Kallað eftir aukinni fjölbreytni á Nýlistasafninu

26.september 2020

Höfundur:
Eva Lín Vilhjálmsdóttir
@3va_lin
   

Nýlistasafnið er staðsett í Marshallhúsinu á Granda. Safnið er listamannarekið og hefur haft það að markmiði frá upphafi að gera fjölbreyttum samtímalistamönnum rými. Sýningar Nýlistasafnsins eru margvíslegar og hafa frá stofnun þess árið 1978 endurspeglað straumhvörf í samfélaginu og myndlist að hverju sinni. Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir haustsýningar Nýlistasafnsins 2021 og hún engin undantekning þar á. 

Markmið haustsýningarinnar er að opna safnið og rými þess fyrir listamenn sem hingað til hafa ekki fengið nægilegan hljómgrunn innan listasenunnar hérlendis. Í ákalli Nýlistasafnsins hvetja þau „fólk af ólíkum uppruna og með ólíkan bakgrunn, hvort sem viðkomandi er aðili að Nýló eða ekki, að senda inn tillögu. Við leitum sérstaklega til hinseginn samfélagsins, Íslendinga með erlendan uppruna og blandaða Íslendinga, aðfluttra Íslendinga og annarra sem finna sig á jaðrinum að deila með okkur sínum sjónarhornum.“ 

Við hjá Flóru töluðum við Sunnu Ástþórsdóttur, verkefnastjóra hjá Nýlistasafninu, og Chanel sem situr í valnefnd haustsýningarinnar. Þær fara ofan í saumana á sýningunni, markmiðum hennar og hvers vegna hún er með breyttu sniði í ár.

Nýlistasafnið leitar árlega eftir tillögum að haustsýningu safnsins úr hópi félaga sinna en í ár er það gert með ólíku sniði en síðustu ár. Hvers vegna er þetta og í hverju felst breytingin?

Sunna: Breytingin felst í því að nú getur hver sem er sent inn tillögu, ekki bara félagar Nýlistasafnsins. Stjórn beinir sjónum sínum sérstaklega að minnihlutahópum, reynsluheimi jaðarsettra eða þeirra sem hafa ekki enn fengið hljómgrunn innan listasenunnar og valnefndin stækkar. Nú er það ekki bara stjórn Nýló sem velur úr innsendum tillögum heldur höfum við boðið fleirum að borði, meðal annars Chanel. Helsta ástæðan fyrir því að umsóknarferlið er með þessu sniði í ár, er vegna þess að um listaheiminn, og önnur svið samfélagsins hér heima og á alþjóðavettvangi, hefur ómað hávært og mikilvægt ákall til stofnana og valdhafa að gera betur í að endurspegla alla mannflóruna. Að einfaldlega standa sig betur í að fylla í eyðurnar og sinna öllum sem lifa og hrærast í samfélaginu. Sem safn og opinber sýningarvettvangur er mikilvægt að Nýló stuðli að virkri þátttöku allra. 

Hafiði fengið gagnrýni fyrir einsleitni í Nýlistasafninu?

Sunna: Nei, ekki svo ég viti. Allavega ekki beint við safnið, en auðvitað getur vel verið að þetta sjónarmið hafi komið fram á vettvangi sem við þekkjum ekki til. Í vor fengum við hins vegar ábendingu frá félaga safnsins, þá í kjölfar myndar sem tengist #blackouttuesday sem við settum á instagram síðuna okkar, og við áttuðum okkur á því að við þurfum að byrja á því að hlusta og setja okkur inn í það sem er að gerast. Nýlistasafnið er stofnað árið 1978 að frumkvæði listamanna sem viðbragð við vöntun eða eyðu sem var að myndast í íslenskri listasögu, því opinberu söfnin á þeim tíma sýndu samtímanum litla athygli. Þannig að safnið er beinlínis stofnað til að stuðla að framþróun senunnar og þegar ég, sem kem inn í safnið löngu seinna, skoða sögu þess finnst mér Nýló og fyrri stjórnir safnsins hafa verið óhrædd við að líta í eigin barm og bæta fyrir syndir fortíðarinnar, til dæmis þegar kemur að verkum kvenna í safneign, sem eru mun færri en verk karla. Árin 2015-16 var haldin sýningarröð sérstaklega til að skoða þetta vandamál, og við höfum nýlega hlotið styrki til að hlúa að verkum úr safneign Nýlistasafnsins eftir konur. Nýló á að vera afl breytinga, nei byltinga! Nýló á að ryðja veginn. Eyðurnar eru víða og við áttum okkur á því að við þurfum að stíga fleiri skref til þess að ná til allrar flóruna. Þetta umsóknarferli er eitt af þeim skrefum. 

Heldur þú að listasamfélagið á Íslandi sé aðgengilegt fyrir jaðarhópa? Hvers vegna / ekki? 

