Dagatal

Dagatalið 2023 er hægt að kaupa HÉR.

Dagatal Vía er samansafn dagsetninga og merkra viðburða einstaklinga og hópa sem í einum eða öðrum skilningi hafa verið jaðarsett. Merkisviðburði og dagsetningar sem við ættum að þekkja, muna og fagna.

Við þökkum Kvennasögusafni kærlega fyrir yfirlesturinn og notkun á efni frá þeim.

Janúar

Janúar eftir Ásgerði Heimis

1. janúar 1942

Fyrsta konan er ráðin sem lögregluþjónn á Íslandi.

Sú kona var Jóhanna Knudsen, sem fékk það hlutverk að fylgjast með konum sem höfðu samskipti við hermenn sem voru staðsettir á Íslandi vegna seinni heimstyrjaldarinnar. Jóhanna stjórnaði þannig því sem kallað hefur verið stærsta njósnaaðgerð sem hefur verið framkvæmd hér á landi, með því að fylgjast með eða njósna um allt að 1000 konur á aldrinum 12-61 árs. Þar af skráði hún upplýsingar um 500 af þessum konum, tók sumar þeirra inn til yfirheyrslu og kom að því að senda stúlkur á það sem kallað var vinnuhæli, eða í betrunarvist, vegna svokallaðra siðferðisbrota með hermönnum.

Þór Whitehead sagnfræðingur sem hefur haft aðgang að og rannsakað skjöl Jóhönnu hefur sagt að „Jóhanna hafi tvímælalaust litið svo á að í því væru fólgin einhvers konar landráð að konurnar væru í samskiptum við útlendinga. „Afstaða hennar til þessarra kvenna var þar af leiðandi mjög fjandsamleg í eðli sínu. Auk þess taldi hún að þær væru sekar um siðferðisbrot. Sem sagt að öll samskipti við hermenn væru bæði óþjóðleg og ósiðleg.“ Lesa má meira um störf Jóhönnu HÉR.

1. janúar 1975

Kvennasögusafn Íslands stofnað.

Safnið var stofnað á heimili Önnu Sigurðardóttur í Reykjavík við upphaf kvennaársins [árið 1996 opnaði það á Þjóðarbókhlöðu]. Hægt er að kynna sér sögu safnisins frekar HÉR.

2. janúar 1884

Fyrsta konan nýtti kosningarétt sinn á Íslandi.

Þennan dag var Andrea Friðrika Guðmundsdóttir (1845–1911), saumakona á Ísafirði, fyrst kvenna á Íslandi til að nýta kosningarétt sinn til sveitarstjórna.

Hún og örfáar aðrar konur höfðu þá kosningarrétt samkvæmt lögum sem Danakonungur setti árið 1882, en samkvæmt þeim lögum fengu konur í fyrsta skipti kosningarétt á Íslandi. Þessi kosningaréttur var þó afar takmarkaður og hljóðaði upp á að ekkjur og aðrar ógiftar konur sem sátu fyrir búi eða áttu með sig sjálfar fengu kosningarétt í sýslunefnd, hreppsnefnd, bæjarstjórn og á safnaðarfundum. Þessi réttur gilti fyrir konur sem voru eldri en 25 ára og honum fylgdi ekki kjörgengi. Það skal tekið fram að vinnukonur áttu sig ekki sjálfar og voru því mjög fáar konur sem gátu nýtt sér þennan kosningarétt.

8. janúar 1895

Fyrsta útgáfa kvennablaðsins Framsóknar.

Útgáfa kvennablaðsins Framsóknar (1895-1901) hófst á Seyðisfirði. Útgefendur og ritstýrur voru Sigríður Þorsteinsdóttir og Ingibjörg Skaftadóttir. Fyrstu útgáfuna má finna HÉR.

13. janúar 1935

Fyrstu lögin sem heimiliðu þungunarrof voru sett á Íslandi.

Ísland varð fyrsta landið, að Rússlandi undanskildu, sem tók þau ákvæði inn í löggjöf um þungunarrof, að til viðbótar læknisfræðilegum ástæðum, ef þær væru ekki nægilegar einar út af fyrir sig, mætti meðal annars taka tillit til félagslegra ástæðna við ákvörðun um þungunarrof. Konur þurftu samþykki tveggja ótengdra aðila til þess að fá þungunarrof samþykkt. Áður en lögin voru sett á þurftu konur sem framkölluðu þungunarrof, og þau sem aðstoðuðu þær við gjörninginn að sæta hegningarvinnu allt að 8 árum. Læknar höfðu framkvæmt aðgerðir áður en lög sem heimiluðu þungunarrof voru sett en aldrei reyndi á refsiákvæðið.

13. janúar 1938

Lög um ófrjósemisaðgerðir að eigin vali og þungunarrof eftir nauðganir.

Lög nr. 16/1938 voru sett og voru þau að einhverju leyti bakslag þegar kom að réttindum kvenna. Lögin heimiluðu m.a. ófrjósemisaðgerðir að eigin vali og þungunarrof eftir nauðganir, með vissum skilyrðum þó, sem vissulega var framför, en inn í þessum lögum var einnig veitt leyfi fyrir ófrjósemisaðgerðum og fóstureyðingum sem framkvæma mætti þá á ósjálfráða að beiðni lögráðamanna, þó það væri gegn óskum þeirra sem aðgerðirnar væru framkvæmdar á. Þessi lög áttu því að mestu um brot á líkömum fatlaðs fólks og fólks með geðsjúkdóma.

24. janúar 1908

Fyrstu konurnar voru kjörnar í bæjarstjórn í Reykjavík.

