flaut því bara áfram. Reyndi að rekast ekki á hindranirnar sem stóðu í vegi hennar. Hugsaði með sér að þetta myndi reddast á endanum.
Hún kláraði úr kaffibollanum og gekk með hann inn í eldhúsið. Íbúðin var pínulítil en hún var nógu stór fyrir hana. Hún þurfti ekki mikið. Stundum leið henni eins og hún væri mús í holu og stundum fannst henni hún vera í stórum helli. Hvað sem því leið var hún ánægð. En samt ekki. Hún reyndi að segja sjálfri sér að allt væri í lagi þegar það var það ekki. Sýnast vera með allt á hreinu þegar hún var það ekki. Setja upp grímu sem faldi holuna. Hún skolaði úr bollanum og lagði hann í uppþvottagrindina. Það tók því ekki að vaska hann upp, hún myndi hvort eð er nota hann aftur seinna. Hún settist í sófann með fartölvuna og sá spegilmynd sína í svörtum skjánum. Hvað var þetta á bringunni? Hafði hún sullað á sig kaffi? Hún reyndi að þurrka það af en kaldir fingurnir gripu í tómt. Hún stirnaði upp og þreifaði betur. Stökk svo upp úr sófanum og kíkti í spegil sem hékk á veggnum í anddyrinu. Kaldir fingurnir þreifuðu á bringunni sem reis og hneig með örum andardrætti hennar. Það var gat á bringunni. Á stærð við tíkall. Titrandi strauk hún yfir það og stakk fingrinum varlega inn. Það var engin fyrirstaða, bara kolsvart gat inn í bringuna. Hún vissi ekki hvað hún átti að gera. Kannski fara til læknis? Eða setja plástur á þetta? Hún hélt áfram að strjúka yfir gatið og var orðin rólegri yfir þessarri uppgötvun. Hún ákvað að fara í þykka peysu yfir hvíta skyrtuna og sjá til með þetta. Það myndi alla vega ekki lofta um gatið. Hún settist aftur í sófann. Í óðagotinu hafði hún staðið upp með tölvuna ennþá í fanginu þannig að hún datt í gólfið. Hún tók hana upp og sá að þvert yfir skjáinn var sprunga. Hún prófaði samt að kveikja á tölvunni og henni til mikils léttis virkaði hún ennþá. Hún gat alveg unnið í henni þó að sprungan væri á skjánum.
Gatið stækkaði hægt og rólega á bringunni næstu daga en hún tók ekki eftir því. Passaði sig bara að fara í þykka peysu yfir svo að ekki gustaði um það. Hún áréð að það væri ekki gott að fara í sund með svona gat á sér. Það gæti flætt inn um það. Samt saknaði hún þess að synda og finna fyrir vatninu. Sprungan á tölvuskjánum stækkaði líka hægt og rólega en hún aðlagaði sig að því og vann í kringum hana. Upptökin virtust vera á miðjum skjánum og litlar sprungur sigu hægt í allar áttir út frá því.
Alltaf fann hún samt fyrir því að hún væri búin að týna einhverju. Að það væri eitthvað sem hana vantaði. Eitthvað sem myndi kannski fylla holuna innra með henni. Þegar hún var að tannbursta sig nokkrum kvöldum seinna sá hún að spegillinn á baðherberginu var með sprungu sem hún hafði ekki tekið eftir áður. Örlítil sprungan var eins og hár á speglinum og hún reyndi að þurrka það af. Við það stækkaði sprungan og hljóp yfir þveran spegilinn. Henni brá við og horfði á spegilmyndina sína. Það vantaði á hana bringuna frá hálsi niður að geirvörtum og út á axlirnar. Í staðinn var botnlaust svarthol. Hún strauk yfir brúnirnar á gatinu. Kaldir fingurnir kölluðu fram gæsahúð sem strekkti á húðinni og gatið stækkaði ögn. Hún kláraði að tannbursta sig og fór svo upp í rúm. Vegna þess hversu lítil íbúðin var stóð rúmið hennar í stofunni við hliðina á sófanum. Götulýsingin fyrir utan varpaði appelsínugulri birtu inn um gluggann. Hún lá lengi andvaka og bylti sér. Enn var eitthvað að angra hana. Eitthvað að naga hana að innan. Eitthvað sem vantaði. Hún lagðist á bakið og horfði upp í loftið. Þetta var skrítið? Hún hafði ekki tekið eftir þessu áður. Í loftinu voru sprungur sem komu út frá loftljósinu sem hékk neðan úr því fyrir miðri stofunni. Sprungurnar liðuðust í allar áttir og sumar náðu að veggjunum. Hana verkjaði allt í einu í bringuna og ætlaði að nudda hana. En höndin greip í tómt og sökk inn í holuna upp að olnboga. Hún kippti henni út. Fingur hennar urðu svartir og hún sá þá molna í sundur. Duftið sáldraðist yfir sængina hennar og hún dustaði það niður á gólf með heilu hendinni.
