6. mars 2019

Það er til fólk sem er til staðar fyrir okkur alla ævi. Það er til staðar þegar við mætum í heiminn, það er til staðar þegar við þurfum á að halda í gegnum ævina, hvort sem um aðstoð varðandi líkamlegt eða andlegt ástand er að ræða, og eins er það okkur innan handar þegar við kveðjum.

Þetta er heilbrigðisstarfsfólk.

Í gegnum nám og þjálfun öðlast þetta fólk sérþekkingu og reynslu sem nýtist til að leita að lausnum við hinum ýmsu vandamálum okkar. Á góðum vinnustöðum vinnur þetta fólk í sátt og samlyndi og nýtir sína þekkingu og annarra til að vinna saman að bestu mögulegu niðurstöðum — bæta hvert annað sem og þau sem leita til þeirra.

Ég held að almenningur geri sér ekki grein fyrir öllu því sem heilbrigðisstarfsfólk sér og gerir. Og við getum í raun ekki vitað það því þau eru bundin þagnarskyldu og geyma okkar helstu leyndarmál, hæðir og lægðir.

Þeim ber skylda að sinna öllum sem leita sér aðstoðar og mæta fólki með faglegu viðmóti á forsendum skjólstæðinga. Þau skuldbinda sig til að framfylgja ákveðnum siðareglum, hlusta á sjúklinga og finna máli hvers og eins besta mögulega farveg innan kerfisins.

Þau geta ekki sagt „heyrðu, ég sinni ekki rasistum“ eða „nei, þú ert barnaperri, farðu heim“. Allir eiga rétt á umönnun heilbrigðisstarfsfólks. Börn, fullorðnir og aldraðir. Hvort sem þú ert forseti eða andlegur leiðtogi, fíkill eða fótboltaunnandi. Málið er að rasistar, karlrembur, ofbeldismenn og nauðgarar verða líka að geta leitað sér aðstoðar.

heilbrigðisstarfsfólk

Heilbrigðiskerfið er, með fullri virðingu fyrir okkar góða heilbrigðisstarfsfólki, ekki fullkomið — konur mæta t.d. oft ömurlegu viðmóti hjá læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki. Ég er alls enginn sérfræðingur — vinn hvorki né stunda nám í heilbrigðistengdum greinum. Eina reynslan sem ég hef er að vera ung kona á Íslandi sem hefur þurft að sækja sér heilbrigðisþjónustu oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. En svo er ég líka hálfgerður svindlari því ég er með tvo tengiliði inn í kerfið með nokkurra áratuga reynslu innan þess, verandi dóttir tveggja hjúkrunarfræðinga.

Konur hafa þurft að líða fyrir það eitt að vera konur þegar þær leita sér ráða hjá læknum. Þær eru stimplaðar taugaveiklaðar, ímyndunarveikar og ótrúverðugar. Þær eru oftar en ekki sendar heim án lausna, verr staddar en áður, því þær efast um eigin reynslu og upplifanir.

Vandamálið er líka að karlar leita sér síður aðstoðar vegna heilsukvilla því þeim finnst þeir þurfa að harka af sér og vera karlar (ath: fyrri setning endurlesist með eins djúpri röddu og mögulegt er) — þess vegna þurfum við átak eins og Mottumars þar sem spilað er inn á þessa skaðlegu karlmennsku og hugmyndir um að vegna kyns megirðu ekki sýna neina veikleika.
Enginn vinnur — allir tapa. Sem er synd því við eigum upp til hópa frábært heilbrigðisstarfsfólk.

Það eru ófaglegir einstaklingar innan allra starfsstétta og þ.á.m. heilbrigðisstéttanna. Þar má finna lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, sálfræðinga og móttökustarfsmenn sem eru óviðeigandi og koma illa fram við skjólstæðinga sína. Þetta er vandamál og úrræði eru oft af skornum skammti. Auka þarf upplýsingaflæði til sjúklinga um réttindi sín og þær bjargir sem í boði eru, komi upp sú staða að brotið sé á þeim.

