18. nóvember 2020

Eftirfarandi umfjöllun er kostuð.
Auglýsingastefnu Flóru er að finna hér.


Kynlífstækjaverslunin Losti opnaði verslun sína 1. september síðastliðinn í Borgartúni 3. Fyrirtækið sjálft hefur þó verið starfrækt lengur þar sem það hóf fyrst störf sín í gegnum netverslunina Losti.is sem fór í loftið 15. nóvember 2019. Eva Brá Önnudóttir og Saga Lluvia Sigurðardóttir stofnuðu og standa á bakvið Losta, en samkvæmt Evu litast stefna fyrirtækisins af ríkum hugmyndum um að opna á samtal um kynheilbrigði sem og að breyta því hvernig samfélagið talar um kynlíf. 

Hvaða hugmynd liggur á bakvið Losta?

Losti er miklu meira en bara sala á varning. Losti er hluti af hugmynd sem getur oft verið ótrúlega erfitt að koma á framfæri til neytenda. Í grunninn hefur Losti alltaf stefnt að því að breyta því hvernig við tölum um hlutina, og þá hvernig við tölum um kynlíf. Orðanotkun skiptir nefnilega miklu máli, þá sérstaklega þegar kemur að kynlífsvörumarkaðinum, sem oft á tíðum getur verið mjög einhæfur hvað varðar markaðssetningu og samtalið sem á sér stað í kringum hann. Kynlífsverslanir erlendis hafa margar hverjar verið leiðandi í hreyfingum á borð við unaðsbyltinguna e. pleasure movement, á meðan þær hafa ekki verið það hérlendis. Þannig við í Losta viljum raunverulega taka þátt í að vera hluti af þeirri hreyfingu og vonandi stuðla að því að allir séu með í samtalinu þar sem það hefur ekki verið þannig framanað.

Hvernig birtist einhæf birtingarmynd kynlífsvöru-markaðarins? 

„Samtalið í kringum kynlífsvörumarkaðinn hefur oft einskorðast við gagnkynhneigt sís fólk. Þá sérstaklega gagnkynhneigt sís fólk sem er vel stætt, í kjörþyngd og ‘able-bodied’. Sú staðreynd er upphaflega það sem dreif okkur áfram í að láta verða af Losta.is. Við ákváðum að skapa sjálfar það sem okkur fannst vanta inn á markaðinn, sem var til dæmis bara það að hafa verslun sem að talar til allra og passar upp á orðanotkun og annað, því það skiptir rosalega miklu máli. Það hljómar kannski lítilvæglegt en það er það í raun og veru ekki. Það skiptir nefnilega máli hvernig talað er um kynlífstæki þar sem orðræðan í kringum þau getur haft áhrif á það hvernig samfélagið horfir á allskonar hluti sem að tengjast kynlífi; eins og til dæmis hvernig fólk skilgreinir kynlíf, sjálfsfróun eða forleik. Í þessari umræðu skiptir máli að það sé talað til allra hópa. Það hefur mikil þróun orðið á síðustu áratugum, til dæmis er tal um unað kvenna í kynlíf orðin háværari og það ríkir ekki eins mikil skömm í því að nota kynlífstæki og áður. Opnun á þessari umræðu virðist þó einungis hafa gengið yfir þröngan hóp. Þegar ég nefni að tal um unað kvenna hafa aukist vísa ég til gagnkynhneigðra sís kvenna og að sama skapi hafa viss kynlífstæki, eins og eggið sem á að örva snípinn, verið tekin í sátt en enn þykir, sem dæmi, tabú að ræða notkun á strap-on — þótt þetta séu nákvæmlega sami hluturinn, þetta eru kynlífstæki. Viss kynlífstæki eiga ekki að geta talist „dónalegri“ en önnur. Mér finnst þetta vera skýr birtingarmynd þess hvernig jaðarhópar eru enn útskúfaðir í samfélaginu og þá í umræðunni um kynlíf. Jaðarhópar hafa ekki fengið að taka eins mikið pláss í þessari unaðsbyltingu, sem er sérstaklega kaldhæðnislegt í ljósi þess að þessir sömu jaðarhópar eru þeir sem drifu unaðsbyltinguna áfram í öllum heiminum. Ég held í því samhengi að kynlífsverslanir þjóni stóru hlutverki þegar kemur að því að létta af stigma í umræðunni um kynlíf. Það er allavega eitt af markmiðum Losta og hefur verið frá stofnun.“ 


Hvernig sér Losti til þess að talað sé til allra? 