Bríet Bjarnhéðinsdóttir, Katrín Magnússon, Þórunn Jónassen og Guðrún Björnsdóttir voru kjörnar í bæjarstjórn í Reykjavík í fyrstu kosningum sem konur höfðu almennan kosningarrétt til sveitastjórnar. Bríet, Katrín, Þórunn og Guðrún buðu sig allar fram fyrir hönd hins nýstofnaða Kvennalista. 18 framboð voru á kjörskrá þetta ár og Kvennalistinn vann kosninguna með 21,8% af greiddum atkvæðum og kom öllum fulltrúum sínum inn í bæjarstjórn. Velgengni flokksins má meðal annars þakka kosningabaráttu kvennana, en af mörg telja að Kvennalistinn hafi verið fyrsti stjórnmálaflokkurinn á Íslandi til að fara í vel skipulagða markaðsherferð fyrir kosningar. Lesa má meira um framboðið HÉR.

26. janúar 1894

Stofndagur Hins íslenska kvenfélags.

Félagið var fyrsta kvenfélagið sem hafði kvenréttindi á stefnuskrá sinni. Helsta baráttumál kvenfélagsins var stofnun háskóla á Íslandi.

27. janúar 1907

Stofndagur Kvenréttindafélags Íslands.

Kvenréttindafélag Íslands stofnað af Bríeti Bjarnhéðinsdóttur og 17 öðrum baráttukonum. Félagið var stofnað til þess „að starfa að því að íslenskar konur fái fullt stjórnmálajafnrétti á við karlmenn, kosningarétt, kjörgengi svo og rétt til embætta og atvinnu með sömu skilyrðum og þeir“.

30. janúar 1874

Fæðingardagur Bjargar C. Þorláksson.

Björg var fyrsta íslenska konan til þess að ljúka doktorsprófi og jafnframt fyrst Norðurlandabúa til að ljúka slíku prófi frá Sorbonneháskóla. Hún lauk doktorsnámi í lífeðlisfræði og varði doktorsritgerð sína 17. júní 1926, sama ár hlaut hún riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu. Björg var gift Sigfúsi Blöndal frá 1903-1923 og unnu þau í um það bil 20 ár saman að gerð íslensk-danskrar orðabókar. Bókin kom út í kringum skilnað þeirra og var vinnu Bjargar aðeins getið einu sinni, stuttlega í formála bókarinnar. Eftir að Dr. Sigríður Dúna Kristumndsdóttir skrifaði bók um Björgu sem var gefin út árið 2001 hefur ríkari hefð myndast fyrir því á flestum vettvöngum að minnast á vinnu Bjargar þegar talað er um orðabókina og það tímamótaverk sem hún sannarlega var. En fyrir útgáfu bókarinnar var sjaldan minnst á hlut hennar í verkinu. Brjóstmynd af Björgu var sett upp fyrir framan Odda á lóð Háskóla Íslands árið 2012, og var það fyrsta styttan af nafngreindri konu til að rísa í Reykjavík.

Febrúar

Febrúar eftir Ionu Sjöfn

2. febrúar 1845

Fæðingardagur Torfhildar Hólm.

Rithöfundurinn Torfhildur var fyrsti einstaklingurinn á Íslandi sem var rithöfundur að atvinnu, og sem fékk listamannalaun. Hún var fyrsta konan á Íslandi til þess að gefa út skáldsögu en saga hennar Brynjólfur Sveinsson biskup (1882) var fyrsta skáldsaga sem prentuð var eftir íslenska konu. Þar að auki var hún fyrsta konan til þess að gefa út og ritstýra tímariti.

3. febrúar 2009

Fyrsti hinsegin einstaklingurinn og fyrsta konan kosin sem forsætisráðherra.

Jóhanna Sigurðardóttir verður fyrsta konan á Íslandi til að verða forsætisráðherra ásamt því að vera fyrsti opinberlega hinseginn einstaklingurinn til að gegna því embætti. Jóhanna er einnig sú kona og sá hinsegin einstaklingur sem hefur setið lengst á Alþingi en hún sat á Alþingi frá 1978-2013, eða í 35 ár. Af ferli Jóhönnu á þingi var hún forsætisráðherra í 4 ár (2009-2013) og félagsmálaráðherra í 8 ár (1987–1994 og 2007–2008) og félags- og tryggingamálaráðherra í 1 ár (2008–2009).

9. febrúar 1835

Fæðingardagur Ágústu Svendsen.

Ágústa Svendsen var fyrsta konan á Íslandi til að hefja verslunarrekstur þegar hún opnaði hannyrðaverslun í Reykjavík árið 1887. Sögu Ágústu er hægt að kynna sér betur HÉR.

10. febrúar 2020

Fyrsti Íslendingurinn vinnur Óskarsverðlaun.

Tónskáldið Hildur Guðnadóttir vinnur Óskarsverðlaun, fyrst Íslendinga. Óskarinn fékk hún fyrir bestu frumsömdu tónlistina, fyrir tónlistina sem hún samdi fyrir kvikmyndina Joker.

17. febrúar 1983

Framboð Kvennalista til Alþingis tilkynnt.

Tilkynnt er um framboð sérstaks Kvennalista sem bauð sig fram til Alþingis og Kvennalistakonur klufu sig þá frá Kvennaframboðinu sem sátu þá sem borgarfulltrúar í Reykjavík. Þrjár konur voru kjörnar á þing fyrir Kvennalistann, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir og Kristín Halldórsdóttir.

18. febrúar 1911

Fæðingardagur Auðar Auðuns.