Sunna: Já og nei, þetta er ekki auðveld spurning. Það er mín skoðun að hjá söfnum og sýningarstöðum þar sem sýningar eru valdar inn, þarf stöðugt að endurmeta valferlið í takt við nútíma hvers tíma. Það er jafn mikilvægt að velta fyrir sér á hvaða forsendum tillögum er hafnað og að geta rökrétt hvers vegna ákveðin umsókn fékk brautargengi. Ég held að listsamfélagið á Íslandi sé á einhvern hátt aðgengilegt, án þess að hafa nokkurn tíma fundið það á eigin skinni, því ég tilheyri forréttindahópi. Það er vel hægt að nefna sýningar og frábær frumkvæði svo sem List án Landamæra og Gallerí 78, sem hafa orðið til vegna elju og krafts hugsjónarfólks í senunni. En nú er löngu kominn tími til að allir taki við sér, nú þurfa menningarstofnanir að sækja innblástur í grasrótina og innleiða stefnur og markmið til þess að endurspegla alla gróskuna í menningunni og setja frumkvæði. Við í Nýló höfum til dæmis talað aðeins um frábært verkefni á vegum Borgarbókasafnsins, Inclusive public spaces, sem hefur svo sannarlega verið okkur innblástur í þessu umsóknarferli. Ég held að þetta snúist fyrst og fremst um það að verða meðvitaður, um eigin blindu, um eyðurnar, og byrja að hlusta. Svo er ég hrædd um að óttinn við að gera mistök geti oft hindrað stofnanir í að taka stóra skrefið út fyrir þægindarrammann, án þess að vita neitt mikið um það þá finnst mér þetta vera þreytandi afstaða  – það vantar alveg á Íslandi að fólk taki ábyrgð á gjörðum sínum, þori að biðjast afsökunar og þori að vera mannleg. Án þess að horfast í augu við brestina komumst við aldrei neitt áfram. 

Hver er lykilinn að aðgengilegra listasamfélagi í þínum huga?

Sunna: Að hlusta, taka eftir, opna augun og hugann fyrir mismunandi sjónarhornum. Um leið að skoða sjálfan sig rækilega, verða meðvituð um eigin stöðu, forréttindi og blindu. Sem safn er líka mikilvægt að Nýló varðveiti þessa grósku. Að leiða af auðmýkt, setja sig í spor annarra og geta viðurkennt mistök sín. 

Hefur nýlistasafnið einhverja jafnréttisstefnu eða kynjahlutfallsstefnu? 

Sunna: Nei. Í starfsstefnu safnsins stendur meðal annars í kafla um söfnunarstefnu Nýló að vinna skuli að því að leiðrétta kynjahalla í safneign. Einnig kemur fram í sýningarstefnu að fjölbreytileiki sýninga og sýnenda eigi að vera í fyrirrúmi, en það þarf að taka sterkar til orða. Sem viðurkennt safn störfum við eftir siðareglum ICOM, en þær snerta ekki beint á jafnrétti eða kynjahlutfalli. Hins vegar eru spennandi hlutir að gerast í safnaheiminum, verið er að endurskoða safnaskilgreininguna og ef ég skil hina nýju skilgreiningu rétt, sem reyndar hefur enn ekki verið samþykkt, snýr hún að því að virkja, safna og sýna reynsluheim minnihlutahóp og jaðarsettra, en ekki bara tala til þeirra. Þannig er unnið gegn ákveðnu stigveldi sem getur magnast upp í einhliða samtali. Mér finnst þetta spennandi breyting, en umræðan í safnasamfélaginu er eldfim, og ég verð að játa að ég á eftir að kynna mér hana betur. 

Tekur nýlistasafnið við umsóknum frá hverjum sem er?

Sunna: Já, við tökum við umsóknum frá hverjum sem er. Áður hafa aðeins félagar Nýló geta tekið þátt í opnu umsóknarferli, en í ár er það ekki skilyrði. 

Viljið þið koma einhverju sérstöku á framfæri?

Chanel: Tölur frá hagstofu Íslands sýna fram á að meiri en ⅕ þjóðarinnar eru með erlendan uppruna, þá eru þeir annaðhvort innflytjendur, annarrar kynslóðar innflytjendur eða blandaðir Íslendingar. Í samfélagsumræðunni um fjölmenningu og breytingarnar sem eiga sér stað í íslensku samfélagi, þá heyrast oft raddir sem vilja meina að Ísland hafi lengi verið einsleitt land þar sem við búum á eyju í Norður Atlantshafinu og þar að leiðandi hefur íslenska þjóðin verið ótengd öðrum menningarheimum. Þessi rök eiga ekki við í dag né áður því Ísland hefur lengi vel verið tengt umheiminum og hugmyndir okkar um ólíka kynþætti hafa verið litaðar af öðrum norðurlandaþjóðum allt frá því á tímum heimsvaldastefnunar. En með breytingar á þjóðarmynd Íslendinga síðustu ára, er nú orðið tímabært að við aflærum þessar hugmyndir um fólk af öðrum uppruna eða kynþætti en hvítum. Það er ekki nóg að telja að þetta vandamál standist ekki tímans tönn, heldur eru átök svo sem Open call þessa árs hjá Nýlistasafninu gríðarlega mikilvæg. Ég vona að þetta átak verði leiðarljós fyrir allar menningarstofnanir landsins og muni veita hvatningu til þeirra að huga að inngildingu í markmiðum og stefnum í þeirra starfi. 

Fleiri upplýsingar um verkefnið má finna á:

Heimasíðu Nýló & Facebook






— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **

Lesa meira um...
Mest lesin
Kynferðislegt ofbeldi: Tilveruréttur minn

Nýjast á Vía
Afmælisrit Vía

Vía mælir með
Fjölmenning: Af höfuðklútum og öðrum klútum