Hún var hætt að geta notað tölvuna. Skjárinn var orðinn mölbrotinn og hún sá ekki lengur hvað hún var að gera. Spegillinn á baðinu hafði líka brotnað og hrunið niður af veggnum ofan í vaskinn. Henni fannst það reyndar fínt. Þá þurfti hún ekki að horfa á svartholið sem blasti við henni. Hún var líka búin að venjast því að nota bara aðra hendina. Stúfurinn á hinni hendinni var svartur á endanum eins og brunnin spýta. Það var allt í lagi. En samt ekki.
Hún ákvað að fara í sund því hún þráði að vera í vatninu. Hún fór í apótek og keypti stærsta sáraplástur sem afgreiðslukonan gat fundið. Hún vandaði sig við að líma hann yfir bringuna þannig að vatnið myndi ekki komast þangað inn á meðan hún synti. Hún hlakkaði til að finna vatnið á húðinni. Hægt og rólega dýfði hún sér ofan í heitt vatnið og passaði að plásturinn væri á sínum stað. Henni leið vel. En samt ekki. Hún ákvað að synda nokkrar ferðir til að finna vatnið streyma almennilega um sig. Spyrnti sér frá bakkanum og fann hvernig henni leið strax svolítið betur. Hún gleymdi gatinu. Gleymdi holunni. Gleymdi sprungunni. Bara hún og vatnið. En sundtökin urðu sífellt þyngri. Það var eitthvað sem að íþyngdi henni með hverri spyrnunni. Hún reyndi að ná andanum til að kalla á hjálp en sökk dýpra og dýpra.
Plásturinn hafði losnað og vatnið streymdi inn í bringuna. Hún sökk til botns. Hún hefði drukknað ef sundlaugarvörðurinn hefði ekki stungið sér til sunds og dregið hana með erfiðleikum upp úr lauginni. Hann ýtti henni upp á bakkann með aðstoð sundlaugagesta sem höfðu þust að. Hún gat andað en lá samt eins og negld við bakkann. Einn sundlaugargestanna, eldri maður með silfurgrátt hár, benti á að ef til vill þyrfti að velta henni á hliðina til að losa vatnið úr bringunni. Sundlaugarvörðurinn sá glitta í svartholið undan flaksandi plástrinum og hún fann að hún skammaðist sín. Hann tók plásturinn af bringunni og allir hjálpuðust við að velta henni á hliðina. Vatnið fossaði út um holuna og hún tók andköf þegar hjarta hennar flaut út með vatninu. Kona á miðjum aldri rétti út hendina og greip hjartað um leið og það flaut hjá. Þau sáu hvernig rauk upp af því í köldu loftinu. Konan rétti henni hjartað. Hún tók við því með köldu fingrunum. Það var hlýtt. Alveg eins og afi hennar hafði sagt.
Hún þakkaði öllum fyrir aðstoðina og gekk með hjartað í sundlaugarklefann. Hún klæddi sig og fór heim. Hún vissi ekki alveg hvað hún ætti að gera við hjartað þannig að hún vafði það inn í rakt handklæðið til að halda því heitu. Þegar hún kom heim sá hún að loftið hafði hrunið niður í stofuna hennar. Steypumolarnir og grænt bárujárnið lágu út um allt og gat var upp í bláan himininn. Hún ruddi brakinu af rúminu sínu, náði í handklæðið með hjartanu og lagðist með það í rúmið. Hún lá á bakinu og horfði upp í bláan himinninn. Hann var svo tær. Svo blár. Hún tók upp hjartað með köldu fingrunum og hélt því uppi. Studdi við það með svarta stúfinum. Það bar við himininn.
Og þá var eins og hún skildi. Hún skildi allt. Hún vissi hvað hún þyrfti að gera. Hún fékk tár í augun þannig að allt varð óskýrt. Hjartað og himininn blönduðust saman. Hún hélt hjartanu beint yfir svartholinu og lét það falla ofaní það. Hún fann léttinn streyma um sig þegar svartholið gleypti hjartað. Hún horfði á svarta stúfinn í gegnum tárin og sá hendina myndast aftur, með kalda fingur eins og hún hefur alltaf verið með. Hún fann gatið í bringunni skreppa saman og lokast. Tárin streymdu niður á koddann hennar. Hún skildi.
Niður í gegnum gatið á græna bárujárnsþakinu sást hún liggja í rúminu. Milli rauðu og stálgráu þakanna. Undir tærbláum himninum þar sem sólin þíddi burt veturinn. Það örlaði á vorinu.
Núna var allt í lagi. En samt ekki. En samt, alveg nóg.