Rót vandans er hins vegar kerfið sjálft og stéttaskiptingin innan þess; aldagamall valdastrúktúr og úrelt viðhorf sem byggja á kvenfyrirlitningu og gamaldags hugmyndum um hlutverk og ábyrgð.

Læknar > hjúkrunarfræðingar > sjúkraliðar og sjúkraþjálfarar

Hroki er alinn upp í læknum gagnvart hjúkrunarfræðingum og hjúkrunarfræðingum gagnvart sjúkraliðum — þetta er fáránlegt því án allra þessara starfsstétta færi allt í rúst — saman sinna þessar stéttir sömu einstaklingum út frá mismunandi vinklum.

Munið þið þegar Lækna-Tómas var kosinn maður ársins eftir að hafa framkvæmt magnaða hjartaaðgerð og bjargað manni sem fékk gat á hjartað eftir hnífsstungu? Þessi maður væri ekki á lífi í dag ef ekki væri fyrir hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og annað starfsfólk sem var á staðnum ásamt Tómasi — enda talaði Tómas um björgunarafrek allra starfsmanna Landsspítalans þetta kvöld.

Fyrrnefndir foreldrar mínir, hjúkrunarfræðingarnir, hafa nákvæmlega sömu menntun og grunnlaun. Þau mæta hins vegar ekki alltaf sama viðmóti og fólk ber stundum meiri virðingu fyrir pabba en mömmu — sérstaklega fólk af eldri kynslóðum. Hvers vegna? Jú hann er karlkyns… karlkyns heilbrigðisstarfsmaður, hann hlýtur að vera læknir. En mamma er hins vegar bara hjúkka, og þ.a.l. aðstoðarkona herra læknisins.

Flestar (kvenna)stéttir innan heilbrigðiskerfisins á Íslandi eru láglaunastéttir miðað við ábyrgð, menntun og álag. Ljósmæður lækka í launum við það að bæta við sig tveggja ára menntun ofan á hjúkrunarfræðimenntun sína, sjúkraliðar lifa ekki af laununum sínum og heilbrigðisstarfsfólk vinnur yfirvinnu í gríð og erg til að eiga í sig og á. Árum saman hefur verið skorið niður í heilbrigðiskerfinu vegna fjárskorts og talað um hagræðingu — laun hækka ekki í samræmi við aðrar stéttir, útgjöld hækka, úrræði minnka og þjónusta skerðist.

Hvar er virðingin fyrir því starfi sem þetta fólk (flest konur) sinnir? Hvar er virðing þessa fólks fyrir þeim sem leita sér hjálpar og hvar er virðing fólks hvert fyrir öðru innan kerfisins?

Við getum ekki lengur hummað fram af okkur vandamálin — hér þarf að verða viðhorfsbreyting.
Ég er orðin þreytt á því að bíða og vona.

Mér finnst ósanngjarnt að foreldrar mínir fái ekki þau laun sem þau eiga skilið, mér finnst ósanngjarnt að ljósmæður hafi tapað í kjarabaráttu sinni þrátt fyrir stuðning meirihluta þjóðarinnar, mér finnst ósanngjarnt að ég sem kona geti ekki farið til hvaða læknis sem er og treyst því ég fái þá þjónustu sem ég þarf, mér finnst endalaus niðurskurður falinn á bak við frasann „að það sé verið að hagræða“ ósanngjarn og mér finnst skortur á aðgerðum óviðunandi.

Ég ætla að byrja á mér.
 — Ég ætlast til þess að heilbrigðisstarfsfólk sýni hvert öðru meiri virðingu
 — Ég ætla að sýna þeim meiri virðingu
 — Og ég ætlast til þess að þau sýni mér virðingu

En þú?

Fleiri greinar eftir Evu Sigurðardóttur.

Verk eftir Evu Sigurðardóttur á Uppskeru Listamarkaði.













— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
Sjálfsákvörðunarréttur kvenna: Ég ræð mér sjálf

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Alltumlykjandi femínismi – Mikill er máttur fjölmiðla

næsta grein
Núvitund í +3,5°C


Lesa meira um...

Með fullri virðingu fyrir heilbrigðisstarfsfólki