Lögreglan, kynbundið ofbeldi og rétturinn til að mótmæla
Í þessum pistli verður spurningum um hvernig róttæk femínísk barátta tengist réttinum til að mótmæla og niðurrifi lögregluvalds. Litið verður til yfirstandandi atburða í Bretlandi þar sem aðgerðarsinnar hafa haldið fjölda öflugra mótmæla og tekið þátt í beinum aðgerðum til að koma í veg fyrir að nýtt lagafrumvarp, sem mun auka valdheimildir lögreglunnar til muna, verði samþykkt af þinginu. Þessir atburðir í Bretlandi eru í takti við það sem er að gerast víða í Evrópu og stendur Ísland ekki fyrir utan sviga þegar kemur að því að takmarka frelsi og rétt fólks til að mótmæla. Í þessum skrifum verður skoðað hvernig íslenska lögreglan og dómstólar beita 19. grein lögreglulaga til að kæfa niður mótmæli, en einnig verður dregið fram hvernig kerfisbundið kynbundið ofbeldi lögreglunnar er hliðstætt því sem á sér stað í Bretlandi og víðar.
Lagafrumvarpið, sem er kallað „The Police, Crime, Sentencing and Courts Bill“ og er 307 blaðsíðna langt plagg, felur í sér alvarlega skerðingu á réttinum til að mótmæla og gefur lögreglunni valdheimildir langt umfram það sem áður hefur verið. Lagafrumvarpið snýr að fjölda þátta í löggæslu- og dómskerfi Englands og Wales. Frumvarpið mun meðal annars gera lögreglunni kleift að sekta og handtaka einstaklinga sem búa í húsbílum ef þau geta ekki sýnt fram á skráð lögheimili á einum föstum stað, lög sem bitna einstaklega illa á samfélögum Rómana (e. Roma), Sígauna (e. Gypsy) og vegbúa (e. traveller). Frumvarpið hefur einnig mjög afdrifamiklar afleiðingar varðandi réttinn til að mótmæla. Verði það samþykkt mun lögreglan hafa heimild til að ákveða hvernig, hvar og hvenær er leyfilegt að mótmæla stofnanabundnu, kerfislægu ofbeldi. Lögreglan mun sömuleiðis geta ákveðið að binda enda á mótmæli ef þau eru „of hávær“ eða „pirrandi“ (e. annoying) og byggist slíkt eingöngu á huglægu mati lögreglunnar þar sem ekki eru gefnar neinar leiðbeiningar um hvað telst „of hávært“ fyrir mótmæli. Lögreglunni verður líka gert kleift að handtaka mótmælendur fyrir að fara ekki eftir reglum sem hafa ekki verið tilkynntar þeim, þ.e.a.s. lögreglan þarf ekki að beina skipun að einstaklingi áður en ráðist er í handtöku heldur má handtaka umsvifalaust og án fyrirvara.
Rökin eru þau að einstaklingar sem taka þátt í mótmælum eiga að vita að ákveðnir gjörningar séu ólöglegir.
Breið samstaða hefur myndast á meðal ýmissa hópa í bæði Englandi og Wales í baráttunni gegn frumvarpinu, en róttækar femínískar hreyfingar, til að mynda Sisters Uncut, hafa spilað lykilhlutverk í þeirri baráttu. Femínísk samtök hafa verið dugleg við að svara þeim vel þekkta en afburða lélega fyrirslætti ríkisins um að aukin eftirlitsvæðing og löggæsla „auki öryggi kvenna“. Þau hafa meðal annars bent á að konum stafar hætta af lögreglunni og að aukin völd lögreglunnar sé ekki það sem þarf til að binda endi á kynbundið ofbeldi. Í yfirlýsingu sem hópurinn Sisters Uncut sendi frá sér eftir að tafir urðu á afgreiðslu frumvarpsins vegna mótmælanna tala þær um hvernig „auknar valdheimildir lögreglunnar, líkt og þær sem lagðar eru fram í Lögreglu-, glæpa-, dóma- og réttarlagafrumvarpinu, muni leiða til aukningar í handtökum þolenda ofbeldis, sérstaklega þegar kemur að svörtum og brúnum þolendum sem og fátækari þolendum. Frumvarpið mun gefa lögreglunni meiri völd til að leita rafrænt (e. digitally stripsearch) á þolendum kynbundins ofbeldis sem leita til lögreglu þvert á vilja þolendanna.“
Önnur ástæða þess að femínistar hafa leitt baráttuna í Bretlandi að svo miklu leyti er að umræðan er nátengd morðum á konum og kynbundnu lögregluofbeldi. Á sama tíma og frumvarpið er til umfjöllunar í þinginu fannst hin 33 ára Sarah Everard myrt í London, en fljótlega kom í ljós að það var lögreglumaður sem hafði brottnumiði hana, nauðgað og myrt. Morðið á Söru Everard hefur kynt undir réttmætri reiði og baráttu þeirra femínista sem mótmæla nýja frumvarpinu, sem felur einnig í sér heimild fyrir lögregluna að vera við störf óeinkennisklædd á börum og klúbbum undir því yfirskini að „vernda konur“.