„Frá byrjun höfum við lagt áherslu á að flokka ekki kynlífstækin sem við seljum eftir kyni. Kynlífstæki eru ekki með kynvitund, þetta eru dauðir hlutir sem að hver sem er getur notað. Jafnvel þótt ákveðin tæki séu hönnuð með viss kynfæri í huga þá eru lang flest kynlífstæki þannig að allir geta notað þau. Þess vegna er mjög útilokandi að tala um kynlífstæki eins og þau virki bara fyrir ákveðin kynfæri. Tökum sem dæmi einfalda sílikon typpahringi, fjölbreyttur hópur getur nýtt sér þá. Til dæmis gæti einstaklingur með takmarkaða hreyfigetu í höndunum nýtt sér typpahringi til þess að festa kynlífstæki á til framlengingar. Typpahringir eru þannig hentugir til þess að ná betri stjórn á tækinu og það er miklu betra að nota þá til festinga heldur en að nota límband, sem er ekki hannað til að snerta kynfæri, til þess. En segjum svo að sís lesbía ætli sér að fjárfesta í typpahring og nota hann, þá er mjög fráhrindandi að sjá að búið er að flokka tækið út frá þeim forsendum að það sé „fyrir hann“ svona ofan á það að nafnið á tækinu inniheldur orðið „typpi“. Þannig gefur flokkunin í skyn að önnur kyn hafi ekkert með þetta tæki að gera og getur jafnvel myndað eða ýtt undir skömm við notkun á því. Orðanotkun skiptir því máli hvað varðar að létta af skömm gagnvart allskonar athöfnum og því flokkum við tæki ekki eftir því hvort þau séu „fyrir hann“ eða „hana“, því það raunverulega meikar engan sense. Okkur finnst þetta helst snúast um að hjálpa fólki að horfa út fyrir kassann því nafnið á vörunni er ekki alltaf það sem skiptir mestu máli heldur hvernig er talað um hana almennt. Þegar við pöntum inn vörur reynum við því alltaf að hafa í huga hver getur notað vöruna, fremur en að einblína á hvað hún kallast. Við erum öll með mismunandi þarfir og það er mikilvægt að taka mið af þeim öllum.“ 

En svo bjóðið þig líka upp á annars konar vörur?

„Já, okkur fannst algjörlega skorta vörur fyrir trans fólk á markaðnum. Það var bara engin verslun á Íslandi að selja neitt þeim tengdu; og þá er ég að tala um vörur sem flokkast ekki undir kynlífstæki. Ég er að tala um eitthvað eins og ‘binder-a’ eða útvíkkunarsett. Við lítum á þessar vörur sem nauðsynjavörur; gerðar til að hjálpa fólki að upplifa sig í sínu rétta kyni. Mér finnst að fólk sem þarf þessar vörur ætti bara að fá þær frítt. Í æskilegum heimi ættum við því yfir höfuð ekki að þurfa að selja þetta, en þess í stað höfum við, frá fyrsta degi selt þessar vörur á heildsöluverði — semsagt án nokkurs gróða.“

Svo haldið þið líka utan um veftímarit á Losti.is? 

„Já við ákváðum strax frá stofnun að okkur langaði að halda utan um veftímarit. Það er komið í loftið en við viljum setja meira þunga í það. Veftímaritið á að vera vettvangur fyrir alla til þess að tjá sig og þá ekki bara um kynlífstæki heldur líka um allt sem viðkemur kynheilsu, kynvitund eða kynhneigð, eiginlega bara um allt sem hefur forskeytið kyn-. Umræður um þessi málefni eru svo rosalega víðfeðmar en það hefur í rauninni ekki verið neinn miðill til á Íslandi sem tekur sérstaklega á þessum hlutum. Í veftímaritinu viljum við hafa blöndu af erótísku sögum eða efni yfir í persónulegar reynslusögur, skoðanir eða fræðilega umfjöllun fagfólks um kynheilsu. Við leggjum mikið upp úr því að vinna með mörgum fagaðilum þar sem það er mikilvægt því starfi sem við erum í. Við vitum auðvitað ekki allt, en mér hefur fundist fallegt að segja að þó við vitum kannski ekki allt þá vitum við rosalega margt saman. Mér finnst það líka útskýra vel hvers vegna veftímaritið er gagnlegt því með því geta mörg sjónarmið komið fram sem vonandi gerir fleirum kleift að tengja við viss málefni. Í veftímaritinu er sömuleiðis sérstök áhersla lögð á hinseginleika, og þá umfjallanir um hinsegin samfélagið, skrifaðar af hinsegin fólki fyrir hinsegin fólk. Þegar að hinsegin fólki er gefið tækifæri til þess að tjá sig um sín mál er nefnilega algengt að það sé ætlast til þess að það skrifi umfjallanir sem eiga að gagnast gagnkynhneigðu fólki; hvort sem það er að reyna að minnka fordóma í garð hinsegin samfélagsins eða þá fræða þá sem standa utan fyrir það. Hinsegin samfélagið þarf líka á því að halda að til séu hinsegin umfjallanir skrifaðar fyrir hinsegin fólk.“  

Þú nefndir að Losti ætli að sama skapi að stuðla að aktívisma með styrkjum?