Auður var fyrst kvenna bæjarstýra Reykjavíkur árið 1959, varð einnig fyrst kvenna til þess að útskrifast sem lögfræðingur á Íslandi og var þar að auki fyrst kvenna til að gegna ráðherraembætti, en hún var dóms- og kirkjumálaráðherra fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá 1970-1971.

21. febrúar 1895

Útgáfa Kvennablaðsins hefst.

Í Reykjavík hófst útgáfa Kvennablaðsins (1895-1919) í febrúar. Útgefandi og ritstýra var Bríet Bjarnhéðinsdóttir.

22. febrúar 2010

Samkynhneigðir mega giftast samkvæmt lögum.

Ein hjúskaparlög sett. Breytingar á hjúskaparlögum tóku gildi þar sem einstaklingum er gert frjálst að giftast einstaklingi af sama kyni.

27. febrúar 1888

Fæðingardagur Ástu Magnúsdóttur.

Ásta var fyrst kvenna skipuð ríkisféhirðir á Íslandi árið 1933 og var það meðal annars fyrir tilstilli kvenfélaga sem sendu ríkisstjórninni áskoranir um að veita Ástu starfið eftir að hún hafði starfað við vettvanginn í 23 ár. Ásta var þar að auki fyrsta íslenska konan til að stíga upp í flugvél árið 1919.

Mars

Mars eftir Sarkany

1. mars 1890

Fæðingardagur Laufeyjar Valdimarsdóttur.

Laufey var fyrsta konan til að stunda nám við Lærða skólann, hún varð stúdent þaðan 1910. Þrátt fyrir að sitja skólann ein fyrsta veturinn þá voru stúlkur orðnar litlu færri en drengir síðasta vetur Laufeyjar í skólanum. Laufey tók við formennsku í Kvenréttindafélagi Íslands, af móður sinni, Bríeti Bjarnhéðinsdóttur, árið 1927 og sinnti formennskunni til æviloka, 1945.

5. mars 2010

Lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja.

Alþingi samþykkir frumvarp þess efnis að bæði konur og karlar skuli eiga fulltrúa í stjórn einkahlutafélaga og hlutafélaga þar sem fleiri en 50 starfsmenn starfa að jafnaði þegar stjórn er skipuð þremur mönnum, og þegar stjórnarmenn eru fleiri en þrír skal tryggt að hlutfall hvors kyns fyrir sig sé ekki lægra en 40%.

Ísland er annað landið á eftir Noregi sem lögbindur kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja. Íslensku lögin um kynjakvóta ganga þó lengra en norsku lögin, því þau taka bæði til hlutafélaga og einkahlutafélaga, auk lífeyrissjóða, en norsku lögin ná einungis til hlutafélaga.

Ólíkt norsku lögunum eru þó engin refsiákvæði tilgreind í þeim íslensku.

Lesa má nánar um lög um kynjakvóta á vef Jafnréttisstofu.

8. mars

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna.

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna er alþjóðlegur dagur til að fagna félagslegum, efnahagslegum, menningarlegum og pólitískum árangri kvennabaráttunnar. Dagurinn markar einnig ákall til aðgerða þegar kemur að jafnrétti kynjanna. Heimildir herma að dagurinn hafi verið haldinn hátíðlegur í rúma öld í mars en þó ekki alltaf á sömu dagsetningunni.

8. mars 1990

Stígamót stofnuð.

Stígamót eru grasrótarsamtök sem berjast gegn kynferðisofbeldi og veita aðstoð fyrir fólk sem hefur verið beitt kynferðisofbeldi.

Ef þú, eða einhver sem þú þekkir, hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi getur þú haft samband við Stígamót HÉR.

8. mars 1993

Neyðarmóttaka fyrir þolendur kynferðisofbeldis stofnuð.

Neyðarmóttakan stendur öllum til boða sem þangað leita, án tilvísunar, vegna nauðgunar, tilraunar til nauðgunar eða annars kynferðisofbeldis.

12. mars 1945

Lög nr. 60 um laun starfsmanna ríkisins sett.

Við skipun í starfsflokka og flutning milli launaflokka skyldu konur að öðru jöfnu hafa sama rétt og karlar.

14. mars 2003

Feministafélag Íslands stofnað.

Saga Femínistafélags Íslands hófst árið 2003. Spenna lá í loftinu. Kosningar voru framundan og óánægja víða með stöðu jafnréttismála. Póstlisti sem átti að vera umræðuvettvangur fyrir femínista var stofnaður í febrúar 2003. Skráningar á listann fóru fram úr björtustu vonum og innan tveggja vikna voru um 200 femínistar skráðir á listann. Í kjölfarið varð krafan um stofnun félags hávær.

Félagið var virkt í u.þ.b. 11 ár en var svo formlega lagt niður 1. mars 2020.

27. mars 1838

Fæðingardagur Júlíönu Jónsdóttur.

Júlíana var fyrst kvenna á Íslandi sem gaf út ljóðabók. Árið 1876 kom út ljóðabókin Stúlka, sem Júlíana gaf út á sinn eigin kostnað. Árið 1916 gaf hún svo út bókina Hagalagðar, sem kom út í Winnipeg og var fyrsta skáldverk eftir íslenska konu sem kemur út á bók vestanhafs.

31. mars 1863

Madame Vilhelmína Lever varð fyrst íslenskra kvenna til að taka þátt í opinberum kosningum.

Kosningin var til bæjarstjórnar á Akureyri. Vilhelmína var einnig fyrsta íslenska konan til að sækja um og fá lögskilnað árið 1924.