Sarah Everard er ekki einsdæmi, en nýleg gögn sýna að á milli 2012 til 2018 voru um 600 mál sem vörðuðu kynferðislegt ofbeldi af hálfu lögreglunnar í London tilkynnt, en aðeins 119 þeirra enduðu með ákæru.
Reikna má með að þessar tölur séu einungis toppurinn á ísjakanum, enda er allsháttar ólíklegt að einstaklingar sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu lögreglunnar treysti sér til þess að tilkynna það til samstarfsmanna gerandans. Einnig er ekki ólíklegt að fólk sem verður fyrir kynferðisofbeldi af hálfu lögreglunnar sé fólk sem hafi áður lent í mismunun eða annarskonar ofbeldi af hálfu lögreglunnar. Í sama mánuði og Sarah Everard var myrt gerði ríkið enn aðra aðför að konum þegar þingið samþykkti frumvarp um leynilögreglur „Covert Human Intelligence Sources (Criminal Conduct) Act“ sem heimilar lögreglumönnum að blekkja konur í að eiga í kynferðislegu sambandi við þá án þess að þær viti að þeir séu lögreglumenn, framferði sem flokkast sem nauðgun.
Í þessu samhengi má einnig nefna nýlega reglugerð („Reglugerð um breytingu á reglugerð um sérstakar aðferðir og aðgerðir lögreglu við rannsókn sakamála, nr. 516/2011“) sem Áslaug Arna dómsmálaráðherra lagði fram og var samþykkt þann 17. maí 2021. Með reglugerðinni þurfa „lögregluyfirvöld á Íslandi ekki lengur rökstuddan grun um að verið sé að fremja alvarlegt lögbrot til þess að beita sérstökum rannsóknaraðferðum á borð við tálbeitur, dulargervi, flugumenn, uppljóstrara og stöðuga eftirför með grunuðum án þeirra vitundar.“ Nú nægir að lögreglan hafi einungis „grun“ um lögbrot, sem gefur lögreglunni mun meira svigrúm til að ráðast í aðgerðir en ella þar sem ekki þarf að rökstyðja hvers vegna lögregluna grunar viðkomandi um lögbrot. Lítil sem engin umræða átti sér stað í samfélaginu um þessa nýju reglugerð ráðherra og var fyrsta fréttin um reglugerðina birt rúmum tveimur vikum eftir að reglugerðin var samþykkt. Þetta kallast óneitanlega á við þá hugmyndafræði sem liggur að baki lögreglulagafrumvarpinu í Bretlandi sem feministar berjast nú svo ötullega gegn.
Vissulega er munur á milli lögregluyfirvalda í mismunandi löndum þegar kemur að magni og alvarleika lögregluofbeldis. Það breytir því þó ekki að ákveðin þemu virðast fylgja lögregluembættum um allan heim. Til að mynda hefur lögreglan á Íslandi einnig verið sökuð um og gerst sek um kynferðislegt ofbeldi. Má þá helst nefna mál rannsóknarlögreglumannsins Aðalbergs Sveinssonar, sem þrjár stúlkur kærðu fyrir að hafa brotið á þeim kynferðislega þegar þær voru allar undir lögaldri og þegar lögreglan á Selfossi þvingaði þvaglegg í konu sem neitaði að gefa þvagsýni. Þá er einnig hægt að setja morðið á Heklu Lind í samhengi við kvennamorð lögreglu annars staðar í heiminum, líkt og nýlegt morð í Mexíkó þar sem fjórir lögreglumenn ollu dauða Victoriu Salazar með því að krjúpa á hálsi hennar með þeim afleiðingum að hún hálsbrotnaði. Einnig er vert að minnast LÖKE-málsins svo kallaða þar sem Gunnar Scheving Thorsteinsson lögreglumaður var kærður fyrir að skoða upplýsingar um yfir 40 konur í LÖKE kerfi lögreglunnar og deila því með óviðkomandi aðilum, án þess að það tengdist á nokkurn hátt starfi hans. Var hann sýknaður í málinu vegna vankanta í aðferðum á öflun sönnunargagna í málinu.
