Umhverfisvænni, heilbrigðari og sjálfbærari lífstíll með Orkulauf

16.október

Höfundur:
Þórdís Björk Arnardóttir og Íris Thorlacius Hauksdóttir
https://www.instagram.com/orkulauf/

   

Ljóst er að neikvæð umhverfisáhrif af mannavöldum eru vaxandi vandamál í nútímasamfélagi. 

Sífellt fleiri hafa áhuga á að draga úr þessum áhrifum með því að breyta daglegum venjum. Slíkar breytingar geta verið yfirþyrmandi því það er í mörg horn að líta. Hvar á að byrja? Hvar er hægt að finna góðar og áreiðanlegar upplýsingar? Er til vettvangur sem getur hvatt einstaklinga til að finna nýjar lausnir og haldið utan um árangur þeirra? 


Orkulauf er snjallsímaforrit sem hvetur notendur sína til að tileinka sér umhverfisvænni, heilbrigðari og sjálfbærari lífstíl. Forritið gerir notendum sínum kleift að halda utan um árangur sinn og finna nýjar leiðir til að draga úr kolefnisspori sínu. Markmið Orkulaufs er að útbúa vettvang þar sem samfélagið getur sameinast og dregið úr þeim slæmu áhrifum sem það hefur á umhverfið. Notendur safna sér inn „Orkulaufum” með því að velja umhverfisvænni kosti í daglegu lífi og eru verðlaunaðir með afsláttum og tilboðum þegar þeir ná ákveðnum árangri. Hægt er að safna sér inn Orkulaufum á ýmsa vegu, til dæmis með því að skilja bílinn eftir heima og hjóla, ganga eða taka strætó í staðinn. Þá er hægt að reikna út hversu mikinn útblástur notandi sparar ásamt því hversu mikið er sparað í bensínskostnað. Auk þess er hægt safna sér inn orkulaufum með því að lesa allskyns fróðleik um umhverfið. Fyrstu grein Orkulaufs um Ósonlagið er hægt að nálgast á heimasíðunni www.orkulauf.is. Orkulauf vonast til þess að fræðsluviðmót appsins muni gefa fólki betri betri skilning á vandamálinu og tækifær til þess að taka ákvarðanir um hvernig það getur stuðlað að umhverfisvænna lífi. Auk þess er listi yfir verslanir sem bjóða upp á umhverfisvænar vörur og þjónustu. Einnig verður hægt að setja sér markmið eins og að elda vegan 1x í viku eða hjóla 3x í vinnuna á viku. Síðast en ekki síst verður hægt að senda áskoranir á fjöldskyldu og vini.

Hugmyndin varð til fyrir nokkrum árum í áfanga í HR sem heitir Sjálfbærni en í ár gafst loksins tækifæri til að framkvæma hana. Þróun á smáforritinu byrjaði fyrir alvöru í september þegar við tókum þátt í Gullegginu. Þar komumst við áfram í topp 10 en úrslitin munu liggja fyrir í kvöld.


Teymi Orkulaufs samanstendur af þremur einstaklingum með breitt áhuga- og sérfræðisvið. Þórdís Björk Arnardóttir er hugmyndasmiður verkefnisins og sér um almannatengsl, stjórnun teymisins ásamt því að þróa framenda lausnarinnar. Emil Hjaltason býr yfir góðri þekkingu á sviði bakendaþróunar, forritunar og fjármálagreiningar. Hann sér um tæknilegt umhverfi lausnarinnar og fjármál. Fræðslustjóri verkefnisins er Íris Thorlacius Hauksdóttir og hefur hún umsjón með fræðsluviðmótinu. Hún er framhaldsskólakennari í líffræði og umhverfisfræði og býr yfir góðri þekkingu og reynslu á því sviði.




Umhverfisvænni og sjálfbærari framtíð er markmið okkar allra og það er á okkar ábyrgð að líta í eigin barm og athuga hvort það sé eitthvað sem við getum breytt við eigin hegðun. Íslendingar eiga náið samband við náttúruna og þess vegna teljum við þá vera betur í stakk búna til að leggja á sig þá vinnu sem þarf til að vernda og varðveita þessa dýrmætu náttúru. Við búum yfir miklum vilja til að gera betur en hegðun okkar breytist þó ekki eingöngu með nýrri þekkingu. Það eru viðhorf okkar sem þurfa að þróast og breytast. Til þess verður fólk að fá tækifæri til að prófa sig áfram með litlum skrefum. Orkulauf vonast til þess að geta leyst þetta vandamál.






— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **

Lesa meira um...
Mest lesin
Kynferðislegt ofbeldi: Tilveruréttur minn

Nýjast á Vía
Afmælisrit Vía

Vía mælir með
Ungar athafnakonur: Feminísk leið til að bjarga umhverfinu