Apríl

Kríur á kreiki eftir Söru Höskulds

1. apríl 2018

Fyrsta konan tekur við embætti landlæknis.

Alma Möller tekur við embættinu, en hún er fyrsta konan til að gegna því starfi í 258 ára sögu embættisins.

8. apríl 1924

Guðmundur Sigurjónsson var dæmdur í 8 mánaða fangelsi fyrir samkynhneigð.

Guðmundur var fyrsti og eini einstaklingurinn á Íslandi sem fékk dóm fyrir það sem þá var kallað kynvilla. Hann var sýknaður eftir þriggja mánaða fangavist, en lögin sem dómurinn var byggður á hegningarlögum frá 1869 sem voru talin úrelt. Meira um Guðmund má lesa á samkynhneigd.is.

10. apríl 1981

Fyrsta kvennahljómsveitin kemur fram.

Hljómsveitin Grýlurnar varð fyrsta kvennahljómsveitin sem kom fram opinberlega hér á landi.

11. apríl 1912

Mánaðarlöngu verkfalli kvenna í fiskverkun í Hafnarfirði lauk með samningum.

Þetta var annað verkfall kvenna á Íslandi, en það fyrsta, eftir því sem best er vitað, var sumarið 1907 en þá fóru hafnfirskar verkakonur, sem unnu við fiskbreiðslu, í verkfall. Það verkfall stóð stutt yfir, dagsstund eða svo, og uppskáru konurnar launahækkun.

22. apríl

Earth day

Fyrst var haldið upp á “Earth day”, eða Dag jarðarinnar, árið 1970 í Bandaríkjunum, en .að var ekki fyrr en 1990 sem haldið var upp á daginn alþjóðlega. Deginum er ætlað að auka vitund um þá þætti sem umhverfi okkar steðjar ógn af.

24. apríl 1995

Fyrsti Íslendingurinn fer í kynleiðréttingaraðgerð.

Anna Kristjánsdóttir er fyrst Íslendinga til að fara í kynleiðréttingaraðgerð. Anna var mjög opin með sitt ferli í íslenskum fjölmiðlum og mætti miklum fordómum, en á sama tíma ruddi hún brautina fyrir það transfólk sem á eftir henni kom. Árið 2017 var gefin út bókin Anna – eins og ég er sem fjallar um líf Önnu.

26. apríl

Lesbian visibility day

Haldið hefur verið upp á “Lesbian visibility day”, eða Sýnileikadag lesbía, síðan árið 2008, en dagurinn markar upphaf “Lesbian visibility week”. “Lesbian Visibility Week” miðar að því að sýna samstöðu með öllum LGBTQ+ konum og kynsegin í samfélaginu, sem og að fagna lesbíum. “Lesbian Visibility Week” er rödd einingar og lyftir upp ÖLLUM konum, sérstaklega þeim sem eru jaðarsettar.

Maí

Maí eftir Hugrúnu Lenu Hansdóttur

12. maí 1977

Fyrsta konan ráðin sem atvinnuflugmaður.

Ásta Hallgrímsdóttir (f. 1951) var fyrsta konan sem var ráðin sem flugmaður til flugfélags, Eyjaflugs Bjarna Jónssonar í Vestmannaeyjum.

18. maí 1920

Stjórnarskrá Íslands er tekin í gildi.

Með gildistökunni er aldurstakmark kjörgengra kvenna afnumið, konur og hjú mega því kjósa til Alþingis við 25 ára aldur, rétt eins og karlar.

18. maí 1976

Fyrstu jafnréttislögin samþykkt.

Fyrstu jafnréttislögin voru samþykkt voru á Íslandi, lög nr. 78/1976. Í lögunum var tekið fram að tilgangur þeirra væri að stuðla að jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla.

22. maí 1975

Lög um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir voru sett á Alþingi.

Lögin rýmkuðu um heimildir varðandi þungunarrof sem höfðu staðið frá 1935 og 1938 og gerðu konum m.a. kleift að fara í þungunarrof aðeins af félagslegum ástæðum, áður þurftu ástæður líka að vera læknisfræðilegar til að félagsfræðilegar ástæður yrðu taldar til. Fyrsti hluti þeirrra var um ráðgjöf og fræðslu, sá næsti um fóstureyðingar og sá síðasti um ófrjósemiaðgerðir. Var fyrsta hluta laganna fyrst og fremst ætlað að stuðla að kynheilbrigði fólks og koma í veg fyrir ótímabærar þunganir með því að hafa kynfræðslu í skólum landsins og veita ráðgjafarþjónustu um kynlíf og barneignir á heilbrigðisstofnunum.

22. maí 2000

Lög um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 sett.

Samkvæmt lögunum áttu íslenskir feður í fyrsta sinn sjálfstæðan óframseljanlegan rétt til þriggja mánaða fæðingarorlofs, til jafns við mæður og sameiginlega eiga foreldrar rétt á þremur mánuðum til viðbótar til að skipta sín á milli. Feður fengu í fyrsta skipti launaðan fæðingarorlofsrétt árið 1997, en fengu þá aðeins tvær vikur.

24. maí 1982

Kvennaframboðið fékk kjörna fulltrúa í sveitastjórnarkosningum.

Í þessum fyrstu kosningum sem Kvennaframboðið tók þátt í fengu þær tvo fulltrúa kjörna í borgarstjórn í Reykjavík og tvo í bæjarstjórn á Akureyri.

26. maí 1930

Fæðingardagur Ragnhildar Helgadóttur.

