Það er ekki hægt að aðgreina regnbogann

2. nóvember 2020

Höfundur:
Þorvaldur Sigurbjörn Helgason

   

Nokkur orð um LGB teymið og samstöðu hinseginsfólks.

Í september síðastliðnum spruttu upp miklar deilur innan íslenska hinseginsamfélagsins í kjölfar stofnunar hóps sem kallar sig LGB teymið. Margt hinseginfólk gagnrýndi harðlega hópinn fyrir það sem þau telja vera transfóbískan áróður en stofnendur LGB teymisins vörðust þessara ásakana. Íva Marín Adrichem, einn stofnendanna, skrifaði til að mynda grein sem birtist í Mannlífi þar sem hún útskýrði hugmyndafræði sína og ástæðurnar að baki stofnun hópsins.12 Í þessum pistli reyni ég eftir minni bestu getu að rýna í hugmyndafræði LGB teymisins og brjóta til mergjar þær skoðanir sem Íva Marín og aðrir á vegum hópsins hafa sett fram á opinberum vettvangi. Verandi sjálfur sískynja karlmaður þá get ég auðvitað ekki talað fyrir hönd trans fólks og vil því taka fram að allar skoðanir sem hér eru settar fram eru byggðar á minni eigin upplifun og rannsóknarvinnu.13

Í grein sinni kallar Íva Marín LGB teymið „[…] frjálslyndan, opinn og lýðræðislegan umræðuvettvang, fyrst og fremst ætlaðan samkynhneigðu og tvíkynhneigðu fólki en útilokar enga.“14 Þar furðar hún sig yfir þeim hörðu viðbrögðum sem stofnun hópsins hefur vakið en margt hinseginfólk hefur lýst yfir áhyggjum sínum á samfélagsmiðlum yfir því að hann gæti orðið gróðrastía fyrir transfóbíska orðræðu og boðberi afturhaldssamra viðhorfa. Í viðtali í útvarpsþættinum Harmageddon 21. september 2020 þvertók Íva fyrir það að LGB teymið væri transfóbískur hópur og sagði alla hinsegin einstaklinga velkomna í hann, meira að segja trans fólk, en undir lok viðtalsins lýsti hún því yfir að þau liti í raun ekki á trans fólk sem trans, heldur bara sem fólk.15

Þessi yfirlýsing ber ekki bara með sér mjög einfeldningslega túlkun á veruleika trans fólks heldur hreinlega mikla vanþekkingu á þeim fjölmörgu áskorunum sem trans einstaklingar standa frammi fyrir í sínu daglega lífi. Auðvitað er trans fólk bara fólk eins og við hin en það að láta eins og reynsluheimur þeirra skipti ekki máli í umræðu um hinsegin málefni er álíka kjánalegt og að segja að húðlitur fólks skipti ekki máli þegar kemur að umræðu um rasisma eða að trú fólks skipti ekki máli þegar kemur að umræðu um íslamófóbíu. Trans fólk er og hefur alltaf verið órjúfanlegur partur af baráttu samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og alls hinsegin fólks, allt frá Stonewall óeirðunum 1969 og lengra aftur. Það að ætla sér að líta fram hjá þeirra framlagi í þessari baráttu er ekki bara niðurlægjandi gagnvart þeirra fjölmörgu fórnum heldur hreinlega rangt. Stofnendur LGB teymisins láta eins og viðbrögð transsamfélagsins hafi komið sér á óvart og að þau hafi ekkert illt meint með stofnun hópsins, sem má vel vera, en hvernig er hægt að túlka markmið hóps sem ákveður að fella burt T-ið úr skammstöfuninni LGBTQ+ sem annað en útskúfun á stórum hluta hinseginssamfélagsins?

Á Facebooksíðu LGB teymisins stendur þar að auki: „Að okkar mati er Ísland öruggur staður þar sem allt fólk fær að lifa, starfa og elska að vild. Þó erum við fullmeðvituð um að mun auðveldara er að taka skref aftur á bak en fram á við.“16 Maður spyr sig hvort að meðlimir hópsins hafi velt því fyrir sér í hvora áttina þau vilji fara. Því miðað við bresku samtökin LGB Alliance þaðan sem þau sækja fyrirmynd sína þá sýnist mér það vera deginum ljósara að það eru þau sem eru að taka skref aftur á bak en ekki öfugt.

