Samfélagið kringum Vía

29. maí 2020

Höfundur:
Elinóra Guðmundsdóttir
@Elinoragud
@elinoragudmunds
   

Þegar við fögnuðum fimmtu útgáfu og rúmu ári af starfsemi flutti ég ræðu á útgáfuhófinu. Hún var einhvern veginn svona:

Ég velti stundum fyrir mér afhverju Vía varð til. Það sem meira er, afhverju hún hélt áfram að vera til og hvaða það veldur því að ég og allir sem taka þátt í sköpun þessa rýmis hafa gefið vinnuna sína nú í nærri 2 ár. 

Þegar Vía var stofnað hafði ég margar háleitar hugmyndir. Mig langaði fyrst og fremst að framleiða femínískt efni og vinna þannig að meira jafnrétti í fjölmiðlaflóru Íslands. Skapa vettvang fyrir ólíka samfélagshópa, öruggt rými fyrir einlægni og fyrir fyrstu skref, og samfélag sem deildi þessum femíníska hugsunarhætti og markmiðum.

Þetta allt gerði ég auðvitað ekki. Þetta sköpuðum við öll saman og erum enn að. 

Vía, þar sem hugrekki, einlægni, auðmýkt og metnaður drýpur af hverjum staf og pennastriki. Konsept sem erfitt er að ná utanum í einum frasa eða slagorði. Vía er flókin stærð eins og samfélagið sjálft, og þannig viljum við vera. Þar sem sögur, skoðanir og upplifanir eru sagðar af okkur, konum og hópum samfélagsins sem minna rými fá í fjölmiðlum. Þar sem dagskrárvaldið er okkar. 

Í mínum huga skiptir þetta rými öllu máli. Sérstaklega fyrir þá ástæðu að það er ekki hægt að breyta ríkjandi menningu nema leggja eitthvað nýtt til. Breyta reglunum og samtímis hugmyndinni um hvað er verðmætt, hvað er velgengni. Verðmætið í hverjum einstakling og hverri stund sem lögð eru í verkefni af þessu tagi eru það verðmætasta sem til er fyrir sköpun jafnréttis í menningu okkar. 

—————-

Ég hef margsinnis verið spurð hvernig Vía afli tekna, hver næstu skref séu. Hvað er planið? 

Satt best að segja er framtíðin óráðin, Vía er til á meðan það er til fólk sem vill skrifa og skapa. Á meðan það er fólk sem vill lesa. Ég hef ótal sinnum spurt mig hinnar hjartakremjandi, og óþolandi spurningar „hvað myndi ég gera ef ég væri maður?“ Ég, með sárt egó fer í vörn og spyr sjálfa mig í huganum, „má ekki bara taka hægar vel ígrundaðar ákvarðanir? Má ekki hafa líka bara gaman? Þarf alltaf að sigra heiminn á einni nóttu?“ Tíminn mun leiða það í ljós. Mér þykir persónulega komið gott af því að mæla hagnað og velgengni í ársfjórðungum, reyndar finnst mér við eiga að mæla allt í 100 árum. En þannig virkar þetta víst ekki. 

Þar sem ég bý, í úthverfi í Kaupmannahafnar, er mikið um einyrkja og lítil fyrirtæki. Þau hafa mörg hver límmiða í glugganum þar sem stendur „ef þú vilt að við séum til á morgun, styrktu okkur í dag“. Sem er kannski bara allt sem segja þarf.

Undirrituð er stofnandi og ritstjóri Vía






— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **

Lesa meira um...
Mest lesin
Kynferðislegt ofbeldi: Tilveruréttur minn

Nýjast á Vía
Afmælisrit Vía

Flæði: