Konur þurfa bara að vera duglegri að vera karlar
Sem kona í viðskiptum hef ég komist að einu: Ég er aldrei alveg eins og ég á að vera. Það er eitthvað við tóninn í röddinni minni, eða fatavalið, sem er of þetta eða of hitt. Ég er alltaf of mikið máluð eða svo lítið að fólk spyr mig hvort ég sé hreinlega veik. Ég fæ mikið af ráðleggingum um að vera ákveðnari, en samt rólegri. Sjá til þess að röddin mín heyrist en hún má alls ekki ekki yfirgnæfa aðra. Ég er annaðhvort svaka stjórnsöm eða læt of lítið fyrir mér fara og stundum bæði á sama tíma. Það er ekkert eitt sem er að. Það er örlítið af öllu og línan á milli „of lítið“ og „of mikið“ er svo þunn að enginn getur borið almennileg kennsl á hana.
Ég virðist bara þurfa að vera “aðeins meira þetta” og “aðeins meira hitt”.
Þegar við leitum svara við því af hverju konur skipa minnihluta stjórnenda byrja svörin gjarnan á sömu sjö orðunum: Konur þurfa bara að vera duglegri að…
Við þekkjum þessi orð. Þau prýddu meira að segja strætisvagn á götum Reykjavíkur á tímabili. En af hverju rúlla þau svona auðveldlega af tungunni? Er það vegna þess að ekkert sem konur gera er nógu gott? Eða er það vegna þess að við erum að reyna að troða konum í mót sem aðeins fáar þeirra geta beygt og brotið sig saman til að passa í?
Margir kannast við myndlíkingu Alberts Einstein þar sem hann talar um að dæma ólíkar dýrategundir eftir hæfni þeirra til að klifra upp í tré. Samkvæmt þeim stöðlum mun fiskurinn lifa lífi sínu haldandi að hann sé heimskur. Nú eru karlar og konur vissulega ekki ólíkar dýrategundir, en samfélagsmótun kynjanna er ólík og þar af leiðandi eru dæmigerðir eiginleikar karla og kvenna ekki þeir sömu. Sem þýðir að ef mótin eru steypt eftir karlinum þá er sama hversu dugleg konan er, því hún mun aldrei verða nógu góð. Það er nefnilega ekki verið að hvetja hana til þess að vera „nógu góð útgáfa af sjálfri sér“, heldur „nógu góð útgáfa af karlmanni“.
Þarftu í alvörunni að vera; ákveðnasta, áhættusæknasta og kröfuharðasta manneskjan í herberginu til þess að vera góður stjórnandi? Eða erum við bara vön því að stjórnendur séu karlar sem búa yfir þessum eiginleikum? Metum við konur út frá karllægum stöðlum vegna þess að það eru bestu mælikvarðarnir? Eða er það vegna þess að við þekkjum ekkert annað?
Kaldhæðnin liggur í því að við erum alltaf að komast betur og betur að því að bestu stjórnendurnir búa yfir eiginleikum sem gjarnan þykja „kvenlegir“. Eins og auðmýkt og samkennd, útsjónarsemi, skilning og hæfni til að setja sig í spor annarra. Góðir stjórnendur koma í ólíkum umbúðum og búa að fjölbreyttum eiginleikum sem byggjast á kyni þeirra, uppeldi, bakgrunni, menntun, reynslu og fleiri áhrifaþáttum.
Við sem samfélag missum af þessu fólki með því að ætla að mæla það eftir einsleitum stöðlum. Það þarf fjölbreytta stjórnendur til að leiða fjölbreytt starf og ólíka hópa fólks. Þess vegna þurfa konur ekki að vera duglegri að vera karlar, samfélagið þarf bara að vera duglegra að meta fjölbreytta eiginleika jöfnum verðleikum.