Ragnhildur var fyrst kvenna til að vera kosin forseti neðri deildar Alþingis árið 1961.

30. maí 1884

Fæðingardagur Sólveigar Jónsdóttur.

Sólveig hlaut fyrst kvenna á Austurlandi kosningu til bæjarstjórnar, en hún sat í bæjarstjórn Seyðisfjarðar frá 1910-1913. Sólveig var einnig ein af stofnendum kvenfélagsins Hvik, sem var stofnað 27. október 1900.

Júní

Apaengi eftir Þórhönnu Ingu Ómarsdóttur

2. júní 1982

Stofnfundur samtaka um kvennaathvarf fer fram.

Þá var ákveðið að opna athvarf fyrir konur sem ekki gætu búið heima hjá sér vegna ofbeldis og 6. desember sama ár var Kvennaathvarfið opnað. Samtök um kvennaathvarf voru í upphafi grasrótarsamtök en árið 1995 var horfið frá því fyrirkomulagi og mynduð formleg samtök. Árið 2010 var stofnuð sjálfseignarstofnun um húseign Kvennaathvarfsins en rekstur athvarfsins hélst óbreyttur.

5. júní 1886

Fyrsta grein eftir konu birtist í íslensku tímariti.

“Nokkur orð um menntun og rjettindi kvenna” eftir Bríeti Bjarnhéðinsdóttur var sú grein en hún birtist Fjallkonunni.

15. júní 1926

Hornsteinn lagður að byggingu Landspítalans.

Alexandrína drottning lagði hornstein að byggingu Landspítalans. Í steininn er m.a. ritað „Hús þetta – Landsspítalinn – var reistur fyrir fje sem íslenskar konur höfðu safnað og Alþingi veitti á fjárlögum til þess að: Líkna og lækna.“

19. júní 2017

Agender Pride Day.

Dagur haldinn hátíðlegur á alþjóðavettvangi til að efla vitund um kynsegin einstaklinga.

19. júní 1915

Kvenréttindadagur Íslands.

19. júní er Kvenréttindadagur Íslands af því tilefni að þann dag, árið 1915 fékk hluti kvenna á Íslandi í fyrsta sinn kosningarrétt til Alþingis, á sama tíma fengu þær rétt til að bjóða sig fram til Alþingis. Vert er að taka fram að samkvæmt lögunum sem voru sett fram þennan dag máttu aðeins konur kjósa sem voru 40 ára og eldri og sem voru ófatlaðar og höfðu ekki fengið sveitastyrk. Þessi takmörkun kom augljóslega fötluðu og fátæku fólki sérstaklega illa, ekki síst konum og þá sérstaklega ekkjum með börn á framfæri.

21. júní 2018

Stofnfundur Vía.

Á þessum degi var stofnfundur feminísks vefrits sem seinna varð Vía.

29. júní 1980

Fyrsti Íslendingurinn vinnur Ólympígull.

Sigurrós Karlsdóttir varð fyrst Íslendinga til að vinna til Ólympíugulls, en hún vann til gullverðlauna í 50m bringusundi á Ólympíuleikum fatlaðra. Á sama tíma setti hún ólympíumet og heimsmet í greininni.

30. júní 1980

Fyrsta konan kosin forseti.

Vigdís Finnbogadóttir var kjörin fjórði forseti Íslands, en hún var fyrsta konan til að gegna embættinu og fyrsta konan í heiminum til að vera lýðræðislega kjörinn þjóðarleiðtogi.

Júlí

Júlí eftir Tinnu Eik Rakelardóttur

1. júlí 1900

Lög um fjármál hjóna sett.

Með þessum lögum fengu giftar konur yfirráð yfir eigin tekjum og eignum.

3. júlí 1883

Fæðingardagur Ástu Kristínar Árnadóttur.

Ásta Kristín var oft kölluð Ásta málari. Hún lauk sveinsprófi málara árið 1907. Hún var fyrst kvenna í Danmörku til að ljúka prófinu og fyrst íslenskra kvenna til að ljúka iðnnámi. Því næst fór hún til Hamborgar þar sem hún lauk iðnmeistaraprófi í greininni og varð þar með ekki bara fyrsti Íslendingurinn til að ljúka meistaraprófi í iðngrein, heldur fyrsta konan með meistaranafnbót í málaraiðn í Þýskalandi. Ásta var á sínum tíma vinsælasti og eftirsóttasti málarinn í Reykjavík og skreytti stofuveggi ríkustu og áhrifamestu bæjarbúanna.

Meira um Ástu má lesa HÉR í samantekt Stefáns Pálssonar um Ástu.

6. júlí 2019

Lög um kynrænt sjálfræði tóku fyrst gildi á Íslandi.

Lögin hafa tekið nokkrum breytingum síðan þau voru fyrst sett. Lögin voru tímamót á heimsvísu og er þeim ætlað að tryggja rétt fólks með kynhlutlausa skráningu og trans fólks, auk barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni.

7. júlí 1896

Fæðingardagur Katrínar Thoroddsen.

Katrín var fyrst íslenskra kvenna skipuð héraðslæknir á Íslandi, árið 1924. Meðal baráttumála Katrínar var notkun getnaðarvarna og takmarkanir barneigna, Katrín taldi þungunarrof ekki eiga rétt á sér nema líf og heilsa móðurinnar væri að veði eða um nauðgun hafi verið að ræða. Til að sporna gegn óvelkomnum þungunum vildi hún að getnaðarvarnir yrðu aðgengilegar og fólk yrði frætt um notkun þeirra. Hún taldi mikilvægt að auka kynfrelsi kvenna og tryggja þeim sjálfsákvörðunarrétt og aukin völd yfir eigin lífi. Árið 1934 samdi Vilmundur Jónsson landlæknir frumvarp til laga um þungunarvarnir og fóstureyðingar sem síðar var samþykkt sem lög frá Alþingi og tók það í flestu mið af sjónarmiðum Katrínar. Katrín sat á Alþingi 1946-1949 fyrir Sameiningarflokk alþýðu – Sósíalistaflokks Íslands og var þriðja konan á Íslandi til að sitja á þingi.

