Blæðingar: VELKOMIN Í KLÚBBINN

20. janúar 2019

Höfundur:
Eva Sigurðardóttir
@evasigurdar
@evasig__
evasigurdar.com
   

~~Varúð, pistlahöfundur var á túr við þessi skrif~~

Kæru klúbbfélagar, lífeðlisfræðingar og aðrir landsmenn

Ok. Ég held að við séum flest meðvituð um hvað blæðingar eru; að fara á túr, fá Rósu frænku í heimsókn, þessi tími mánaðarins, djöfullinn, andskotinn, „Ææ, ég er ekki ólétt“ eða „Fjúkk, ég er ekki ólétt“ og þar fram eftir götunum.

Jú, flestir sem eru með leg og á ákveðnu aldursbili fara mánaðarlega á blæðingar  þ.e. án inngrips í formi getnaðarvarna (yfirleitt hormónagetnaðarvarna með tilheyrandi aukaverkunum – stafurinn, pillan, hringurinn, lykkjan o.s.frv…)  Ég velti fyrir mér hvers vegna til eru einungis getnaðarvarnir, sem í flestum tilvikum eru framleiddar fyrir fólk með leg, með algengum aukaverkunum. Let’s face it, pillan er engin hollusta né aðrar hormónagetnaðarvarnir en samt þurfum við sem erum með leg að nota þessar varnir til þess að koma í veg fyrir óvelkominn getnað ― því flest viljum við stunda kynlíf en fæst búa til börn í öll þau skipti.

Hversu ótrúlega pirrandi að þér blæði reglulega svo ég tali nú ekki um helvítis túrverkina, andlegu sveiflurnar, sykurþörfina og vesenið í kringum það að koma í veg fyrir að það blæði í gegnum fötin þín og út um allar trissur. Það er t.d. mjög erfitt að þrífa blóð úr hvítu sófaáklæði. Svo væri líka frekar leiðinlegt að labba um með sístækkandi brúnrauðan blett í klofinu í hvert skipti sem man fer á túr.  Fyrsta skiptið sem ég fór á blæðingar, þá 13 ára, var tveimur mínútum áður en ég mætti í píanótíma. Aulinn ég þorði ekki að segja neitt við kennarann og kvaldist þessar 45 mínútur sem ég sat fyrir framan flygilinn á stól með ljósu áklæði, biðjandi til einhvers æðra að láta ekki blæða í gegn, mjög traumatizingVert er að minnast á það að píanóstóllinn slapp! Hringdi svo í hjúkrunarfræðinginn hana móður mína og hún sótti mig. Þessu var reddað og ég var mætt á réttum tíma í stærðfræðitíma, þar sem ég fékk hamingjuóskir með að vera komin í „klúbbinn“ frá tveimur vinkonum þegar ég hvíslaði þessu leyndarmáli að þeim. Að fara á túr var rosa tabú ― ég þorði varla að tala um túr þegar ég var unglingur (samt meira en flestar vinkonur mínar) og ég er nú ekkert sérstaklega gömul, en það hefur þó (vonandi) breyst síðan þá. Ég óska þess að unglingsstúlkur geti sagt sundkennaranum sínum að þær séu á túr, og treysti sér ekki að taka þátt, án þess að fara í kleinu.

Það er bölvað bras að fara á túr og mjög hamlandi ― ég fæ t.d. STURLAÐA túrverki og það virkar ekki fyrir mig að taka þessi hefðbundnu verkjalyf, íbúfen og/eða paratabs. Ég hef ælt úr verkjum, liðið út af vegna verkja og fengið það sterk verkjalyf að ég get ekki farið ein á klósettið (já getiði plís vorkennt mér) ― hversu hentugt að eiga foreldra sem báðir eru menntaðir hjúkrunarfræðingar? Gátu séð fagmannlega um sína á meðan ég þurfti að vera heima og gat ekki farið í skóla/vinnu/út úr húsi í fimm daga, mánaðarlega, vegna verkja.

Ég velti fyrir mér hvers vegna við erum ekki komin lengra varðandi rannsóknir og ráð gegn túrverkjum og blæðingum yfir höfuð. Endómetríósa er t.d. sjúkdómur sem fáir vita af og enn eru meira að segja til  læknar sem þekkja sjúkdóminn varla. Ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta ósanngjarnt og ef þetta væri vandamál sem karlar hefðu þurft að takast á við í gegnum tíðina, þá þori ég að veðja að við værum komin lengra í rannsóknum á „þessum málum“ og þetta væri ekkert vandamál.

Svo er það samstilling blæðinga. Þegar tveir eða fleiri einstaklingar með leg búa saman, eiga þeir til að samstilla tíðahringinn og fara á túr á sama tíma (!!!). Við mamma vorum t.d. samstilltar þegar ég bjó hjá foreldrum mínum og einnig hef ég yfirleitt stillt mig inn á tíðahring leg-meðleigjenda minna eða þær inn á minn tíðahring. Mér finnst þetta svo sjúklega áhugavert og enginn veit nákvæmlega hvers vegna og hvernig þetta gerist. Það eru til einhverjar kenningar um þetta ― las einhvern tímann að samstillingin væri tengd ferómónum (lyktarhormónum) og með því að finna lykt frá öðrum leg-einstaklingum breyttist hormónaflæðið í líkamanum og þ.a.l. tíðahringurinn. Ætli leg-einstaklingum sé t.d. skipt í ALPHA-leg og BETA-leg? Hver okkar, af mér og meðleigjendum mínum, ætli stjórni tíðahringnum og hver okkar aðlagaði sig að hinum? Mér finnst þetta mjög forvitnilegt en ég er því miður hvorki líffræðingur, læknir né vísindakona og biðla því til þeirra sem vinna innan lífeðlisfræðigeirans að auka femíníska hugsun og rannsaka til jafns einstaklinga með og án legs  og komast til botns í þessu máli.

Og fyrst ég er nú að þessu ― getum við lækkað verð á túrvörum? T.d. dömubindum og túrtöppum? Svo mæli ég líka með því að nota túrnærbuxur og álfabikarinn, snilld sem ætti að gefa öllum ungum leg-einstaklingum í grunnskólum landsins ― mun umhverfisvænna, ódýrara og þægilegra (að mínu mati).

Hvet ykkur allavegana til að prófa, kæru klúbbfélagar.

Myndir: Eva Sigurðardóttir






— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **

Lesa meira um...
Mest lesin
Kynferðislegt ofbeldi: Tilveruréttur minn

Nýjast á Vía
Afmælisrit Vía

Flæði: