Kona er nefnd: fræðandi hlaðvarp um konur og kynsegin
Kona er nefnd er hlaðvarpsþáttur um konur og kynsegin sem nú verður aðgengilegur á Flóru. Þáttastjórnendur og hugmyndasmiðir hlaðvarpsins eru þær Tinna Haraldsdóttir og Silja Björk Björnsdóttir, þar sem þær fræða hlustendur sína á áhugaverðan hátt um mikilvægar konur og kynsegin frá nýjum vinklum. Ég ræddi við þær um hugmyndina bakvið hlaðvarpið, fræddist um þær sjálfar og hvaða áherslur og markmið þær hafa með Kona er nefnd. Hægt er að hlusta á hlaðvarpið þeirra hér.
Getið þið sagt mér örlítið frá ykkur sjálfum, hvaðan þið eruð, hvaða bakgrunn þið hafið og hvar leiðir ykkar lágu saman?
Tinna: Ég er 30 ára menntaður ferðamálafræðingur uppalin á Akureyri. Frá því ég man eftir mér hef ég haft áhuga á leiklist og skrifum, í raun allri tjáningu og samskiptum. Ég held að það sé líka ein ástæðan fyrir því að þegar leiklistardraumurinn fór að fljúga aðeins í burtu datt ég inn í ferðamálaheiminn, því ég hef gaman af því að ferðast, kynnast nýju fólki og heyra þeirra sögur.
Silja Björk: Ég er 28 ára og var að útskrifast með BA í kvikmyndafræði núna í haust og er sjálfstætt starfandi rithöfundur. Ég gaf út mína fyrstu bók Vatnið, gríman og geltið í sumar og er að leggja lokahönd á nýja bók sem kemur út í janúar. Ég er fædd og uppalin á Akureyri og eins mikið og ég elska Reykjavík þá verður Akureyri alltaf minn heimabær! Ég segi eins og Tinna, við vorum smá svona „match made in heaven” því ég elska líka leiklist, tjáningu og samskipti. Við fórum einmitt saman í prufur fyrir LHÍ á sínum tíma og þó það hafi ekki ræst úr því þá fundum við okkur alltaf einhver önnur verkefni til þess að beina þessari skapandi orku!
Tinna: Við kynntumst svo í leiklistarhóp sumarið 2009, Skapandi Sumarstörf hjá Akureyrarbæ undir handleiðslu Péturs Ármannssonar, leikara. Það var ævintýralegt sumar og við munum báðar vel eftir rúntinum sem var örugglega svona augnablikið þar sem við vissum báðar að það var ekki aftur snúið. Við vorum að keyra niður Borgarbrautina á Akureyri um miðja nótt að tala um hvað við höfðum elskað að gera sem krakkar, og á einum tímapunkti stoppaði Silja bílinn með tárin í augunum og við vorum báðar með þvílíka gæsahúð því við bara tengdum svo ótrúlega mikið við hvora aðra.
Silja Björk: Já, þetta var eiginlega smá fyndið vegna þess að við þekktumst ekkert og höfðum aldrei sést þrátt fyrir að hafa alist upp í sama bænum. Ég man nákvæmlega í hvaða fötum Tinna var þegar ég sá hana fyrst í Skapandi sumarstörfum! Ég hugsaði bara: Jesús, hvaða týpa er þetta? Svo enduðum við eiginlega óvart á þessum rúnti, sem breytti lífi okkar beggja til hins betra. Tinna er hinn helmingurinn af mér og ég gæti ekki ímyndað mér lífið án hennar.
Hvaðan kom hugmyndin að hlaðvarpinu ykkar? Og hvernig var ferlið frá sjálfri hugmyndinni til framleiðslu hlaðvarpsins?
Tinna: Vorið 2019 sat ég í kynjafræðitíma í HÍ og þar var mikið talað um Simone de Beauvoir og þýðingu verka hennar fyrir kynjafræði og femíníska baráttu. Og ég áttaði mig á því að ég vissi ekkert hver hún var. Ég hafði ekki fengið mikla femíníska fræðslu áður í rauninni, bara svona hér og þar á netinu í eigin grúski. Þá kviknaði þessi hugmynd, hvað ef ég myndi læra um hver Simone, eða einhver önnur, væri og segja frá því á hlaðvarpsformi. Ég hlustaði mikið á My Favorite Murder og kann vel við þá uppsetningu á hlaðvörpum, þessa ein segir sögu af einhverju sem hin veit ekki endilega alveg hver eða hvað er.
