International Womxn’s Day
Á sunnudaginn síðastliðinn var Alþjóðlegur baráttudagur kvenna (e. International Womxn’s Day). Við í ritstjórn Flóru fögnuðum deginum í þremur mismunandi löndum
Í Kaupmannahöfn var býsna margt um að vera. Brostnar vonir Elinóru um að sjá pallborðsumræður tileinkaðar femínisma minnihlutahópa, þar sem mun færri komust að en vildu.
Kvöldinu hennar var því varið á baráttusamkomu kvenna þar sem m.a. sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, Helga Hauksdóttir steig í pontu og ræddi jafnréttismál og kvennakórinn eldaði mat fyrir viðstadda. Þegar dagur var að kvöldi kominn og Elinóra kyssti börnin sín góða nótt eftir annasaman dag, spurði sonur hennar „mamma, afhverju vorum við pabbi einu strákarnir í dag?“
Í Rotterdam í Hollandi komu druslur saman og kröfðust lífs án ofbeldis og misréttis. Áhersla skipuleggjenda hollensku druslugöngunnar (e. Slutwalk) var á hópa sem hefur verið þrýst út á jaðarinn og voru pallborðsumræður í lok göngunnar þar sem öryggi minnihlutahópa var rætt af fólki úr minnihlutahópum. Kraftmikill og tilfinningaþrunginn dagur þar sem Eva lærði heilmargt.