Þessi dæmi eru einungis dæmi um „beint“ ofbeldi lögreglu í garð kvenna og er þá ónefnt það kerfislæga, kynbundna ofbeldi sem konur hér á landi hafa orðið fyrir af hálfu lögreglunnar og réttarkerfisins í fjölda ára. Slíkt ofbeldi birtist helst í formi niðurfellingar kynferðisbrotamála, sýknunar gerenda og alvarlegum vanköntum í verklagi og rannsóknarferli lögreglu þegar kemur að kynbundnu ofbeldi, líkt og sést í máli Maríu Árnadóttur, sem er ein af níu konum sem hafa nýlega kært íslenska ríkið til Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE). María lýsir því hvernig lögreglunni láðist að kynna sakborningi sakarefnin, sem voru tvær alvarlegar líkamsárásir ásamt hótunum, með þeim afleiðingum að málin fyrntust.
Auk þess kom í ljós að lögreglan rannsakaði málið varla: lögreglan sótti engin áverkavottorð, né aðrar staðfestingar og lét málið niður falla þrátt fyrir mikil sönnunargögn frá Maríu, m.a. játningu frá geranda málsins.
Svipað var á könnunni í máli Sæborgar Ninju Urðardóttur sem kærði dyravörð á Hverfisbarnum fyrir mismunun eftir að hann neitaði að hleypa henni inn á staðinn, miskynjaði hana ítrekað og niðurlægði hana fyrir framan fjölda fólks. Málið var lagt niður eftir að hafa verið í tvö ár í „rannsókn“ hjá lögreglu. Sæborg hefur kært niðurfellinguna, enda kom í ljós að ýmsir misbrestir voru í rannsókn lögreglunnar, t.d. var ekki haft samband við nein vitni af vitnalista Sæborgar við rannsókn málsins.
Nara Walker er önnur af fyrrnefndum níu kvenna hópi sem kært hefur íslenska ríkið til MDE, en hún var dæmd í 18 mánaða fangelsisvist eftir að hafa beitt sjálfsvörn gegn heimilisofbeldi. Nara hefur lýst framgöngu lögreglunnar í kjölfar árásarinnar og handtöku hennar sem annarri árás, bæði líkamlegri og andlegri, og færir rök fyrir því að henni hafi verið mismunað bæði sem konu og sem einstaklingi af erlendum uppruna.
Líkt og segir í grein Fréttablaðsins um þær níu konur, sem hafa nú kært íslenska ríkið, eiga þær það allar sameiginlegt að vera „á bilinu 17 til 42 ára þegar þær kærðu brot á borð við nauðgun, heimilisofbeldi og kynferðislega áreitni. Flestar kærurnar voru lagðar fram hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og eiga málin það öll sameiginlegt að hafa verið felld niður af ákæruvaldinu.“
Eins má nefna að þegar ungar konur, kvár og menn stigu fram og töluðu opinskátt um kynlífsvinnu, þá sérstaklega vinnu sína á Onlyfans, var lögreglan ekki lengi að bregðast við með því að lýsa því yfir að mögulega væri um ólöglegt athæfi að ræða.
Einnig tilkynnti lögreglan að ef það yrði ákveðið að birting á eigin myndefni á Onlyfans varðaði við hegningarlög yrðu allar tekjur, sem fólk hefði aflað sér í gegnum miðilinn, gerðar upptækar. Þá skipti litlu máli hvort einstaklingar ynnu starfið á sínum eigin forsendum og af fúsum og frjálsum vilja. Seint munu konur fá leyfi til að haga sínu eigin lífi á þann hátt sem þær kjósa.