Silja Björk: Já, Tinna fór að tala um þetta við mig – hvernig það væri fáránlegt að konur gleymast í sögunni á sama tíma og við höfum lært um sjö þúsund hvíta karla með skegg. Við erum báðar mjög miklir femínistar og höfum líka bara áhuga á að læra, vita meira og fræða annað fólk. Ég held að við höfum bara verið heima hjá mér uppi í sófa að spjalla um þetta og önnur hvor okkar sagði „Ómægad við veeerðum að vera með hlaðvarp!” svona smá í gríni en svona viku seinna var ég í Elko og keypti hljóðnema án þess að spyrja Tinnu! Sendi henni svo sms bara „Hæ við erum að fara að byrja með hlaðvarp ókei bæ!”
Tinna: Silja Björk sér um upptökur og klipp, bróðir minn Hörður Tryggvi gerði stefið og ég sé um að koma þessu á vefinn. Silja Björk sér líka um Instagram síðuna okkar og ég Twitter-ið, nota okkar styrki.
Silja Björk: Já, ég ver instagrammið með kjafti og klóm og leyfi Tinnu alfarið að sjá um Twitter!
Og svo að sjálfu innihaldsefninu, hvernig mynduð þið lýsa innihaldi hlaðvarpsins?
Tinna: Sögur kvenna og kynsegin fólks sem týnast í sögunni. Jafnvel þó við séum oft að fjalla um mjög frægar konur, þá eru margar sögur og hliðar á þeirra lífi oft ósagðar. Það vita flest hver Monica Lewinsky er, en vitum við í raun hver hún er, hvað hún hefur gert og hvað hún er að gera í dag?
Silja Björk: Við veljum konur eða kynsegin sem við viljum vita meira um og fylgjendur okkar hafa líka sent okkur allskonar áhugaverðar uppástungur. Í þætti tvö í fyrstu seríu fjallaði ég t.d. um Roxane Gay sem ég hafði aldrei heyrt um áður en fyrir ungan og upprennandi rithöfund eins og mig var mjög gaman að kynnast henni og hún er orðin mín uppáhalds núna. Við viljum hafa þetta fræðandi, skemmtilegt og einmitt eins og Tinna segir, taka nýja vinkla á konur sem eru ofurfrægar eins og Marilyn Monroe, Hilary Clinton eða Monicu Lewinsky. Sögur þessara, og flestra kvenna, hafa verið sagðar í gegnum síur feðraveldisins en þessar konur eru svo miklu meira en kynbombur, eiginkonur eiginmanna sinna eða druslur.
Oftast veljum við tvær konur til þess að fjalla um út frá ákveðnu þema – íþróttir, Hollywood, líkamsvirðing eða eitthvað annað og kynnum okkur konurnar í sitthvoru lagi, skrifum handritin í sitthvoru lagi og hittumst svo og tökum upp saman. Þannig eru viðbrögðin okkar við sögu hinnar alveg í þráðbeinni og það gerir það skemmtilegra því sumar sögurnar eru svo fyndnar og skemmtilegar, stundum líka mjög erfiðar.
Hvernig veljið þið konur og kynsegin til að fjalla um? Er það t.d. Út frá ákveðnum tíðaranda innan samfélagsins þá stundina, sem ákvarðar valið hverju sinni? Eða er það meira handahófskennt?
Tinna: Það eru alltaf ákveðin þemu þó að konurnar innan þemans geti verið verulega ólíkar. Við erum til dæmis að velja út frá störfum eins og rithöfunda eða íþróttakonur, eða einhver sem þær eiga sameiginlegt eins og hinseginleika, svipuð baráttumál í aktívisma og þess háttar. Það er að vissu leyti handahófskennt en við erum líka mjög flæðandi og lögum okkur að því sem okkur finnst henta þar sem það á við. Til dæmis ákváðum við að hafa í það minnsta fyrri hluta, og mestan hluta, annarrar seríu um svartar konur og aðrar POC konur seinna meir eftir að Black Lives Matter hreyfingin sótti í sig veðrið í sumar í kjölfar morðsins á George Floyd og þeirrar umræðu og mótmæla sem spruttu upp út frá því. Í fyrstu seríu voru þættir ágústmánaðar til dæmis tileinkaðir hinsegin konum í tilefni Hinsegin Daga á Íslandi og við sjáum fram á að við höldum áfram með það þema, þó að við séum oft auðvitað að taka hinsegin fólk í þáttum utan ágústmánaðar.
Hvernig kom nafnið á þáttunum til sögunnar?