Ef hugmyndafræði og saga LGB Alliance í Bretlandi er skoðuð verður það bersýnilega ljóst að samtökin voru ekki stofnuð til þess að berjast fyrir réttindum samkynhneigðra og tvíkynhneigðra eins og þau segjast gera, heldur fyrst og fremst til að berjast gegn réttindum trans fólks, samfélagshóps sem er þegar einn sá jaðarsettasti í flestum löndum heims. Á heimasíðu LGB Alliance stendur t.a.m. berum orðum:

We believe that biological sex is observed at birth and not assigned. In our view, current gender ideologies are pseudo-scientific and present a threat to people whose sexual orientation is towards the same sex, or to both sexes. In addition, we believe that these ideologies are confusing and dangerous to children.“17

Þarna fellur orðræða þeirra kyrfilega um sjálfa sig þegar þau lýsa viðteknum kynjahugmyndum sem gervivísindum. Hin raunverulegu gervivísindi eru gamlar og úreltar staðalmyndir eins og þær sem LGB Alliance heldur uppi sem gera ráð fyrir því að hægt sé að smætta hinn gífurlega fjölbreytileika mannlífsins niður í tvö niðurnjörfuð samfélagshlutverk (kona og karl). Kyn og kyngervi (sex & gender) eru hvoru tveggja hlutir sem falla á róf og er þetta bæði rökstutt af vísindum og lifuðum raunveruleika fólks.18

Orðræða LGB Alliance vísar líka beint í sama hræðsluáróðurinn og hefur verið notaður um áratugaskeið til að berjast gegn réttindum samkynhneigðra, það að segjast einfaldlega vera að vernda börnin. Þetta er ekkert annað en ódýrt bragð til að reyna að klæða eigin fordóma í búning umhyggju, svipað því og þegar fólk segist ekki vilja hjálpa flóttamönnum því það sé alveg nógu mikið af fátæku fólki á Íslandi. Fólkinu sem segir svona hluti er gjarnan mun meira umhugað um að reka flóttamennina burt heldur en að hjálpa fátæku fólki. Það er hin mesta furða hvernig fólkið á bakvið LGB teymið geti með góðri samvisku, sem samkynhneigt og tvíkynhneigt fólk, skipað sér í röð með samtökum sem nota sömu rök og eru enn þann dag í dag notuð til að traðka á þeirra eigin mannréttindum? Í Rússlandi er til að mynda öll hinseginumræða og allar opinberar birtingarmyndir á hinseginleika skilgreind sem „hinsegin áróður“ og bönnuð undir því yfirskini að verið sé að vernda börnin.

Að því sögðu þá eru nokkrir punktar í orðræðu LGB teymisins og grein Ívu Marínar sem ég get samsamað mig með. Í greininni segist Íva hafa orðið fyrir miklu persónulega aðkasti dagana eftir stofnun LGB teymisins og að fólk hafi jafnvel gengið svo langt að hafa samband við fjölskyldu hennar. Skítkast, persónuníð og hótanir um ofbeldi eru auðvitað aldrei réttlætanleg og ætti að fordæma slíkt sama frá hvaða hlið það kemur. Ég get auðvitað ekki tjáð mig um þau skilaboð sem hún eða aðrir meðlimir LGB teymisins hafa fengið persónulega en langflest gagnrýni sem ég hef séð á hópinn hefur verið málefnaleg, þó svo að fólk hafi vissulega oft gripið til tilfinningaraka, enda er þetta málefni sem snertir flest hinseginfólk djúpt. Í þessu samhengi vísar Íva í J.K. Rowling en hún lítur svo á að Rowling hafi orðið fyrir öfgafullum ofsóknum í kjölfar þess að hún viðraði opinberlega efasemdir sínar um trans málefni og kom þannig, að margra mati, út úr skápnum sem TERF.19 Eins og ég sagði þá eru hótanir um líflát eða líkamlegt ofbeldi gagnvart öðru fólki, hversu slæmar sem skoðanir viðkomandi eru, aldrei réttlætanlegar en ég velti því fyrir mér af hverju sumt fólk finnur sig svo knúið til að verja Rowling gagnvart slíkum netárásum en ekki trans fólkið víða um heim sem lendir í slíku ofbeldi, ekki bara á internetinu heldur á eigin skinni? Í Bandaríkjunum hafa til að mynda 33 trans manneskjur verið myrtar það sem af er árinu 2020 og er þá ótalið allt hitt andlega, líkamlega og kynferðislega ofbeldið sem trans fólk út um allan heim verður fyrir á hverju ári.20