14. júlí

Non-binary Day

Dagurinn miðar að því að vekja athygli á þeim vandamálum sem kynsegin fólk stendur frammi fyrir um allan heim. Dagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur árið 2012. Dagsetningin var valin þar sem hún er akkúrat á milli alþjóðlegs karladags og alþjóðlegs baráttudags kvenna.

16. júlí

Drag Day

Haldið hefur verið upp á daginn frá 2009 og hann miðar að því að fagna og viðurkenna Drag listinni um allan heim.

18. júlí 1973

Fæðingardagur Kristínar Rósar Hákonardóttur.

Kristín Rós er ein mesta afreksmanneskja íslenskra íþrótta, en hún keppti á fimm heimsmeistaramótum og fimm Ólympíumótum og setti samtals sextíu heimsmet og níu Ólympíumótsmet. Kristín Rós var kjörin íþróttamaður ársins hjá Íþróttasambandi fatlaðra tólf ár í röð, fyrst árið 1995 og síðast árið 2006. Hún hlaut viðurkenningu frá Eurosport árið 2004 fyrir framúrskarandi árangur og var fyrsti íslenski íþróttamaðurinn sem fær þessa viðurkenningu sem og fyrsti íþróttamaðurinn úr röðum fatlaðra í heiminum. Árið 2013 var Kristín útnefnd í heiðurshöll Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Þrátt fyrir öll hennar afrek hefur Kristín aldrei verið valin íþróttamaður ársins á Íslandi.

20. júlí 1970

Fyrsti opinberi leikurinn í knattspyrnu kvenna fór fram.

Lið frá Keflavík og Reykjavík mættust í forleik að karlalandsleik Íslands og Noregs.

23. júlí 2011

Druslugangan gengin í fyrsta skipti.

Með Druslugöngunni er viljinn sá að færa ábyrgð kynferðisglæpa frá þolendum yfir á gerendur. Klæðnaður, hegðun eða fas þolenda er ekki hægt að nota sem afsökun fyrir kynferðisglæpum. Færum skömmina þar sem hún á heima!

Druslugangan er alltaf haldin laugardaginn fyrir Verslunarmannahelgina.

27. júlí 1856

Fæðingardagur Bríetar Bjarnhéðinsdóttur.

Bríet var fyrsta íslenska konan til þess að fá birta eftir sig grein í íslensku tímariti, hún var fyrsta íslenska konan til að bjóða sig fram til Alþingis, var fyrsta konan á Íslandi, ásamt þeim Katrínu Magnússon, Þórunni Jónassen og Guðrúnu Björnsdóttur, til að vera kosin í bæjarstjórn, var fyrst kvenna á Íslandi til að halda opinberan fyrirlestur og var ein af stofnendum Hins íslenska kvenfélags og Kvenréttindafélags Íslands. Hún hefur oft verið kölluð súffragetta Íslands og á stóra hlutdeild í vinnunni sem fór í það að öðlast kosningarrétt og kjörgengi til handa íslenskum konum.

Ágúst

Ágúst eftir Öldu Lilju

6. ágúst 1881

Fæðingardagur skáldkonunnar Huldu.

Hulda hét réttu nafni Unnur Benediktsdóttir Bjarklind. Nafni Huldu hefur ekki verið haldið hátt á lofti en hún samdi þó eitt þekktasta ljóðið um Ísland, þ.e. “Hver á sér fegra föðurland” og vann með því ljóði ljóðasamkeppni sem efnt var til í tilefni þess að Ísland fékk sjálfstæði 1944. Hulda var afkastamikið skáld; á 45 ára rithöfundaferli komu frá hennar hendi tuttugu skáldrit, stór og smá, nokkur smásagnasöfn og sjö ljóðabækur og á sama tíma rak hún stórt heimili. Hulda var einn af frumkvöðlum nýrómantísku stefnunnar og notaði hún t.d. markvisst stílbragðið vísanir sem er einkennandi fyrir nútímaljóð og sömuleiðis sker hún burt rím þegar henni býður svo við að horfa. Þá endurnýjaði hún og endurvakti þuluformið og var óhrædd við að tjá tilfinningar sínar og kvenlegar kenndir. Meira má lesa um Huldu á skáld.is.

10. ágúst 1874

Steinunn Jónsdóttir og Ingibjörg Pálsdóttir kusu í kosningum til hreppsnefndar

Ekkjurnar Steinunn Jónsdóttir á Hesti og Ingibjörg Pálsdóttir á Kirkjubóli í Bjarnardal greiddu atkvæði þegar var kosið í hreppsnefnd Mosvallahrepps, áður en kosningarréttur kvenna var lögbundinn. Steinunn og Ingibjörg, og Vilhelmína Lever, sem voru fyrstu þrjár konurnar á Íslandi til að kjósa nýttu sér það ákvæði í kosningarlögunum sem sögðu að „alle fuldmyndige Mænd“ mættu lögum samkvæmt kjósa, en þetta ákvæði var þýtt sem “allir fullmyndugir menn”, en ekki karlmenn, líkt og Danirnir áttu sennilega við.

