Hversdagslega upplifum við umhverfi okkar með fagurferðilegum hætti sem við alla jafna hugsum um undir öðrum formerkjum. Eins og þegar við göngum inn í rými sem er fullt af drasli. Þá getur átt sér stað afar sterk viðbrögð. Óreiðan er yfirþyrmandi og aðkallandi, jafnvel þrúgandi. Fagurfræðileg upplifun getur þannig átt sér stað í því augnabliki sem við stöldrum við og virðum algjört skipulagsleysið fyrir okkur. Hvort sem okkur klæjar í fingurna vegna þess að okkur langar svo að byrja að laga til eða viljum helst snúa baki við rýminu og aldrei líta þar inn framar.
Mikið af hversdeginum okkar í nútíma samfélagi er undirlagður slíkum viðbrögðum og gjörðum sem spretta upp frá þeim. Við lögum til í herberginu okkar, röðum bókum fallega og snyrtilega í hilluna og pössum hvar kertastjakarnir eru staðsettir á heimilinu. Að sama skapi er snyrtimennska og útlit líkama okkar og fata mikilvægur hluti af daglegri rútínu. Jafnvel væri hægt að færa rök fyrir því er fagurferðileg viðbrögð og gjörðir svo stór liður í lífi flestra að þær eru órofa hluti hversdagsins. Og það er í sjálfu sér ekki neikvætt né óeðlilegt. Í þessum pistli langar mig að skoða eða minna á það.
Hversdagsfagurfræði er það fræðasvið sem skoðar og rannsakar slíkar upplifanir. En fagurfræði er íslenska heitið á enska fræðasviðinu „aesthetics“. Aesthetics hefur þó breiðari skírskotun en íslenska heitið fagurfræði þar sem einnig er hægt að skoða það sem alla jafna er hægt að flokka sem ljótt. Orðið fegurð er samt sem áður hægt að teygja til þess að innihalda það sem veldur hughrifum innan skynjunarinnar. Þannig er hægt að eiga fagurferðilega upplifun af skítugu baðherbergi. Þó er togstreita um það hvort hægt sé að teygja orðið fagurfræði út fyrir list, yfir í það hversdagslega, en ég tel að það sé mikilvægt. Vegna þess að án þess er stór hluti hversdagslegra anna týndur í faglegri umræðu sem lítilsverður. Það að leggja fallega á borð, sauma út dúk og raða eigum sínum í röð og reglu er nefnilega ekki ekkert. Það er mikilvægur þáttur í hversdagslegu fagurferðilegu amstri okkar. Þar að auki er það hluti af femínískri endurskoðun fræðasviðsins að teygja það út fyrir listmiðaða umræðu og yfir í hversdag sem tilheyrir einna helst konum og kvennamenningu í sögulegu samhengi.
Hingað til hef ég notað orðin fagurferði og fagurfræði til skiptis án greiningar á milli þessara hugtaka en hægt er að hugsa um muninn á milli þeirra eins og muninn á milli siðfræði og siðferði, eins og kemur fram í bók Guðbjargar R. Jóhannesdóttur Vá!. Siðfræði er fræðasviðið sem tekst á við siðferðisleg kerfi og hvernig fólk kemst að siðferðislegum niðurstöðum á meðan siðferði eru meginreglur okkar um líferni, samskipti við annað fólk, dýr og gagnvart umhverfinu. Þannig getur verið siðferðilega rangt að ljúga einhverju upp á fólk. Siðfræðikenning hins vegar gæti hljómað með eftirfarandi hætti: einstaklingur á eingöngu að hegða sér með það í huga að hamingja allra sé hámörkuð.
Í Everyday Aesthetics eftir Yuriko Saito greinir hún hvernig fagurferðilegar hugleiðingar leiða oft hvað það er sem við kaupum og framkvæmum hversdagslega. Fagurferðileg gildi okkar og hegðanir út frá þeim gildum hafa þannig siðferðilegar afleiðingar. Það þýðir þó ekki að við þurfum að losa okkur við öll þau fagurferðilegu gildi sem virkar sem drifkraftur svo margra hversdagslegra gjörða og lífernis. Til að mynda eru siðferðislegar afleiðingar þess að laga til í herberginu sínu ekki bagalegar og getur jafnvel hvatt til aukinnar lífsgleði. Einnig væri hægt að lýsa því sem siðferðislegri dyggð að hugsa vel um eigur sínar. Erfitt er nefnilega að greina siðferðið og fagurferðið í sundur á vissum snertiflötum. Til að mynda er æskudýrkunin í samfélagi okkar stór þáttur í sölu ýmissa krema og fegrunaraðgerða. Í sjálfu sér er fegrunin sem slík ekki ámælisverð en æskudýrkunin er það vegna þess að það er einföld staðreynd að við öll eldumst og það er í sjálfu sér ekkert sem ber að ávíta fyrir.