Þrátt fyrir þessar staðreyndir þá velja meðlimir LGB teymisins frekar að taka upp hanskann fyrir J.K. Rowling, sískynja konu sem er bæði milljarðamæringur og einn frægasti rithöfundur heims! Sjálfur skil ég vel þörfina til að taka upp hanskann fyrir málfrelsi og berjast gegn ritskoðun. Verandi sjálfur rithöfundur er ég almennt talið mjög andvígur ritskoðun og hlynntur því að fólk með ólíkar skoðanir hafi rétt til að tjá sig. En málið er að ríkasti rithöfundur heims á ekki í hættu á að vera ritskoðaður. Jafnvel þó stöku bókabúðir hætti að panta inn bækur eftir Rowling eða þó einhverjir fyrrum Harry Potter aðdáendur ákveði að brenna bækurnar sínar þá eru sennilega fáar manneskjur í heiminum sem hafa stærri vettvang til að tjá sig og birta skoðanir sínar en J.K. Rowling. Raunar þá koma flest nýlegu dæmin um bókabrennur á Harry Potter ekki frá hinsegin aktívistum heldur frá strangtrúuðu kristnu fólki sem lítur svo á að galdrarnir í bókunum sé merki um satanískan boðskap. Vissulega er hægt að finna dæmi um einhverja einstaklinga sem hafa brennt bækur eftir Rowling í mótmælaskyni en það að reiður lesandi brenni bækurnar sínar og pósti því á TikTok er ekki pólitísk menningarhreinsun, heldur einfaldlega táknrænn gjörningur.21

Það er fullkomlega skiljanlegt að hugmyndin um bókabrennur vekji upp hugrenningatengsl við pólitískar ofsóknir og ritskoðunarherferðir 20. aldarinnar en það er þó engan veginn sambærilegt því sem J.K. Rowling er að lenda í. Það væri það kannski ef Borgarbókasafn og Eymundsson myndu skipuleggja Harry Potter brennu á Ingólfstorgi en enn sem komið er þá erum við á vesturlöndum mjög fjarri þeim veruleika. Það sem J.K. Rowling er að lenda í er fyrst og fremst réttlát reiði allra þeirra ótalmörgu aðdáenda sem hún hefur sært með vanhugsuðum og óupplýstum orðum sínum um trans fólk. En gagnrýni er ekki það sama og þöggun og það að vera „cancelled“ á Twitter er ekki það sama og að vera ritskoðaður. Í því samhengi er vert að minnast aftur á þær 33 trans manneskjur sem hafa verið myrtar í Bandaríkjunum það sem af er ári, þær eru dæmi um manneskjur sem hefur verið þaggað niður í fyrir fullt og allt.