20. ágúst 1915

Fæðingardagur Ragnheiðar Guðmundsdóttur

Ragnheiður var fyrst kvenna til að vera kennari í Háksóla Íslands, en hún var ráðin árið 1952 og starfaði þar sem kennari í lífeðlisfræði við tannlæknadeild til ársins 1961.

25. ágúst 1991

Rannsóknastofa í kvennafræðum tók formlega til starfa við Háskóla Íslands.

RIKK, sem seinn bar nafnið Rannsóknarstofa í kvenna- og kynjafræðum, en heitir nú Rannsóknarstofa í jafnréttisfræðum, er þverfagleg stofnun. Aðalmarkmið hennar er að efla og samhæfa jafnréttisrannsóknir og rannsóknir í kvenna- og kynjafræðum jafnframt því að vinna að og kynna niðurstöður rannsókna.

September

September eftir Theresa Kohlbeck Jakobsen

23. september

Dagur til að fagna tvíkynhneigðum

Dagur sem ætlaður er til að sameina tvíkynhneigt samfélag, vini þeirra og stuðningsmenn þeirra. Dagurinn er einnig ætlaður til að auka vitund og gefa tækifæri til að fræða almenning um tvíkynhneigð.

Dagurinn miðar að því að vinna gegn fordómum gegn tvíkynhneigðum hjá bæði gagnkynhneigðum og LGBTQ+ fólki.

25. september 2000

Vala Flosadóttir fær bronsverðlaun í stangastökki á Ólympíuleikunum í Sidney

Vala Flosadóttir varð fyrst ófatlaðara íslenskra kvenna til að hljóta verðlaun á Ólympíuleikunum, en hún vann til bronsverðlauna í stangarstökki.

Október

Snjótittlingar eftir Söru Höskulds

1. október 1911

Lög um menntun kvenna og rétt til embætta samþykkt á Alþingi.

Konur fengu fullan rétt til menntunar og embætta með þessum lögum.

1. október 2019

Ný lög um þungunarrof tóku gildi.

Lögin færðu konum sjálfsákvörðunarrétt í eigin þungun og rýmkuðu tímaramma þungunarrofs til 22. viku

10. október 1864

Fæðingardagur Camillu Torfason

Camilla lauk fyrst íslenskra kvenna stúdentsprófi. Það var frá Trier menntaskólanum í Kaupmannahöfn 1889. Hún lauk kandidatsprófi í heimspeki við Kaupmannahafnarháskóla ári síðar. Hún stundaði síðan nám í stærðfræði í tvö ár, en lauk ekki prófi heldur sneri sér að kennslustörfum. Hún var stofnandi og fyrsti forstöðumaður Kvenfélagsins Óskar á Ísafirði árið 1907.

10. október 1871

Fæðingardagur Elínborgar Jacobsen

Elínborg var fyrst kvenna til að ljúka stúdentsprófi á Íslandi, en hún lauk prófi utanskóla árið 1897. Stelpur fengu rétt til að stunda nám og taka próf í Lærða skólanum, eina menntaskóla landsins, árið 1886. Elínborg fluttist til Kaupmannahafnar að loknu námi og hóf nám í læknisfræði við Kaupmannahafnarháskóla, en hætti þar námi. Hún starfaði seinna sem nuddlæknir.

11. október

Coming Out Day

“Coming Out Day” eða “Dagur til að koma út (úr skápnum)” var fyrst haldinn í Bandaríkjunum en það eru alltaf fleiri og fleiri sem taka þátt í að vekja athygli á þessum degi. Dagurinn er samt að vissu leyti umdeildur vegna þess að sumu fólki finnst hann leggja áherslu á það að LGBTQ+ fólk þurfi að koma út úr skápnum á meðan gagnkynhneigt, cis fólk hefur ekki þurft þess.

19. október 1970

Rauðsokkahreyfingin er stofnuð

Konur á rauðum sokkur komu fyrst saman 1. maí 1970 í verkalýðsgöngunni og báru þar risastóra styttu af konu með stórum borða strengdan yfir bumbuna. Á honum stóð: Manneskja – ekki markaðsvara. Þar var kynnt til sögunnar eitt helsta baráttumál Rauðsokkahreyfingarinnar sem síðar var formlega stofnuð með fjölsóttum kynningarfundi í október í Norræna húsinu. Lesa má meira um Rauðsokkahreyfinguna HÉR.

19. október

Alþjóðlegur dagur fornafna

Haldið er upp á alþjóðlegan dag fornafna þriðja miðvikudaginn í október ár hvert. Alþjóðlegur fornafnadagur leitast við að gera virðingu, miðlun og fræðslu um persónuleg fornöfn algengari. Að vísa til fólks með fornöfnum sem það velur sjálft er grundvallarliður í mannlegrar reisn og virðingu.

22. október 1863

Fæðingardagur Ólafíu Jóhannsdóttur.

Ólafía var fyrsta íslenska konan sem gefin var út sjálfsævisaga um, en bókin Frá myrkri til ljóss: æfisaga var gefin út árið 1925. Þar að auki var Ólafía ein af stofnendum Hins íslenska kvenfélags og Hvítabandsins, barðist fyrir stofnun Háskóla Íslands og var fulltrúi kvenna á Þingvallafundinum 1895.

