Árið 2018-2019 upplifði ég alveg ótrúlegt ævintýri. Ég flutti til San Francisco til þess að stunda meistaranám í alþjóðaviðskiptum og endaði á því að stofna fyrirtæki sem var valið eitt af topp 20 í stærsta viðskiptahraðli samfélagsdrifinna sprotafyrirtækja í heimi, Hult Prize.

Hraðallinn var haldinn í kastala á Englandi þar bjó ég í sex vikur seinasta sumar ásamt 120 öðrum frumkvöðlum. Auk þess að keppa um milljón dollara fjárfestingu byggðum við fyrirtækið frá grunni undir handleiðslu alþjóðlegra sérfræðinga. Topp sex teymin kynntu svo sína hugmynd á aðalskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í New York og Bill Clinton afhenti vinningsteyminu ávísunina.

Mynd sem inniheldur gras, utandyra, f�lk, gar�ur  Lýsing sjálfkrafa búin til

Á myndinni fyrir ofan má sjá fjölbreytta hópinn sem var föruneytið mitt í gengum þessa mögnuðu lífsreynslu. 120 frumkvöðlar í 40 teymum. Hópurinn kom frá öllum heimshornum; Palestínu, Gvatemala, Suður-Afríku, Bangladesh, Japan, Ástralíu, Frakklandi og allt þar á milli. Ég svo kynjahlutföllin sem voru 40/60, körlum í vil.

Á næstu mynd sjáum við svo topp sex teymin, sem voru valin úr fyrri hópnum.

Mynd sem inniheldur gras, einstaklingur, utandyra, bygging  Lýsing sjálfkrafa búin til

Finnst okkur eitthvað athugavert við þetta úrtak? Í þessum teymum voru 20 einstaklingar, þrjár konur og 17 karlar. Liðin voru síðan tekin afsíðis og beðin um að „fylla“ laus pláss með fleiri konum, svona til að þetta liti örlítið betur út á sviðinu hjá Sameinuðu þjóðunum.

Ég hef eiginlega ekki getað hætt að hugsa um þetta síðan þetta gerðist. Á meðan hluti af mér fyllist vonleysi, þá finn ég líka fyrir orku og drifkrafti til þess að hrista upp í hlutunum og breyta þessu. Ekki bara fyrir sakir jafnréttis, heldur vegna þess að ég get varla ímyndað mér hverju við sem samfélag erum að missa af með þessu ástandi.

Hér eru nokkrar staðreyndir um kvenfrumkvöðla:

Konur stofna þriðjung fyrirtækja.

Fyrirtæki stofnuð af konum fá aðeins 2,8% vísis fjárfestinga og það er sögulega hæsta hlutfall sem við höfum séð.

Kvenleidd fyrirtæki eru tvöfalt arðbærari en karlleidd fyrirtæki.

Á Íslandi státa stofnanir og fyrirtæki sig gjarnan af því að hafa „jafnt árangurshlutfall kynjanna“ þegar kemur að styrkjum, fjárfestingum, vali í viðskiptahraðla og önnur tækifæri fyrir frumkvöðla. Það er, ef 20% umsækjenda eru konur, þá eru 20% þeirra sem verða fyrir valinu konur. Mig langar að leggja til að við látum á það reyna hvort þetta heldur þegar umsóknum kvenna fjölgar. Mín áskorun til allra þeirra kvenna sem eru með viðskiptahugmyndir eða langar að verða frumkvöðlar, er að sækja um. Sækja um styrkinn, hraðalinn, námskeiðið. Bóka fund með sérfræðingum og fjárfestum. Hugsa stórt og hika ekki við að sækjast eftir öllu því sem getur hjálpað hugmyndinni þinni að stækka. Það er fyrsta skrefið.

Með aukinni áherslu stjórnvalda á nýsköpun eru spennandi tímar framundan fyrir frumkvöðla og þau okkar sem hrærast í nýsköpun. Ég vonast til þess að sjá þar kerfislægar breytingar sem munu vinna að því að móta nýsköpunarumhverfið að þörfum kvenna og fjölbreyttra hópa. Til þess ætla ég sjálf að leggja mitt að mörkum. Í sumar munuð þið nefnilega ekki finna mig í kastala á Bretlandi, heldur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Þar ætla ég að rannsaka stöðu kvenna í nýsköpun og leita leiða til þess að valdefla konur til nýsköpunar. Seinasta kynjaúttekt á styrkja úthlutunum ráðuneytisins, frá árinu 2014, sýndi okkur að einungis 19% fjármagnsins úr nýsköpunarsjóðum ráðuneytisins fer til kvenleiddra verkefna. Ég mun byrja á að uppfæra tölfræðina og setja saman tillögur til úrbóta á úthlutunarferli sjóðanna til þess að stuðla að jafnri eftirspurn kynjanna eftir fjármagni. Auk þess mun ég taka viðtöl við frumkvöðla og áhrifaaðila úr nýsköpunarumhverfinu á Íslandi sem gefin verða út sem hlaðvarps sería í lok sumars. Þættirnir verða svo aðgengilegir hér á Flóru útgáfu. Með útgáfu þeirra vonast ég til þess að draga fram áhugaverðar fyrirmyndir, kortleggja stöðu kvenna og valdefla konur til nýsköpunar.

Við þurfum fleiri konur í nýsköpun. Við þurfum að hvetja þær áfram, velja þær og fjárfesta í þeim. Það er kominn tími til þess að konur njóti góðs af nýsköpun til jafns við karla. Að lausnir við vandamálum sem tilheyra reynsluheimi kvenna fái góðan hljómgrunn og fjármagn til þess að geta vaxið og hámarkað möguleika sína. Það er undirstaða þess að tækifæri og hagnýtt gildi nýsköpunar sé jafnt milli kynjanna.

— — —

Hlustaðu á hlaðvarpsþættina Konur í nýsköpun eftir Ölmu Dóru hér.






— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **

Lesa meira um...
Mest lesin
Kynferðislegt ofbeldi: Tilveruréttur minn

Nýjast á Vía
Afmælisrit Vía

Vía mælir með
Alma Dóra kynnir hlaðvarpið Konur í nýsköpun