Greta Thunberg.
Ég er alltaf að tönnlast á þessu nafni þessa dagana, því ég vil að sem flestir viti hver hún er. Hvað hún stendur fyrir.
Greta Thunberg er 16 ára gömul, sænsk, og hefur haft meiri áhrif á loftslagsumræðuna síðastliðið ár en flestir sérfræðingar samanlagt. Ég dýrka þessa stelpu. Hún stendur frammi fyrir alþjóðasamfélaginu og spyr fyrir hönd framtíðarkynslóða af hverju í andskotanum við séum ekki að gera meira. Af hverju við séum ekki að gera neitt til að koma í veg fyrir loftslagsvána þegar við höfum haft allar upplýsingar um vandann í fleiri áratugi.
Greta Thunberg.
Hún hætti að mæta í skólann því hún sá ekki tilganginn. Af hverju að mennta sig og gera framtíðaráform þegar framtíðin er öll að fara til fjandans? Þess í stað hefur hún staðið fyrir utan sænska alþingið og krafið stjórnmálamenn svara. Hún hefur komið fram á loftslagsþingi sameinuðu þjóðanna og skammað ráðamenn. Spurt af hverju í andskotanum þeir séu ekki að gera meira. Var ég búin að nefna að hún er nýorðin 16 ára gömul? Það er þessi kraftur, þessi óbeislaða heift í garð aðgerðarleysis sem ég vildi að við gætum öll tekið okkur til fyrirmyndar. Það er nákvæmlega þetta sem mig langar að gera þegar ég finn loftslagskvíðann skríða meðfram hryggjarsúlunni og hríslast svo niður í tær eins og óþægilegur kuldahrollur sem ég get ekki hrist af mér sama hvað ég reyni.
En af hverju hika ég alltaf? Af hverju hristi ég alltaf af mér ónotin í stað þess að láta virkilega heyra í mér?
Ég veit það ekki. En meðan ég þegi og japla á loftslagskvíðanum með óbragð í munninum þá fagna ég tilveru Gretu Thunberg og leyfi mér að enda þetta þvaður á tilvitnun í hana sem kristallar þennan vanda okkar ágætlega. Góða helgi.
Mynd: Fabrice Coffrini fyrir AFP