Tinna: Silja Björk kom með nafnið, ég hafði fyrst hugsað eitthvað svona “Konur um konur” en við þekkjum flest þættina “Maður er nefndur” sem voru á Rúv hérna um árið.
Silja Björk: Já, þetta var eiginlega ekki flóknara en það. Ég elska svona sniðugar kynjabeygingar og skírskotanir sem fólk getur tengt við og mér fannst þetta bara snilldar nafn á hlaðvarpið. Við þekkjum einmitt flest þessa þætti, Maður er nefndur sem sýndir voru á RÚV um aldamótin. Reyndar voru tekin viðtöl við konur í þeim þáttum en auðvitað fleiri karlar. Já, konur eru líka menn og allt það en mig langaði að hafa konur í titlinum því þó að við séum oft að tala um kynsegin fólk erum við alls ekki að tala um karlmenn. Það er búið að tala nóg um þá!
Hvernig er uppbygging ykkar á þáttaröðum, eruð þið með ákveðið markmið með fjölda umfjallana, viðtöl og live-atburði á hverja þáttaröð?
Tinna: Í raun er þetta ennþá voðalega frjálst, við fórum inn í þetta með eitt “concept” og svo þróaðist það bara einhvern veginn. Við tókum fyrsta viðtalið í 5. þætti í fyrstu seríu og höfum tekið eitt til viðbótar, það var rosalega skemmtilegt og við viljum klárlega gera meira af því, lyfta upp röddum íslenskra kvenna og heyra þeirra sögur beint frá þeim. Svo höfum við gert einn live þátt á Kynjaþingi 2019, sem var líka rosalega skemmtilegt og eitthvað sem við myndum klárlega vilja halda áfram að gera þegar aðstæður leyfa.
Silja Björk: Lífið er bara allt í flæði og við leyfum okkur að vera það líka. Auðvitað getur verið erfitt að skipuleggja svona mikla vinnu fyrir hlaðvarp í kringum rútínurnar okkar, ég á tveggja ára son og við höfum báðar verið í skóla og vinnu og með önnur verkefni en ég held að við reynum bara að segja alltaf já við öllu og sjá hvað gerist. Það var til dæmis algjör tilviljun að við fengum þetta live-gigg á Kynjaþinginu sem var mjög skemmtilegt engu að síður! Það hefur síðan reynst aðeins erfiðara að skipuleggja viðtöl í þessu faraldursástandi eins og staðan er núna, en það er klárlega í deiglunni að taka fleiri viðtöl í vetur.
Hafið þið ákveðin markmið með hlaðvarpinu sjálfu?
Tinna: Frá upphafi hefur markmiðið í kjarnann verið að fræða okkur sjálfar, og út frá því fræða vonandi önnur, þó að við séum ekki sérfræðingar í því sem við erum að gera eða um þær konur sem við fjöllum. Við viljum hafa þetta létt og skemmtilegt, en líka ræða þau álita- eða hitamál sem tengjast sögum kvennanna hverju sinni.
Silja Björk: Við notum hlaðvarpið einmitt til þess að fræða okkur sjálfa og önnur um sögur kvenna og kynsegin og ýmis baráttumál sem tengjast femínisma og hinseginleika. Við höfum líka komið inn á fleiri og erfiðari mál eins og líkamsvirðingu, menningarlegt arðrán, ofbeldi og þessar myrku hliðar sögunnar enda erum við ekki að fegra sögur þeirra kvenna sem við segjum frá. Þetta á að vera hrátt en gert af virðingu. Stundum hefur okkur orðið á í messunni og við mismælum okkur eða segjum eitthvað sem er kannski ekki alveg rétt og þá erum við yfirleitt leiðréttar af fylgjendum okkar, sem við tökum fagnandi. Við erum líka bara að læra! Við viljum líka fræðast og gera betur og hafa gagn og gaman af.
Hafið þið einhvern ákveðinn markhóp við huga við framleiðslu þáttanna?
Tinna: Í raun ekki kannski frá upphafi en hlustendahópurinn kemur svo sem ekki á óvart, konur á aldrinum 18-40 ára. Það væri óskandi að fleiri karlmenn myndu hlusta og fylgjast með.
Silja Björk: Markhópurinn er bara þau sem vilja læra meira um konur og kynsegin, málefni femínisma og baráttumál líðandi stunda. Þetta er líka gaman fyrir sögu-nörda og ég tek undir með Tinnu, þess væri óskandi ef fleiri karlmenn myndu hlusta og fylgjast með, því þessi skilaboð eru jafn mikilvæg fyrir þá og þau eru fyrir konurnar og kynsegin – ef ekki mikilvægari því öll þurfum við að aflæra innrætta kynjamismunun og feðraveldisdýrkun.