„Aðalmarkmiðið hefur lengi verið að Losti yrði fyrirtæki sem væri rekið með það að markmiði að gróði þess færi í málefnastarf og aktívisma. Það er ótrúlega gleðilegt að við séum komnar á þann stað að geta farið að framkvæma þá hugmynd. Allir aktívistar þekkja það að vinna af sér rassgatið launalaust í sjálfboðavinnu en það er samt alltaf kostnaður á bakvið allan aktívisma. Ég held að ótrúlega margt fólk sitji á góðum hugmyndum og hafi mikið fram á að færa en hafi ekki tækifæri til þess að fylgja þeim eftir því það er útbrunnið eftir að hafa gert allt frítt. Með því að styrkja aktivista vonumst við til þess að aðstoða fólk við að skapa tækifæri til þess að gera það sem því langar að gera. Þessi hugmynd snýst því ekki um að gróði Losta fari í það að framkvæma okkar persónulegu hugmyndir heldur viljum við aðstoða og vinna með öðru fólki sem er nú þegar að gera flotta hluti eða situr á flottum hugmyndum. Þetta langtímamarkmið okkar er minn persónulegi drifkraftur í þessu starfi. Ég hefði aldrei verið tilbúin í að leggja aleiguna mína og alla þessa vinnu ef að hugsjón sem þessi lægi ekki á bakvið.“


Hefur opnun Losta í Borgartúni 3 breytt miklu fyrir ykkur?

„Við bjuggumst í fyrsta lagi aldrei við því að geta opnað raunverulega búð svona fljótt eftir að við stofnuðum Losta.is. Ég hafði hugsað mér að það tæki svona allavega þrjú ár, en svo leið ekki einu sinni ár áður en við vorum búnar að opna verslun. Það breytir miklu fyrir okkur að vera með stað þar sem fólk getur komið og spjallað. Við lögðum rosalega mikið upp úr því að skapa rými sem þjónaði meiri tilgangi en bara að vera verslun. Við vildum að innrétting hennar yrði heimilisleg, þannig að það væri svolítið eins og fólk væri að koma inn í stofu til okkar. Fullt af fólki finnst óþægilegt að heimsækja kynlífsverslanir og þess vegna finnst okkur mikilvægt að andrúmsloftið láti fólk vita að það sé velkomið um leið og það gengur inn. Að fólk gæti þess vegna sest með mér í sófann, fengið sér kaffi og spjallað um hvað hentar best eða þá hverju það leitar að. Þá sérstaklega þar sem viðskiptavinir okkar opna sig gjarnan við okkur um hluti sem þeir tala ekki oft um; jafnvel um hluti sem þeir hafa ekki sagt makanum sínum frá. Við lögðum líka áherslu á það að rýmið væri aðgengilegt fyrir alla. Það ættu auðvitað allar verslanir að vera aðgengilegar. Grunnkrafa hjá okkur var að það væri aðgengi bæði í versluninni sjálfri og á klósettin. Aðgengi er líka haft að leiðarljósi í uppsetningu á búðinni sjálfri þar sem við sjáum til þess að það sé auðvelt aðgengi að hillum fyrir fólk til að skoða allt. Uppsetning verslunarinnar er líka mjög hentug fyrir viðburðarhald því hugmyndin er að bæði geti fagfólk komið og haldið viðburði en einnig aðrir hópar sem gætu til dæmis sóst eftir því nýta sér rýmið til að stofna umræðuvettvang fyrir ákveðin málefni eða hóp.“

Finnst þér mikilvægt að geta átt í nánari samræðum við viðskiptavini? 