Fyrr á þessu ári birti Fréttablaðið langt viðtal við nýkjörinn formann lögreglusambands Íslands, Fjölni Sæmundsson. Í því er margt furðulegt og mikill matur til greiningar, en hér verður einungis staldrað við þegar Fjölnir gerir tilraun til þess að stilla fjölgun og eflingu lögreglunnar upp sem spurningu um aukin mannréttindi fólks á Íslandi, þá sér í lagi þolenda kynferðisofbeldis. Hann segir „það getur tekið marga mánuði að rannsaka nauðgun. Ekki út af slóðaskap heldur af því að það vantar mannskap. Með undirmönnun í lögreglunni er því verið að brjóta á réttindum borgaranna.“ Það er bæði einfeldningslegt og villandi að kenna undirmönnun lögreglunnar um það að rannsóknir á kynbundnum ofbeldismálum tefjist og séu látin niður falla, þegar það er ljóst af fyrrnefndum dæmum sem og tölum um nauðgunarmál að um er að ræða kerfisbundna vanrækslu lögreglunnar og ákæruvaldsins á slíkum málum.
Þá er tilvalið að víkja í augnablik að 19. greinarmálunum svokölluðu, þar sem 7 aðgerðarsinnar hafa verið ákærð fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglu um að hætta mótmælum. Mál þeirra virðast tekin af mikilli alvöru, litla sönnunarbyrði þarf til að ákveða ákæru og lögreglumenn flykkjast í hópum í dómsal til að bera vitni mál eftir mál, en til að mynda kallaði ákæruvaldið 16 lögreglumenn í dómsal til að bera vitni um meinta óhlýðni eins aðgerðarsinnans. Líkt og öll vita sem hafa tekið þátt í mótmælum sem yfirvöldum og lögreglunni eru í nöp við er aldrei skortur á lögreglumönnum þegar kemur að því að hafa eftirlit með mótmælum.
Auðvitað kemur ekkert af þessu á óvart, enda ber lögreglan ekkert skynbragð á eigin fordóma, sem sést glögglega í öðru viðtali við Fjölni þegar hann heldur því fram að það séu „sennilega engir fordómalausari en lögreglumenn“ og tekur sem dæmi að lögreglan verði að koma fram við gerendur í morð- og nauðgunarmálum á sama hátt og aðra, atriði sem hefur fátt að gera með kerfisbundna fordóma. Það virðist sem svo að forgangsröðun lögreglunnar stjórnist af eðli starfsins, sem er fyrst og fremst að verja ríkisvaldið og passa að enginn ruggi bátnum óþægilega mikið.
Þessu starfi sinna þeir með því að hóta líkamlegri valdbeitingu sé þeim ekki hlýtt, en á slíkri hótun byggist einmitt lögregluvaldið: Hlýddu eða ég má beita þig ofbeldi.
Sé litið til sögulegs samhengis og uppruna lögreglunnar sést glögglega að það að standa vörð um konur og aðra jaðarsetta hópa samfélagsins var aldrei hluti af verkefninu. Þvert á móti hefur þeirra helsta hlutverk verið að halda aftur af baráttu þeirra jaðarsettu hópa sem brotið er á í þágu valdsins, baráttu kvenna gegn kynbundnu ofbeldi þar með talið. Það er því kannski ekki svo langsótt eftir allt saman að segja að lögregluofbeldi, kynferðisofbeldi, alræðisvald ríkisins og feðraveldið séu allt mismunandi hliðar á sama teningnum.
Baráttan í Bretlandi, sem gengur undir myllumerkinu #KillTheBill, heldur ótrauð áfram og vonandi verður hún innblástur fyrir femínista á Íslandi að eiga alvarlegar samræður sín á milli um hlutverk, rætur og ofbeldi lögreglunnar hérlendis. Eitt róttækasta og mest spennandi verkefni femínískra hreyfinga, og í raun allra hreyfinga sem vilja annaðhvort uppræta ofbeldismenningu eða/og vernda hreyfingar sínar fyrir ákærum ríkisvaldsins, er að finna leiðir til þess að skapa okkar eigið öryggi, laus við yfirlætisfulla „vernd“ lögreglunnar.