Konur í nýsköpun: Nýsköpunarlandið Ísland með Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur
Alma Dóra Ríkarðsdóttir hitti Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í tengslum við rannsóknarverkefni sem Alma vann í sumar á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Þær fóru um heima og geima og ræddu m.a. um skiptinám á unglingsárunum, nýsköpunarflóruna á Íslandi, feril Þórdísar og áhrifafólkið á hennar starfsferli.
Þær spjölluðu um hvernig það væri að vera ráðherra svo ung að aldri og gagnrýni sem Þórdís hefur fengið. Hún sagðist hafa búist við því að fá gagnrýni á hve ung hún var, og sagðist hafa fengið meira sett út á aldurinn frekar en kyn sitt. Hún sagði að sú gagnrýni hefði í raun verið ekki óeðlilegt en reynsla sé ekki allt, „það eru ekkert allir sem verða betri útgáfa af sjálfri sér eftir allskonar reynslu.“ Þórdís segir henni hafi þótt mikilvægast að standa sig og sýna hvað hún gæti, ekki endilega bara fyrir flokkinn eða sjálfa sig heldur fyrir aðrar ungar konur.
Aðspurð sagði Þórdís að Ragnheiður Ríkarðsdóttur og Ólöf Nordal væru þær konur sem hefðu haft hvað mest áhrif á starfsframa sinn, vegna þess að þær gáfu henni tækifæri og trúðu á hana. Þórdís tók við framkvæmdastjóra þingflokks Sjálfstæðisflokksins á eftir Ragnheiði og var aðstoðarkona Ólafar Nordal áður en en Þórdís fór sjálf á þing.
Þegar talið barst að mikilvægi fjölbreytni í áhrifastöðum sagði Þórdís það gríðarlega mikilvægt í sínum huga að hafa fjölbreytt fólk sitjandi við borðið, mikilvægt sé að hafa fleiri en eina konu og einnig að blanda kynslóðum. „Ákvarðanataka verður jafnvel einfaldari og skýrari þegar búið er að taka einhvernveginn öll sjónarmiðin til greina inn í ákvörðunina.“
Eitt aðalmarkmið nýsköpunarstefnu ríkisstjórnarinnar er fjölbreytni og Alma velti fyrir sér hvaða ferlar séu til staðar til að knýja fram kerfisbreytingar sem ná þessu markmiði stefnunnar. Þórdís sagði að það væri margt óunnið í greiningu á hinum ýmsu ferlum, en það sem erfiðast væri að setja fingurinn á væri „ómeðvitaða hlutinn“. Hún segir það hafa áhrif hvernig hlutirnir hafa verið gerðir síðustu 100 ár, en því fleiri sem hafa þessu kynjagleraugu á sér, því betur getum við komið auga á þessa hluti.
Þórdís sagði mikil tækifæri núna til að liðka fyrir um fyrir konum svo þær hagnist á hugmyndum sínum og ráði almennt yfir meira fjármagni. Þó konur sitji núorðið meira í stjórnum en áður, þá eru ekki margir forstjórar konur og konur fara með minna fjármagn. Þá nefndi Þórdís jafnframt að mikilvægt væri að hafa fjölga fyrirmyndum sem eru frumkvöðlar svo börn geti séð fyrir sér að verða slíkur og ræktað þá eiginleika. Hún sagði við þyrftum að hætta að ætlast til af börnum að fara öruggu leiðina og vekja athygli á hve mikilvægt það sé að fólk taki áhættu, og mistök séu ekki af hinu slæma heldur til að læra af. „Ef engir frumkvöðlar eru þá stöðnum við.“ sagði Þórdís.
Þórdís Kolbrún hvetur alla til að grípa tækifærin í stað þess að finna ástæðu fyrir að gera það ekki. Sjálf segist hún ekki vera búin að ákveða hvað hún ætli að verða þegar hún verður stór, en nýsköpunarheimurinn heilli. Hún vilji sjá hið opinbera taka betur á móti hugmyndum frumkvöðla til að bæta opinberu kerfin okkar með hjálp tækninnar og nýrra lausna.
Hægt er að hlusta á allan þáttinn hér!