Nú gætu sumir ef til vill spurt sig, af hverju í ósköpunum 28 ára, hvítur, sískynja, forréttindakarl þykist geta tjáð sig um þessi mál. Í því samhengi ber það gjarnan upp á góma að hið svokallaða „góða fólk“ vilji eigna sér baráttu minnihlutahópa og geri í því að móðgast fyrir hönd annarra. Sjálfur myndi ég aldrei vilja eigna mér baráttu trans fólks því ég geri mér grein fyrir því að ég sem sískynja karlmaður get aldrei að fullu leyti skilið þá heimsmynd og þá lífsreynslu sem það að vera trans hefur í för með sér. Það eina sem ég get gert til að reyna að skilja sjónarhorn þessa samfélagshóps er að hlusta á reynslu þeirra og reyna mitt besta að vera góður bandamaður. Ég vil ekki falla í klisjuna að segja að sumir af mínum bestu vinum séu trans en það vill svo til að fyrsta alvarlega sambandið mitt var með trans kynsegin manneskju. Það voru mikil forréttindi fyrir mig sem sís einstakling að eiga svo nána manneskju í lífi mínu sem er trans og gaf mér tækifæri til að kynnast hlið á tilverunni sem ég hefði sennilega annars aldrei upplifað. En eins mikið og ég lærði um trans málefni á þessu tímabili og eins mikið og það breytti sýn minni á gjörvallt kynjakerfið þá varð ég á endanum að sætta mig við það að ég sem sís einstaklingur get aldrei fullkomlega skilið hvað það er að vera trans. Rétt eins og ég sem karlmaður get aldrei fullkomlega skilið hvað það er að vera kona. Ég get auðvitað frætt mig um þessi málefni og reynt að setja mig í spor trans fólks og en eins mikið og ég væri til í það þá get ég ekki bara tekið Freaky Friday og skipt um líkama við trans manneskju. Þess vegna, nákvæmlega þess vegna, er það ekki í mínum verkahring að fara að efast um upplifun trans fólks eða rökræða þeirra tilverurétt.

Ég get hins vegar skilið hvað það er að vera hinsegin því það er eitthvað sem hefur verið partur af mínu lífi í mörg ár. Í gegnum öll mín unglings og snemm-fullorðinsár gekk ég í gegnum mikla naflaskoðun á minni kynhneigð og mátaði mig við allskonar skilgreiningar sem mér fannst aldrei almennilega passa. Ég vissi að ég væri ekki gagnkynhneigður en mér leið stundum eins og það væri hreinlega ekki pláss fyrir nördalega og hlédræga stráka eins og mig í regnbogalitaðri glimmerveröld hinseginleikans. Það var ekki fyrr en löngu síðar að ég áttaði mig á því að það er engin krafa um að hegða sér á einhvern ákveðinn hátt sem hinsegin einstaklingur.22 Það eina sem ég myndi segja að væri krafa ef þú vilt tilheyra hinseginsamfélaginu er það að sýna öðru hinseginfólki skilning og umburðarlyndi.

Að sama skapi þurfum við að átta okkur á því að það hinseginfólk sem hefur hæst og er mest áberandi í sinni baráttu er oft á tíðum fólkið sem við hin eigum mest að þakka. Það þurfa ekki allir sem eru hinsegin að vera gordjöss og prumpa glimmeri en við þurfum á þessu fólki að halda. Ef við hefðum ekki dívur eins og Pál Óskar sem taka sitt pláss án þess að biðjast afsökunar og trans aðgerðasinna eins og Öldu Villiljós sem brjóta upp kynjatvíhyggjuna þá væri heldur ekki pláss fyrir alla hina hommana, lesbíurnar, tvíkynhneigða, pan og trans fólkið sem vill bara fá að lifa sínu lífi öruggt og óáreitt.

Við hinseginfólk höfum sennilega öll einhvern tímann lent í því að upplifa fordóma, hvort sem þeir hafa komið frá samfélagsinu, öðru hinseginfólki eða einfaldlega frá okkur sjálfum. En málið er að við erum öll að heyja sömu baráttuna. Hún er vissulega komin mislangt en hún er í grunninn sú sama: Baráttan fyrir því að fá að elska og vera eins og við viljum í kerfi sem var ekki hannað með okkur í huga. Þess vegna varðar það okkur öll þegar það er traðkað á réttindum eins okkar. Það er einfaldlega ekki hægt að fjarlægja T-ið úr LGBTQ+ rétt eins og það er ekki hægt að fjarlægja bláa litinn úr regnboganum.