„Mér finnst það rosalega mikilvægt. Við viljum hjálpa viðskiptavinum okkar með hvað sem er eða þá hjálpa til við að beina fólki til ákveðinna kynlífsráðgjafa ef fólk kemur inn með spurningar sem fer fyrir utan okkar þekkingu. Rými Losta hefur alltaf verið hugsað sem ákveðin miðstöð sem tekur á málefnum sem snerta kynlíf. Mér finnst ég strax sjá að það borgi sig að tala vel við viðskiptavini því fólk getur heimsótt kynlífsverslanir á svo mismunandi forsendum. Til dæmis kemur fólk stundum inn í þeim tilgangi að kaupa nýtt kynlífstæki í von um að leysa vandamál í sambandinu sem byggir á samskiptaleysi. Það er augljóslega ekki að fara að leysa vandann. Síðan höfum við átt í samræðum við ungar stúlkur sem koma inn til að biðja um einhvers konar kynlífstæki og áttað okkur á því í gegnum samtal að stúlkan er raunverulega bara að sækjast í kaup á tækinu til að þóknast maka sínum, sem er áhyggjuefni út af fyrir sig. Því finnst mér ótrúlega mikilvægt að geta átt í þessum samræðum, ef ekki bara til þess að fullvissa fólk um að ef þig langar ekki að prófa eitthvað í kynlífi þá þarftu þess ekki. Þess vegna finnst mér líka mikilvægt að við séum ekki með aldurstakmark í versluninni okkar.“ 

Af hverju finnst þér mikilvægt að hafa ekkert aldurstakmark, er það ekki venjan í kynlífsverslunum? 

„Við höfum fengið athygli fyrir þessa ákvörðun okkar, enda held ég að Losti sé eina kynlífsverslunin hér á landi sem hefur ekkert aldurstakmark. Það eru engin lög sem banna það að einstaklingur undir 18 ára kaupi sér einhvers konar kynlífstæki og það ætti ekki að vera. Ég stend við ákvörðunina okkar og er alveg tilbúin að taka slaginn ef einhverjir foreldrar lýsa óánægju yfir þessari ákvörðun. Mér finnst skipta ótrúlega miklu máli að ungt fólk hafi færi á því að ganga inn í öruggt umhverfi þar sem þau geta fengið sannar og réttar upplýsingar og leiðsögn um kynlífstæki, þá sérstaklega þar sem ungt fólk hefur greiðan aðgang að internetinu og netverslunum erlendis þarf sem getur verið erfitt að segja fyrir um réttmæti upplýsinga. Ég held því að aldurstakmörk á svona hlutum leiði til mikillar vanþekkingar og viðhaldi að sama skapi ótta eða mýtum um kynlíf og kynlífstæki. Kynlífsverslanir geta verið mikilvægt afl hvað viðkemur fræðslu ungmenna. Ég myndi frekar vilja að barnið mitt myndi ganga inn í öruggt umhverfi, eins og Losta, þar sem það getur fengið leiðsögn fremur en það fari að panta sér eitthvað handahófskennt tæki af AliExpress sem er jafnvel ekki öruggt fyrir líkamann. Svo ekki sé talað um hvað það getur verið algengt að börn eða ungmenni kaupi sér kynlífstæki á röngum forsendum. Ég talaði einu sinni við unga sís stelpu sem kom inn í búðina í leit að tæki sem gæti „undirbúið“ hana fyrir það að „missa meydóminn“ — sem er hugmynd sem ætti ekki að vera til ennþá í dag. En hún viðheldur sér vegna þess að við erum búin að pota því inn í hausinn á börnum að það sé eðlilegt að upplifa mikinn sársauka við kynlíf, sérstaklega í fyrsta skipti sem þú stundar það. Við gerum það í stað þess að leggja áherslu á að kynlíf eigi að vera gott, að þú eigir að vita þín mörk og hvað þér finnst gott. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að verslunin okkar hafi ekkert aldurstakmark því það er margt ungt fólk sem kemur til okkar í leit að ráðgjöf, en oftar en ekki verður samtalið, sem það á við okkur starfsmennina, til þess að það sannfæra ungmennin af hverju þau ættu ekki að kaupa ákveðið tæki; þannig við erum oftar að selja þeim sjálfstraust og sjálfsöryggi heldur en tæki.“ 


Hvað er næst á döfinni hjá ykkur? 

Við hjá Losta erum bara ótrúlega spenntar yfir því að allt fari aftur á skrið einhvern tímann í nánustu framtíð. Það eru mörg skemmtileg verkefni í bígerð sem við getum vonandi farið að segja frá bráðum. Okkur hefur tekist að skapa þægilegt og aðgengilegt rými í Borgartúni 3 sem fylgir algjörlega þeirri hugmyndafræði sem liggur á bakvið Losta og í framhaldi af því vonumst við til þess að opna enn frekar á umræður um heilbrigt kynlíf.  Ég held að upp að vissu marki hafi það skilað sér nú þegar þar sem fólk sem kemur inn í búðina okkar hefur oft orð á því að Losti sé „skemmtilega öðruvísi“ en aðrar kynlífsverslanir.













— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
Félagskvíði í daglegu amstri

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Cravings

næsta grein
What is mental health?


Lesa meira um...

Kynlífsverslunin Losti — miklu meira en bara sala á varning