Ólafía er þjóðþekkt í Noregi fyrir störf sín í þágu fátækra, heimilislausra og fólks í kynlífsvinnu. Í Osló er nefnd gata eftir henni (Olafiagangen), og heilsumiðstöð (Olafiaklinikken), ásamt fleiru. Þar hefur líka staðið brjóstmynd af Ólafíu síðan 1930, 21 ári áður en fyrsta styttan af nafngreindri konu var sett upp á Íslandi og 82 árum áður en fyrsta styttan af nafngreindri konu var reist í Reykjavík. Árið 2006 var gefin út bók um ævi Ólafíu sem var skrifuð af Dr. Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur.

24. október 1949

Í fyrsta skipti voru tvær konur kjörnar á Alþingi

Þær konur voru Kristín L. Sigurðardóttir (1898-1971), 9. landskjörinn þingmaður, og Rannveig Þorsteinsdóttir (1904-1987), 8. þingmaður Reykvíkinga. 31 ár leið á milli þess að fyrsta konan var kjörin á Alþingi þar til þær urðu tvær.

24. október 1975

Kvennafrídagurinn

Íslenskar konur lögðu niður vinnu þennan dag og flykktust á baráttufundi víðsvegar um landið. Í Reykjavík komu konur saman á Lækjartorgi þar sem haldnar voru ræður og fluttir baráttusöngvar. Talið er að 25-30.000 hafi verið þar samankomin, aðallega konur.

26. október

Dagur til vitundavakningar um Intersex fólk

Intersex fólk er fætt með líkamleg, erfðafræðileg eða hormónaeinkenni sem eru hvorki að fullu líffræðilega kvenkyns né karlkyns, samsetning af karlkyni og kvenkyni, eða hvorki kvenkyns né karlkyns. Dagurinn er ætlaður til að vinna að því að tryggja mannréttindi Intersex fólks. Hægt er að kynna sér Intersex málefni betur á vef Intersex Ísland.

30. október 2020

Uppskera – Listamarkaður Vía stofnaður

Nóvember

Nóvember eftir Gunnhildi Þórðardóttur

1. nóvember 2011

Fyrsta litaða manneskjan sest á þing.

Amal Tamimi var fyrsti litaði Íslendingurinn til að taka sæti á Alþingi. Amal var varaþingmaður Suðvesturkjördæmis og sat á Alþingi frá nóvember–desember 2011 og september 2012 fyrir Samfylkinguna.

12. nóvember 2007

Fyrsti innflytjandinn og fyrsta transkonan, sest á þing

Andie Sophia Fontaine var fyrst innflytjenda, og transfólks til að setjast á þing, en hún var varaþingmaður fyrir Vinstri Græna á árunum 2007-2009.

19. nóvember 1875

Fyrsta kvenfélagið í Reykjavík stofnað.

Thorvaldsenfélagið stofnað. Kvenfélag sem hefur frá upphafi stutt konur og börn á ýmsan hátt, meðal annars með fjárframlögum, matargjöfum og kennslu. Thorvaldsenfélagið kom einnig að rekstri vöggustofu fyrir börn í Reykjavík sem bar nafnið Hlíðarendi og hefur verið mjög umdeilt vegna þeirrar ummönnunar, eða vöntunar á henni, sem fólkið sem þurfti að dveljast á vöggustofunni sem börn hlaut.

20. nóvember

Minningardagur transfólks

Dagur til minningar um transfólk sem hefur misst lífið vegna ofbeldis og fordóma í garð transfólks.

21. nóvember 1889

Fæðingardagur Kristínar Ólafsdóttur

Kristín var fyrsta konan til að ljúka prófi frá Háskóla Íslands, en hún lauk embættisprófi í læknisfræði.

Desember

Desember eftir Sólrúnu Ylfu

1. desember 1921

Fyrstu konurnar fengu fálkaorðu.

Elín Eggertsdóttir Briem (1856-1937) og Þórunn Jónassen (1850-1922) hlutu fyrstar kvenna riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu.

7. desember 1918

Fæðingardagur Jórunnar Viðar.

Jórunn lauk prófi í tónsmíðum árið 1945, fyrst kvenna á Íslandi, frá The Juilliard School of Music í New York.

12. desember 1973

Fyrstu lögreglukonurnar útskrifuðust.

Dóra Hlín Ingólfsdóttir og Katrín Þorkelsdóttir útskrifuðust af tilskyldu lögreglunámskeiði og urðu svo fyrstu konurnar á Íslandi sem klæddust einkennisbúningi lögreglumanna og gegndu almennum lögreglustörfum. Kvenlögregludeild hafði verið stofnuð innan lögreglunnar árið 1953 en þar var að mestu unnið að sérverkefnum í unglinga- og kvennamálum.

14. desember 1867

Fæðingardagur Ingibjargar H. Bjarnason.

Ingibjörg var fyrsta konan til að vera kjörin á Alþingi og sat þar frá 1922-1930, hún var fyrsti Íslendingurinn til að ljúka leikfimiprófi og var forstöðukona Kvennakólans frá 1906 til æviloka, árið 1941.

18. desember 1823

Fæðingardagur Þóru Melsteð.

Þóra stofnaði Kvennaskólann, fyrstu menntastofnunina á Íslandi sem bauð konum upp á formlega menntun, árið 1874. Skólann stofnaði hún ásamt eiginmanni sínum, Páli Melsteð. Þóra var systir Ágústu Johnsen, sem stofnaði fyrsta stúlknaskólann á Íslandi árið 1851.

20. desember 1930

Landspítalinn tók til starfa.

Íslenskar konur áttu drjúgan þátt í því að spítalinn var stofnaður, en þær hófu fjársöfnun 1916 til byggingar hans í tilefni stjórnmálaréttinda sinna 19. júní 1915.