 1. Íva Marín Adrichem, „Hinsegin menning“, Mannlíf, 21.9.2020.
 2. Þessi pistill var upphaflega birtur á Facebookgrúppunni Hinseginspjallið en birtist nú hér í örlítið breyttri mynd.
 3. Íva Marín Adrichem, „Hinsegin menning“, Mannlíf, 21.9.2020.
 4. Þessi ummæli stangast hins vegar á við þær upplýsingar sem birtar hafa verið á Facebook síðu LGB teymisins en þar hefur komið fram að hópurinn sé fyrst og fremst ætlaður samkynhneigðu og tvíkynhneigðu fólki: Harmageddon, „Ofbeldi og útskúfun í hinseginsamfélaginu“, 21.9.2020.
 5. Facebooksíða LGB teymisins, „About“.
 6. Heimasíða LGB Alliance, „About“.
 7. Fyrir þá sem vilja kynna sér betur líffræðilegan fjölbreytileika kynja og kynlitninga mæli ég með Youtube myndbandinu „There Are More Than Two Human Sexes“ eftir Hank Green.
 8. TERF er skammstöfun fyrir enska hugtakið trans-exclusionary radical feminist sem þýða mætti sem trans-útilokandi róttækur femínisti.
 9. Á þeim fáeinu vikum sem liðnar eru frá því ég skrifaði fyrstu útgáfu pistilsins hefur fjöldi trans einstaklinga sem hafa verið myrtir í Bandaríkjunum hækkað frá 27 upp í 33. Það eru sex manneskjur á aðeins nokkrum vikum: Human Rights Campaign, „Fatal Violence Against the Transgender and Gender Non-Conforming Community in 2020“.
 10. Sjá betur hér: https://www.hitc.com/en-gb/2020/09/18/jk-rowling-book-burning/
 11. Í dag segist ég stundum vera pan en sú skilgreining sem mér finnst þó eiga einna best við mig er hreinlega bara að vera hinsegin.
 12. Íva Marín Adrichem, „Hinsegin menning“, Mannlíf, 21.9.2020.
 13. Þessi pistill var upphaflega birtur á Facebookgrúppunni Hinseginspjallið en birtist nú hér í örlítið breyttri mynd.
 14. Íva Marín Adrichem, „Hinsegin menning“, Mannlíf, 21.9.2020.
 15. Þessi ummæli stangast hins vegar á við þær upplýsingar sem birtar hafa verið á Facebook síðu LGB teymisins en þar hefur komið fram að hópurinn sé fyrst og fremst ætlaður samkynhneigðu og tvíkynhneigðu fólki: Harmageddon, „Ofbeldi og útskúfun í hinseginsamfélaginu“, 21.9.2020.
 16. Facebooksíða LGB teymisins, „About“.
 17. Heimasíða LGB Alliance, „About“.
 18. Fyrir þá sem vilja kynna sér betur líffræðilegan fjölbreytileika kynja og kynlitninga mæli ég með Youtube myndbandinu „There Are More Than Two Human Sexes“ eftir Hank Green.
 19. TERF er skammstöfun fyrir enska hugtakið trans-exclusionary radical feminist sem þýða mætti sem trans-útilokandi róttækur femínisti.
 20. Á þeim fáeinu vikum sem liðnar eru frá því ég skrifaði fyrstu útgáfu pistilsins hefur fjöldi trans einstaklinga sem hafa verið myrtir í Bandaríkjunum hækkað frá 27 upp í 33. Það eru sex manneskjur á aðeins nokkrum vikum: Human Rights Campaign, „Fatal Violence Against the Transgender and Gender Non-Conforming Community in 2020“.
 21. Sjá betur hér: https://www.hitc.com/en-gb/2020/09/18/jk-rowling-book-burning/
 22. Í dag segist ég stundum vera pan en sú skilgreining sem mér finnst þó eiga einna best við mig er hreinlega bara að vera hinsegin.

— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **

Lesa meira um...
Mest lesin
Kynferðislegt ofbeldi: Tilveruréttur minn

Nýjast á Vía
Afmælisrit Vía

Vía mælir með
Lygin um land hinna frjálsu