Ég horfði á tvær myndir sem eiga sér stað í Notting Hill hverfinu í London í þessari viku. Þær heita Notting Hill og Mangrove.
Fyrsta myndin sem ég horfði á, Notting Hill, á sér stað um 1999 þar sem hvítur maður sem vinnur í bókabúð verður ástfanginn af stórstjörnu, hvítri konu. Maðurinn, sem Hugh Grant leikur, á að vera birtingamynd manns sem tilheyrir lægri stéttum samfélagsins. En þrátt fyrir það, verður hvíta fræga leikkonan, Julia Roberts, ástfangin af honum og fyrirgefur þessa lágu stöðu hans í samfélaginu.
Seinni myndin sem ég horfði á gerist um 1970, í sama hverfi, en hún heitir Mangrove eftir leikstjóranum Steve McQueen. En sú mynd fjallar um sögu sem var mér ekki kunnug fyrir. Myndin fjallar um sögu hóps sem þekkist sem The Mangrove Nine, sem eru níu einstaklingar af karabískum uppruna sem voru handtekin og kærð af lögreglunni fyrir að taka þátt í mótmælum og valda óeirðum í hverfinu. Stór hópur fólks sem bjó í Notting Hill á þessum tíma voru innflytjendur frá Karabísku eyjunum, hópur sem er þekktur sem Windrush kynslóðin. En þessi kynslóð upplifði mikinn rasisma og ofbeldi af hálfu yfirvalda. Það var einmitt þessi rasismi og óréttlæti yfirvalda sem Mangrove Nine hópurinn, ásamt fleirum, voru að mótmæla sem leiddi til þess að þau voru handtekin þrátt fyrir að mótmælin hefðu farið friðsamlega fram. Saga sem virðist endurtaka sig, eins og sást í Black Lives Matter mótmælunum síðastliðið sumar.
Það er engin vafi á því hvor myndin hefur haft meiri áhrif á þekkingu okkar á hverfinu Notting Hill. Fyrir mig sjálfa, þegar ég hef heimsótt þetta hverfi og gengið um göturnar með litríku húsunum í allskonar pastel litum, skoðað markaðina og litið inn í bókabúðirnar, þá hugsaði ég um rómantísku gamanmyndina frá 1999.
Það sem hrjáir mig mest við þennan samanburð á þessum tveimur myndum, er að ég hafði sjálf ekki hugmynd um sögu svartra í Notting Hill hverfinu. Þrátt fyrir að ég eigi sameiginlegan bakgrunn með einstaklingunum úr hópnum Mangrove Nine, þar sem móðir mín tilheyrir einmitt þessari Windrush kynslóð. Margir innflytjendur frá Karabísku eyjunum komu til Bretlands uppúr 1950 og byggðu upp líf og menningu í hverfum líkt og Notting Hill þar sem enginn annar vildi þar búa. Samtímis urðu þau fyrir ofsóknum, kerfisbundins rasisma og ofbeldi af hálfu yfirvalda sem að reyndu að hrekja þau burt.
Nokkrum áratugum seinna komu efnaðari stéttir og sáu til þess að „byggja upp” hverfið og gera það „fínna” til þess að yfirstéttin gæti keypt sér eignir á svæðinu. Kaupa ódýrt, selja dýrt. Á ensku þá er þetta kallað „gentrification” sem felur í sér ákveðna auðvaldsþróun, en það hefur ekki verið fundið nægilega góð þýðing á hugtakinu á íslensku.
Það má segja að fyrri myndin sem ég horfði á sé einnig hluti af þessari auðvaldsþróun, að sýna heiminum glansmynd af hverfi sem er uppfullt af magnaðri sögu. Sögu innflytjenda af þjáningu, niðurlægingu og hatri. En einnig fallegri sögu innflytjenda sem byggðu upp glæsilegt hverfi uppfullt af ást og menningu, liti og gleði.
Ég er mjög fegin að loksins eru myndir eins og Mangrove til. Því án þeirra, hefði ég mögulega aldrei komist að þessari sögu Mangrove hópsins, og áhrif þeirra á breskt samfélag. Án myndar eins og Mangrove þá hefði ég alltaf tengt Notting Hill við söguna af Hugh Grant og Julia Roberts, og litríku húsin þar sem ríka fólkið í London býr í. En núna tengi ég þessi hús og þetta hverfi við fólkið sem bjó það í rauninni til, innflytjendur frá Karabísku eyjunum í Notting Hill.