Drifkraftur hegðunar okkar stafa þannig af fagurferðilegum gildum sem standa á misjafnlega traustum grunni. En að úthýsa fagurferðilegum hliðum hversdagsins getur reynst ómögulegt og er í mörgum tilfellum óeftirsóknarvert. Þar kemur mikilvægi hreyfinga sem takast á við undirliggjandi gildi og femínísk endurskoðun á grundvelli þeirra sterklega í ljós. Þar sem barist er gegn dýrkun einsleitrar líkamstýpu eða hvíts húðlitar. Slíkar hreyfingar myndast vegna baráttu við óraunhæf fagurferðileg gildi sem valda vanlíðan hjá einstaklingum og samfélögum. Auðvitað er langt í land þegar kemur að þessari baráttu en ég tel hana vera mikilvægan lið í átt að auðmjúkara fagurferðilegu samfélagi. Kostur þessarar hreyfingar er sá að hún ræðst að rót vandans sem er smekkur fólks. Reynt er að hafa áhrif á hvað fólki finnst fallegt og bent er á að fegurð sé allskonar og smekkur er ekki eitthvað sem við fæðumst með heldur myndast hann af síendurteknum skilaboðum um hvað sé eftirsóknarvert og fallegt.
Verkefnið að hafa áhrif á smekk fólks er þó óumdeilanlega erfitt. Ef við hugsum út frá okkur sjálfum þá tökum við eflaust eftir því að það sem okkur finnst ljótt, er bara ljótt og það er erfitt að rökræða við slíka tilfinningu eða hreina skynjun. Eins og dæmið hér á undan gaf til kynna er þó stundum hægt að takast á við grundvöll viðhorfsins og sýna að það standi ekki á algildum né haldbærum grunni. Þá er aukið við myndir í sjónræna samfélagi sem við búum í til að sýna fram á hversu afleidd þessi fagurferðilegu gildi séu og smekkur okkar breytist í kjölfarið. Önnur leið til að breyta smekk er með aukinni fræðslu og skilning á því sem við virðum fyrir okkur. Til að mynda getur fræðsla um lífríki í mýrum haft áhrif á það hvernig við sjáum þær og metum gildi þeirra. Mýrin glæðist lífi þegar við vitum að hún er einn helsti griðastaður fuglalífs á Íslandi og mikilvægur hluti vistkerfisins.
Einnig er vert að minnast á hversu stór drifkraftur fagurferðileg gildi virðast vera í skaðlegri neysluhyggju. Við þekkjum það eflaust öll að fá ógeð af fötunum okkar, slitnum húsgögnum og gömlu leirtaui. Þessi tilfinning þarf ekki nauðsynlega að vera af hinu illa. Hins vegar verður hún skaðleg þegar hún stjórnar lífi okkar á þann hátt að aldrei sé komist fram úr henni. Þetta er tilhneiging og hegðun sem neyslusamfélagið vissulega hvetur til. Fataskápurinn er aldrei eins og hann á að vera og heimilið aldrei fullbúið öllu því sem hugurinn gæti girnst. Alltaf er ráðrúm til að bæta, fegra, henda og endurnýja. Fegurðin í hversdeginum er samt alltaf einhvern veginn utan seilingar. Eins og þarf varla að minnast á þá hefur þetta afskaplega slæmar afleiðingar fyrir plánetuna okkar.
Þrátt fyrir að þetta sé vandamál sem virðist alfarið keyrt á fagurferðilegum gildum snýst vandamálið þó ekki alfarið um löngunina að hafa fallegt í kringum sig eða eiga flott föt. Þess vegna hvet ég ekki til þess viðhorfs að það sé eftirsóknarvert, eða mögulegt, að kæra sig kollótta um fagurferði yfir höfuð. Það að fegra er að vissu leyti mikilvægur og bráðnauðsynlegur hluti hversdagsins. Að leggja á borð af alúð fyrir jólin getur verið sterk fagurferðileg upplifun og það væri synd að gefa hana upp á bátinn eingöngu vegna þess að hún er ekki þess virði. Hins vegar megum við spyrja okkur á hvaða formerkjum við ráðumst í þær aðgerðir sem ráðumst í vegna þess að oft þegar við eltumst við að gera fínt geta verið allt önnur gildi eða markmið fyrir leiðarljósi en að hafa fínt.
Líkamspólitíkin gefur dæmi um að það eru til margar tegundir og gerðir fegurðar, að breyta er ekki endilega lausn. Við getum tekist á við þær óraunhæfu kröfur sem smekkur okkar og tískubylgjur setja á okkur. Heimili eru allskonar og við eigum öll mismunandi dót og föt. Að gefa sér rými til að virða fyrir sér eigur sínar getur vakið með okkur sjálfum meiri auðmýkt gagnvart þeim. Nýtt er ekki endilega fallegra heldur bara nýtt. Stundum þá vantar nýtt og það er engin skömm yfir því. Við erum allskonar og höfum mismunandi smekk, langanir og tekjur til ráðstafana. Ef þér þykir gamall fótboltagalli síðan í grunnskóla flottur, notaðu hann.