Hvernig hafa viðtökurnar við hlaðvarpinu verið?
Tinna: Frekar jákvæðar bara, en hlustendahópurinn er enn frekar smár þar sem við höfum ekki ráðist í mikla markaðssetningu hingað til og þetta hefur verið svona frekar frjálslegt.
Silja Björk: Ég held bókstaflega að eina neikvæða kommentið hafi komið frá mömmu en henni fannst við bæði blóta of mikið og sletta of mikið á ensku! Annars hafa viðtökurnar verið jákvæðar en ég segi eins og Tinna, við eigum lítinn en dyggan hlustendahóp og gaman væri að sjá hann stækka og breikka á næstu misserum.
Hafa áherslur ykkar breyst frá gerð fyrstu þáttanna?
Tinna: Í raun kannski ekki mikið en við erum að reyna að vera enn meðvitaðri um hvaða sögur við erum að segja, með tilliti til samtvinnunnar mismunabreyta (e. intersectionality) og okkar eigin forréttinda og hvernig þau blinda okkur.
Silja Björk: Ég held að áherslurnar eða formgerðin hafi lítið breyst þannig séð, við erum ennþá að vinna að sömu markmiðum og í byrjun en við viljum alltaf læra og gera betur. Sem dæmi þá stóð til að gera bæði þátt um Ellen Degeneres og hennar stórmerkilega þátt í baráttu bandarískra lesbía en eins og staðan er núna, yrði svolítið erfitt að fjalla um hana í jákvæðu ljósi. Það sama má segja um J.K. Rowling, en saga hennar er auðvitað merkileg og báðar elskum við Harry Potter en við getum með engu móti fjallað um konu sem brýtur svona mikið í bága við okkar lífsskoðanir, það er bara ekki séns. Þannig já, við erum meðvitaðar um hvað er að gerast í heiminum og við rannsökum sögur kvennanna sem við erum að segja, við tölum um það ef það er eitthvað sem er umdeilt eða skrítið, eins og í tilfelli Hillary Clinton eða Sheryl Sandberg en mergurinn málsins er að engin er fullkomin. Við erum ekki með einhverja gyðjudýrkun á þessum konum, það er hægt að segja frá sigrum og ósigrum á sama tíma.
Það besta við þetta hlaðvarp að mínu mati, er hversu ótrúlega mikið ég er búin að læra sjálf um mín eigin forréttindi. Bæði út frá hinseginleika, því þó ég sé tvíkynhneigð er ég í gagnkynja sambandi og hef sjaldan mætt aðkasti fyrir kynhneigð mína. Sama má segja um uppruna minn og húðlit, því að vera hvít millistéttarkona frá Skandinavíu er ekki erfitt en það er oft erfitt uppdráttar fyrir litaðar konur. Í gegnum þessar konur sem við höfum fjallað um hef ég lært um málefni sem voru mér alveg framandi og það finnst mér svo skemmtilegt og finnst skemmtilegt að áheyrendur okkar upplifi það með okkur. Öll höfum við gott af því að líta í eigin barm og reyna að gera betur næst.
Og hver eru framtíðaráform ykkar með þættina?
Tinna: Að halda áfram.
Silja Björk: Draumurinn væri að gera þetta að atvinnu og geta þá gefið okkur meiri tíma í framleiðsluna. Það væri frábært að taka fleiri viðtöl, stækka hlustendahópinn og vera með fleiri viðburði svona þegar faraldurinn leyfir. Við elskum báðar að sinna þessu litla gæluverkefni, en eins og ég segi, það getur stundum verið erfitt að forgangsraða gæluverkefnum þegar lífið er að þvælast fyrir mani. Ég sé fyrir mér skemmtilegan varning í framtíðinni, skemmtilega viðburði með hlustendum okkar og jafnvel pub quiz úr þáttunum eða spjallhópa, reyna að stækka umræðuna og gera þetta líflegt og skemmtilegt! Það væri líka gaman að fara með fyrirlestra í skóla eða hópa og ræða femínisma og birtingamyndir feðraveldisins. Hver veit nema við Tinna látum gamla leiklistardrauma og skrifum um þetta leikrit, það er aldrei að vita!
Þannig að við höldum ótrauðar áfram og segjum bara endilega subscribe, like og gefa okkur fimm stjörnur!
Takk fyrir að hlusta.