Er brjóstamjólk vegan

15. maí 2019

Höfundur:
Eydís Blöndal
   

Er brjóstamjólk vegan?

Ekki vera svona.

Hvað meinaru?

Týpan sem er alltaf að reyna að véfengja veganisma

Er ég að gera það?

Er það ekki?

Ég veit það ekki, hef bara verið að velta þessu fyrir mér.

Auðvitað er brjóstamjólk vegan, konurnar sem gefa á brjóst gera það af fúsum og frjálsum vilja.

Er það?

Já, auðvitað. Eða nei okei, það eru örugglega hægt að gera sér í hugarlund að konur séu einhvers staðar þvingaðar til brjóstagjafar, en svona undir venjulegum kringumstæðum, já, þá er brjóstamjólk vegan.

Ég veit það ekki.

Hvað meinaru?

Ég upplifði það bara alls ekki alltaf þannig.

Hvernig?

Að ég væri að gefa á brjóst af fúsum og frjálsum vilja. Og þótt ég væri að gera það af fúsum og frjálsum vilja, þá var það samt sársaukafullt. Og glatað, stundum.

Æ kommon, ekki þetta forréttindabull.

Nei okei, ég veit, en ég meina það samt. Það var ógeðslega sárt fyrir mig, bæði það að gefa á brjóst, og líka það þegar hún tók svo ekki brjóstið og ég þurfti að gefast upp. Einhvern veginn náði brjóstagjöfin að særa mig á svo marga vegu.

En þá gastu að minnsta kosti bara gefið henni svona mjólk úr pela.

Já, en það er samt ekki það einfalt sko. Þá var ég allt í einu búin að missa af því að vera kona. Ég var bara svona hálfkona. Með brjóst sem virkuðu ekki. Ekki á þennan feminíska empowering hátt. Fannst ég einhvern veginn tapa fyrir feðraveldinu, skiluru. Brjóstin mín virkuðu ekki til að gera það sem þau eiga að gera, og þjóna því bara körlum núna. Og það fannst mér enn glataðra, að fá ekki einu sinni að vera fá að vera með mömmubrjóst, bara svona kynlífsbrjóst.

Ertu kannski að setja of mikla merkingu í brjóstagjöfina?

Kannski, ég veit það ekki, en fullt af fólki lét eins og ég væri bara að beila á þessu, að ég væri ekki að leggja mig fram við móðurhlutverkið. Komu fram við mig eins og latan ungling. Það var frekar glatað. Og svo er líka svo glatað að hitta bumbuhópinn minn, og allar sitja með börnin sín á brjósti og ég þarf að blanda dufti út í vatn. Þær einhvern veginn ógeðslega tengdar náttúrunni og ég í hlutverki efnafræðings. Þótt það sé auðvitað ekkert þannig. En samt.

Já, ég skil þig. En þú ert samt auðvitað bara að gera það sem er best fyrir hana.

Auðvitað, en svo var ég líka alltaf að drepast þessar þrjár vikur sem ég var með hana á brjósti. Ekki bara því það var ógeðslega sárt, það er svo miklu meira við brjóstagjöfina sem ég þoldi ekki.

Eins og hvað?

Æ, bara. Þú veist, það er geggjað yndislegt að eiga barn, en á sama tíma varð líkaminn minn og móðurhlutverkið einhvern veginn ósýnilegt fangelsi. Á meðan hann var alltaf heima og geðveikt meðvitaður um að vera virkur pabbi frá fyrsta degi, þá hafði hann samt möguleikann á því að fara. Bara, fara, skiluru. Einn. Þótt hann gerði það aldrei. Hann fór aldrei út án okkar. En hann gat það. Ég gat það aldrei. Ég gat ekki farið neitt. Þótt mig hafi ekki endilega langað að fara eitthvað geggjað mikið. En bara það að hafa ekki þennan valmöguleika var svo erfitt og íþyngjandi.

En ég meina, þú hlýtur nú að hafa getað farið út.

Já, jú, örugglega sko. En ég hafði það bara ekki í mér. Ég var þá þegar ógeðslega léleg að gefa á brjóst, og hún alltaf að drepast úr hungri og þyngdist ekki nóg og þannig. Svo ég hafði ekki samviskuna í það að fara bara. Þetta er bara svo glatað, skiluru. Það er svo ógeðslega glatað hvernig náttúran virkar. Ég er án djóks komin á þann stað – sem bara, þú veist, kona, eða femínisti, eða eitthvað – að við munum aldrei ná jafnrétti kynjanna ef konur eru skyldugar til að ganga með börnin og karlar hafa ekki möguleikann á því. Án djóks.

Já, en svona er bara náttúran.

Já, ég veit, en þetta er ekkert bara náttúran. Þetta er einhvern veginn í öllu, alls staðar. Við fórum til dæmis tvær upp á bókasafn um daginn, og hún var að skríða um barnasvæðið og leika við strák á svipuðum aldri og hún, nema hún var alltaf að flækjast í pilsinu á kjólnum sem hún var í, og var alveg að verða brjáluð – spólaði og spólaði og datt ítrekað fram fyrir sig á andlitið. Þetta var bara svo fáránlegt. Skiluru hvert ég er að fara? Þetta var bara eitthvað svo brjálað myndmál sem birtist okkur á bókasafninu. Mig langaði bara að standa upp og öskra „ÞETTA ER NÁKVÆMLEGA MÁLIГ, en ég held að það sé ekkert sérlega vel tekið í öskur á bóksafni, þótt það sé á barnasvæðinu. En skiluru hvert ég er að fara?

Já, jú jú, ég hef nú alveg pælt í þessum hlutum sjálf.

Ég veit, en bara það að verða mamma bætti einhverju svona hnausþykku lagi af sligandi vonbrigðum og ómöguleika við mína persónulegu feminísku baráttu. Ég bara nenni varla að vera til lengur, feðraveldið er svo ógeðslega þungur baggi á lífi mínu. Og lífinu hennar. Og lífinu hans. Ekki það að mig langi að hætta að vera femínisti og bara gefast upp, alls ekki skiluru, ég bara nenni ekki að hugsa um feðraveldið lengur, ég nenni ekki að vera af einhverju kyni lengur. Mig langar bara að stökkva út í sjó og synda eins lengi og ég get þangað til ég kem að einhverju skeri og byggja mér þar lítið skýli og deyja þar eftir svona tvær vikur. Tvær vikur án feðraveldisins væru örugglega betri en næstu 60 ár með því í þessu glataða, meingallaða samfélagi. Skiluru hvað ég á við?

Já. Ég held það að minnsta kosti. Og ég skil allt sem þú ert að segja. En ég er samt ennþá á því að brjóstamjólk sé vegan.

Já. Hún er það alveg. Ég er bara að vera með leiðindi.






— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **

Lesa meira um...
Mest lesin
Kynferðislegt ofbeldi: Tilveruréttur minn

Nýjast á Vía
Afmælisrit Vía

Flæði: